Fyrirgefum vorum skuldunautum um leið og siðblindir fá sýn

Í umrótinu sem orðið hefur hér á landi að undanförnu skolar ýmsu á land. Þar á meðal er sú staðreynd að örfáir einstaklingar gátu stofnað einkalífeyrissjóði vegna þess að ofurlaun þeirra voru slík að talið var réttmætt að þeir gætu sett á fót eigin fjármagns- og lánastofnanir.

Nú er það þekkt staðreynd að við, hinir almennu verkamenn í víngarði Drottins, eins og það er orðað í Biblíunni, höfum getað fengið lán hjá lífeyrissjóðunum sem við greiðum í. Þessi lán eru miðuð við greiðslugetu hvers og eins og eru með ákveðnum vöxtum - sum að vísu með breytilegum vöxtum.

Þeir, sem urðu svo ríkir að þeir gátu stofnað einkalífeyrissjóði með tugum eða hundruðum milljóna, jafnvel áður en menn urðu fertugir, hljóta nú að velta því fyrir sér hvort þjóðin sé reiðu búin að fyrirgefa þeim misgjörðir sínar. Þeir stofnuðu bankareikninga í Bretlandi og Hollandi, sem almenningur ber ábyrgð á og settu jafnvel heila banka og meira að segja heilt land á hausinn.

Rætt hefur verið um að frysta eignir þessara "auðmanna". Eru lífeyrisréttindin ekki þar á meðal? Þegar þetta er hugleitt virðist sem einkalán úr einkalífeyrissjóði, sem nú er fjallað um, verði því ógeðfeldara sem hugurinn hvarflar víðar. Af hverju þarf einkalífeyrisþeginn 70 milljóna kr lán til 20 ára með einni afborgun - lokagreiðslu? Bendir lánið ekki til þess að nú eigi að fjárfesta og braska í þeirri von að milljónirnar ávaxtist með betri hætti en innan einkalífeyrissjóðsins?

Fyrirgefning fæst einungis ef menn eru reiðubúnir að gjalda það sem þjóðarinnar er. Útrásarvíkingarnir eiga að réttu lagi enga lífeyrissjóði sem skipta milljónum eða milljörðum. Þjóðin á þessa sjóði og þarf á þeim að halda.

Hvenær skyldu siðblindir fá sýn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband