Færsluflokkur: Evrópumál

Gunnar, hughreystingarstríðið og staðfestan

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna viðskiptabanns Rússa eru með ólíkindum.
Þegar óeirðirnar urðu í Kænugarði og forsetinn flúði land fór Gunnar Bragi Sveinsson til Kænugarðs að stappa stálinu í Úkraínumenn. Síðan ákváðu Bandaríkin og Evrópusambandið ásamt Noregi, Ástralíu og fleiri ríkjum viðskiptabann á Rússa fyrir framferði þeirra. Íslendingar fylgdu með og reyndu ekki að fara í felur með þá ákvörðun sína. Að því leyti var hann hugrakkari en fyrrum utanríkisráðherra og forsætisráðherra sem settu nafn Íslands á lista fylgispkara ríkja þegar Bandaríkjamenn ákváðu að leggja heilt ríki í rúst.
Þegar viðskiptabannið yfir Rússum var framlengt fylgdu Íslendingar með og höfðu engar áhyggjur. Stjórnvöld og fréttamenn nudduðu í Rússum og minntu þá að þeir yrðu að svara því hvort refsa ætti Íslendingum fyrir tiltækið..
Þegar landhelgin var færð út í 12 mílur árið 1952 settu Bretar löndunarbann á íslensk skip og allt var á leiðinni til kaldra kola hér á landi. Þá björguðu Rússar Íslendingum og hafa keypt af þeim fisk síðan þar til í dag.
Hver bjóst í raun við því að Rússar svöruðu ekki fyrir sig?
Eiga Rússar að miskunna sig yfir smáþjóðir sem taka þátt í því að reka tunguna framan í þá o sýna af sér þá aumingjagæsku að kaupa af smáþjóðunum afurðir vegna þess að þær séu svo mikill hluti þjóðarframleiðslunnar?
Úr því að Framsóknarflokkin skorti ekki hugrekki að standa við kosningaloforðin og eyða á milli 80 og 90 milljörðum í það að lækka skuldir sumra heimila án þess að setja nokkurt þak á tekjur þeirra sem bæturnar hlutu, hlýtur flokkurinn að vera reiðubúinn að axla ábyrgðina á utanríkisstefnu sinni og sýna Rússum að Íslendingar láti ekki eitthvert árásarveldi auðmýkja sig.
"Ég held að menn ættu að hugsa áður en þeir framkvæma," sagði viðmælandi nokkur við höfund þessa pistils þegar Gunnar fór til Kænugarðs í hughreystingarstríðið.


Deilt og drottnað á annarra kostnað

Leiðari Morgunblaðsins í dag, 30. júlí 2014, er fyrir margra hluta sakir athyglisverður. Fjallar hann um samskipti Efrópusambandsins og Bandaríkjanna við Rússland Pútíns, þar sem Bandaríkjamenn beita refsingum, sem engu máli skipta og fá Evrópusambandið í lið með sér, sem gæti skaðast á þeim viðskiptum.

Bandaríkin fara víðar sínu fram, á yfirborðinu sem stórveldi en sums staðar sem leppríki. Síðasta dæmið er fylgispekt Bandarískra stjórnvalda við Ísraelsmenn.


Hér fyrir neðan er leiðari Morgunblaðsins.


Tvíbent vopn

Evrópuríkin urðu nú að láta undan þrýstingi Bandaríkjamanna


Bandaríkin eiga létt með að ákveða efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússlandi. Viðskipti þessara mestu kjarnorkuvelda veraldarinnar eru tiltölulega lítil. Öðru máli gegnir um lönd Evrópusambandsins. Viðskiptin eru mikil en snerta einstök lönd sambandsins mismikið. Það flækir málið enn. Evrópuríkin verða að taka hugsanleg viðbrögð Rússa með í sinn reikning. Bandaríkin eru einnig að mestu laus við þann þáttinn.

Rússneskur almenningur styður enn afstöðu og athafnir Pútíns forseta í Úkraínu og telur Vesturlönd koma ósæmilega fram við Rússa. Innlimun á Krímskaga þótti flestum Rússum sjálfsögð, ekki síst eftir að „löglega kjörnum“ forseta Úkraínu var bolað úr embætti með ólögmætum hætti að þeirra mati. Því mun Rússum þykja efnahagsþvinganirnar vera óeðlileg og fjandsamleg aðgerð gegn Rússlandi, sem eðlilegt sé að forseti þeirra bregðist við með þeim kostum sem hann hefur.

Á Vesturlöndum er hins vegar bent á að þegar efnahagsþvinganirnar byrji að bíta muni þær um leið bíta marga stuðningsmenn Pútíns af honum. Og þótt þekkt sé og rétt að efnahagsþvinganir séu eins og myllurnar frægu, þær mali hægt, þá eigi þær það líka sameiginlegt að á endanum mali þær vel. Versnandi kjör Rússa vegna þeirra muni æsa til andstöðu við Pútín. Vissulega muni þvinganirnar í upphafi hitta fáa Rússa fyrir, en þessir fáu eigi mikið undir sér í Kreml og þeir verði illa úti. Forsetinn geti því furðufljótt misst mikilvægan stuðning úr hópi „klíkubræðra“.

Eftirtektarvert er að markmiðin sem fylgja efnahagsþvingununum eru óljós. Sagt er að þær séu ákveðnar til að þvinga Pútín til að breyta um stefnu í málefnum Úkraínu. Ekki er til að mynda líklegt að uppgjöf Rússa á Krímskaga sé forsenda fyrir því að fallið verði frá þeim. Margir áhrifamiklir þýskir stjórnmálamenn hafa raunar lýst yfir ákveðnum skilningi á því að Rússar hafa sameinað hann Rússlandi á ný.

Margir leiðtogar Evrópuríkjanna voru bersýnilega ekki áfjáðir að ganga mikið lengra í efnahagsþvingunum. En árásin á farþegaflugvélina sópaði öllum öðrum kostum út af borðinu.


Staksteinar Moggans, Evrópusambandið og Kína

Ritstjórar Morgunblaðsins hafa verið haldnir eins konar ofsóknaræði á hendur Ríkisútvarpsins. Birtist það í ýmsum myndum, einkum þegar spurt er ákaft um málefni sem þeim eru ekki þóknanleg.

Þó hitta þeir stundum naglann á höfuðið eins og Staksteinapistillinn í dag vottar.

"Helgi Seljan fékk Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra til sín í Kastljós Ríkisútvarpsins og hóf viðtalið með þessum orðum: „Byrjum bara aðeins á Evrópusambandinu.“ Svo gekk auðvitað allt viðtalið út á Evrópusambandið enda eitt helsta áhugamál Samfylkingarinnar og Ríkisútvarpsins. Þar með gafst ekki færi á að ræða önnur utanríkismál þó að af mörgu sé að taka.

Gunnar Bragi var augljóslega fenginn í viðtalið til að reyna að sanna að núverandi stjórnarflokkar væru margsaga í aðildarumsóknarmálinu og sérstaklega að þeir væru að svíkja landsmenn um þjóðaratkvæðagreiðsluviðræðurnar.

Utanríkisráðherra svaraði þessu margoft og útskýrði að Helgi væri á villigötum en allt kom fyrir ekki, spyrillinn spurði sömu spurninganna aftur og aftur og aftur svo ekkert annað komst að.

Af mörgum vitlausum spurningum var þó sennilega slegið met í lok þáttarins þegar Gunnar Bragi var spurður að því hvort ekki væri „svolítið sérstakt“ að gera fríverslunarsamning við Kína þegar lýðræðishalli væri í ESB.

Fyrir utan að spurningin var sérkennilega borin fram væri ekki úr vegi að spyrlar Ríkisútvarpsins, þó að þeir séu ákafir stuðningsmenn aðildar að ESB, átti sig á því að með fríverslunarsamningi við Kína væri Ísland ekki að gerast aðili að Kína. Og til viðbótar að Ísland er nú þegar með samning við ESB."


Enginn Íslendingur tapaði

Úrslitin í Ísbjargarmálinu urðu afdráttarlausari en margur hugði. Nú reynir á þroska Alþingismanna að þeir brigsli ekki hver öðrum um það sem á undan fór. Mestu skiptir að þeir, sem höfðu varann á í þessu máli fengu sínu framgegnt og þar átti forseti vor drúgan hlut að. Það þýðir þó ekki, eins og einhver blaðamaður spurði, að ósigur ESA sé um leið ósigur ríkisstjórnarinnar. Hverjir hefðu tapað, hefði dómurinn fallið á annan veg?

Til hamingju, allir Íslendingar!


mbl.is Eigum ekki að leita sökudólga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkandi farvegur Skaftár veldur áhyggjum

Í dag var ég á ferð um Skaftárhrepp og hitti ýmsa að máli. Einn viðmælandi greindi frá ýmsum breytingum sem ættu sér nú stað í næsta nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Sagði hann að miklu jökulvatni væri nú veitt í skaftá og hækkaði farvegur hennar stöðugt sem þýðir um leið að hann grynnkar og minna borð verður fyrir báru í Skaftárhlaupum. Greindi hann m.a. frá því að í Skaftárhlaupinu í fyrra hefði hrönnin náð upp á brúarhandriðið.

Þessi viðmælandi taldi ákveðið andvaraleysi ríkja hjá hreppsyfirvöldum og vegagerðinni vegna þessa ástands em væri að skapast. Engar ráðstafanir virtust hafa verið gerðar til þess að bregðast við yfirvofandi flóðum og héldi fram sem horfði færi áin að flæmast um nágrennið eins og áður.


Draumvísur - váboðar Örlygsstaðabardaga

Í morgun þegar ég vaknaði færði Elín mér geislaplötu voces Thules með óskum um gleðilegt afmæli. Í sannleika sagt hafði ég gersamlega steingleymt því að svo væri ástatt fyrir mér.

Ég hef heyrt nokkur tóndæmi af geisladiskinum og ætlaði að kaupa hann við fyrstu hentugleika. Ég setti hann því í geislaspilarann og nutum við þessa merka flutnings.

Tónlistin er valin af einstakri fágun, listfengi og kunnáttu. Flutningur og hljóðritun er með allrabesta móti. Vafalítið telst þessi útgáfa með helstu kennileitum í útgáfu íslenskrar tónlistar fyrr og síðar og eru flytjendum færðar alúðar hamingjuóskir.

Að sögn útgefenda var platan gefin út í 1238 eintökum enda var Örlygsstaðabardagi háður árið 1238. Eintakið mitt er númer 496 og eru því enn 742 eintök eftir.

Hönnun bókarinnar sem fylgir með er jafnvel af höndum leyst og hönnun bókarinnar sem fylgdi Silfurplötum Iðunnar, enda Brynja Baldursdóttir þar á ferð. Letrið er hins vegar ekki læsilegt öllum vegna litasamsetningar - appelsínugulir stafir á svörtum grunni. Gulur litur á svörtum grunni hefur að vísu þótt henta vel ýmsum sem eru sjónskertir. Ef til vill hefur útlitið átt að minna á það hyldýpishatur, græðgi og valdaþorsta sem kynti undir hatursbálinu sem varð undirrót Örlygsstaðabardaga. Skýringarnar eru vel fram settar og hljóta að vekja athygli og áhuga þeirra sem vilja kynna sér efni Sturlungu og það sem ritað hefur verið um íslenska tónlist fyrri tíma.

Það er í raun tímanna tákn að þessi geislaplata skuli koma út á þeim tímum sem mótast af afleiðingum græðgi og valdafíknar. Brátt kunna að verða þeir atburðir að skipti sköpum vegna framtíðar íslenskrar þjóðar. Skyldi þá verða háð önnur Örlygsstaðaorrusta?


Mælt gegn einhliða upptöku Evrunnar

Í dag birta 32 hagfræðingar athyglisverða grein í Morgunblaðinu þar sem þeir mæla gegn einhliða upptöku Evrunnar. Benda þeir á að slík aðgerð yrði engin lausn á fjárhags- eða efnahagsvanda Íslendinga. Í lok greinar sinnar draga þeir saman nokkur atriði:

Einhliða upptaka evru, samanburður við núverandi ástand

Kostir:

* Innlendur gjaldmiðill öðlast sama stöðugleika og evra gagnvart öðrum erlendum gjaldmiðlum

*Vextir munu væntanlega lækka í átt til vaxta á evrusvæðinu, en verulegt áhættuálag verður áfram á vöxtum hér á landi vegna vantrausts á íslenskan efnahag

*Viðskiptakostnaður minnkar

Gallar:

* Sjálfstæði peningastefnu glatast án þess að öryggi fjármálakerfisins sé tryggt

*Myntsláttuhagnaður tapast (áætl. 2-5 ma.kr. á ári)

*Upphaflegur aukakostnaður vegna kaupa á evrum til að setja í umferð (125 ma.kr.)

*Íslenskir bankar hafa ekki seðlabanka til stuðnings í lausafjárvanda

*Fjármagnsflótti getur sett ríkið í alvarlegan greiðsluvanda

Hvaða vandamál leysast ekki:

* Verðbólga færist ekki sjálfkrafa að verðbólgu í Evrópu

*Aukið seðlamagn í kjölfar þrýstings t.d. vegna lausafjárskorts bankanna gæti leitt til aukinnar verðbólgu

*Útganga erlendra fjárfesta af innlendum peningamarkaði og skuldabréfamarkaði kallar áfram á nýtt erlent lánsfé

*Fjármagnsflótti Íslendinga kallar áfram á nýtt erlent lánsfé

*Fjármagnsflótti getur sett bankakerfið í lausafjárvanda (og þar með á endanum í eiginfjárvanda). Ríkið getur þurft að koma til aðstoðar

*Einhliða upptaka evrunnar auðveldar ekki íslenskum einkaaðilum eða opinberum aðilum aðgang að erlendu lánsfé a.m.k. ekki litið til nokkurra næstu ára.


Hagstjórn eða spávísindi

Ýmislegt fer öfugt ofan í mig um þessar mundir. Því meira sem ég les og heyri þeim mun minna skil ég.

Bandaríkjamenn eru skuldugasta þjóð heims og lækka nú stýrivexti svo mjög að vart verður hægt að lækka þá meira.

Austan hafs og í Mið-Austurlöndum lækka menn einnig stýrivexti.

Hér á landi er stýrivöxtum haldið háum og það er sagt eiga að tryggja að gjaldeyrir, sem bankarnir hafa eytt og falinn var þeim til varðveislu, fljóti ekki út úr landinu.

Krónunni er haldið á floti með gjaldeyrishöftum og erlendir einstaklingar og fyrirtæki geta ekki nálgast aurana sína og flutt úr landi og það eitt ætti að duga.

Til hvers þarf þá svona háa stýrivexti? Hvort ráða kenningar Seðlabankans eða Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þessu og hvort er vit í því?

?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband