Hvernig ber að haga sér í nútíma samskiptum?

Þegar ég var við umferlisnám í borginni Torquay í Devonskíri á Englandi fyrir 40 árum gerði ég mér fyrst grein fyrir því að ég væri ekki eins og fólk er flest. Var ég kallaður sagnamaðurinn. Sem betur fer voru fleiri einstaklingar þar slíku marki brenndir.

Þessi tilfinning mín hefur ágerst að undanförnu og niðurstaða mín er sú að ráðast ekki í persónuleikabreytingu úr þessu.
Það er þó eitt sem ég hef orðið var við í ríkari mæli en áður og færist stöðugt í aukana. Fólk hefur ekki lengur úthald í samræður nema þær séu fólgnar í stuttum og hnitmiðuðum skoðanaskiptum.
Ég er alinn upp við ríka sagnahefð og hvað eina varð föður mínu og öðrum skyldmennum og vinum að söguefni. Ég stend sjálfan mig að því að segja ýmsar sögur og það gerist æ oftar að viðmælandi hverfur á brott - jafnvel þótt vart sé liðin mínúta og ætluð saga sé stutt. Þannig var mér bent á það í gær að viðmælandinn væri ekki lengur á staðnum.

Sem betur fer eru þó enn nokkrir sagnamenn í þeim fámenna hópi sem ég umgengst og virðumst við njóta hver annars sagna. En óþol viðmælenda virðist fara vaxandi eftir því sem tímar líða fram.


Bloggfærslur 12. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband