Lambnrúturinn sem söng í Ríkisútvarpið

Hljóðmyndin sem hér er birt nýtur sín best í góðum heyrnartólum. Hún er í 128 bita upplausn. Panta má hljóðrit í betri gæðum hjá framleiðanda.

Þegar við hjónin litum við að Hala í Suðursveit í sumar að skoða Þórbergssetrið bar fyrir augu ungan dreng með hund og voru þeir félagar eitthvað að sýsla við lambhrút sem var í stekk ásamt gamalá nokkurri. Mig langaði að vita deili á þessum hópi og fékk eftirfarandi svar frá Þorbjörgu á Hala:

“Þetta er hann Þorkell, hann er heimagangur á Hala, fæddist í þennan heim síðastliðið vor og móðir hans dó skömmu síðar, ekki tókst að finna handa honum fósturmóður svo að hann var settur í þennan heimasmíðaða stekk ásamt geldri gamalá sem bar ekki til hans neinar móðurtilfinningar. Þar var honum gefin mjólk á pela fram eftir sumri og gerðist hann mannelskur mjög og jarmaði gjarnan til að fá athygli fólks og kalla eftir mjólk í maga.

Rokkó, hundurinn á Hala og hann voru bestu vinir og Kristinn eigandi Rokkós fór daglega á skemmtigöngu með þá félaga, maður sá gjarnan til þeirra á gangi í halarófu hér um túnin, fremstur Kristinn, síðan Rokkó og Þorkell rak lestina. Þorkeli var síðan sleppt í hagann ásamt geldu fósturmömmunni í byrjun ágúst. Þá var hann orðinn svo ágengur að hann festi sig alltaf í rimlunum á grindunum og til að bjarga sálarheill hans var ákveðið að gefa þeim frelsi en koma þeim frá mannabyggð til að hann héldi ekki uppteknum hætti að halda að hann væri mannabarn eða við mannfólkið sauðkindur með móðurhjarta líkt og lambær í haga. Farið var með hann til fjalla og fylgdust þau áfram að geldærin og Þorkell og ekki annað að sjá en þau væru frelsiun fegin svo og því að eiga þess nú kost að njóta fjölbreyttara fæðuúrvals að eigin vali. En alltaf þegar Fjölnir bóndi á Hala fer um haga þar sem Þorkell heldur sig lítur hann upp og jarmar eða kemur til hans, en lætur sér svo lynda að vera orðinn frjáls og sjálfstæður eftir skamma stund og heldur áfram að bíta. Þorkell fer ekki í sláturhúsið, hann er nú komin í hús á Hala, ekki líklegur kynbótagripur og mátti því ekki lengur vera frjáls innan um allar sætu gimbrarnar sem bitu í kringum hann á túninu á Hala. Úr því hefðu getað orðið of alvarleg ástarævintýri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ævisaga hans verður því ekki öll skráð að þessu sinni, en hver veit nema síðar meir komist hann betur á spjöld sögunnar.”

Svona er nú mannfólkið afskiptasamt. Vonandi er útvarpstæki í fjárhúsinu hjá Þorkatli, lambhrút svo að hann geti hlustað á sjálfan sig jarma og fara með þjóðlagið um gimbilinn sem grét við stekkinn.

Njótið vel.

Hljóðmyndin sem hér er birt nýtur sín best í góðum heyrnartólum. Hún er í 128 bita upplausn. Panta má hljóðrit í betri gæðum hjá framleiðanda.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband