Færsluflokkur: Sjónvarp

Um dularfull fyrirbæri og feigð manna

Þættirnir um reimleika og fleira skylt, sem sýndir eru á fimmtudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu, eru um margt vel gerðir. Gallinn er þó sá að reynt er um of að skýra ýmis fyrirbæri og draga í efa skynjun og upplifun fólks.
Skýringar Ármanns Jakobssonar eru fræðandi, en hinu verður ekki mótmælt að ýmis fyrirbrigði verða vart útskýrð eins og t.d.  er menn sjá feigð á fólki.

Faðir minn var þessari gáfu gæddur og fyrir kom að hann sagði nánustu fjölskyldu sinni að þessi eða hinn væri feigur. Mér þótti þetta óþægilegt og innti hann eitt sinn eftir því hvernig hann skynjaði þetta. Svarið var athyglisvert:
"Það bregður fyrir eins konar vatnsbláma í augum hans eða hennar."

Ég gleymi aldrei atviki sem gerðist í Vestmannaeyjum 29. desember árið 1965.
Pabbi kom heim í síðdegiskaffi um þrjú-leytið og sagði okkur að hann héldi að Már Frímannsson, bifreiðaeftirlistmaður o.fl. sem við þekktumvel, sé látinn. Ég spurði hvað ylli. "Mér sýndist ég sjá svipinn hans fyrir utan skrifstofudyrnar", svaraði hann.
Síðar þennan sama dag fréttist andlát Más.

Þegar ég var að skrifa þetta þótti mér rétt að fletta upp Má Frímannssyni og dagsetningin er réttilega munuð.
http://www.heimaslod.is/index.php/M%C3%A1r_Fr%C3%ADmannsson

Guðjón Bjarnfreðsson, kvæðamaður, þekkti föður minn vel. Sagði hann mér að bróðir sinn hefði árið 1939 ráðið sig á danskt olíuskip. Pabba varð mikið um þessa frétt og reyndi hvað hann gat að fá hann ofan af þessu og sagðist mundu tryggja honum pláss á Helga VE 333 sem var þá nærri fullsmíðaður. Ræddi hann þetta við Guðjón og reyndi að fá hann í lið með sér. "Það var hreinlega eins og hann teldi hann feigan," sagði Guðjón.
Ég andmælti því ekki að pabbi hefði skynjað feigð fólks og sagði honum frá þessum vatnsbláma eða glampa sem hann sagði að brygði fyrir í augum fólks. Guðjón kvaðst hafa heyrt fleiri manna getið sem lýstu svipaðri reynslu.

Guðjón sagði að skipið, sem bróðir hans réð sig á, hefði verið á meðal þeirra fyrstu sem grandað var í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar.

 

 


Jónas frá Hriflu rangfeðraður í tvígang

Í tvígang hefur Jónas Jónsson frá Hriflu borið á góma í öskurþættinum "Gettu betur" og var hann í bæði skiptin sagður Jónasson.

Hverju sem haldið er fram u faðerni Jónasar Jónssonar frá Hriflu, var hann ekki Jónasson. Annaðhvort voru þetta mismæli hjá Eddu Hermannsdóttur eða afglöp dómara, nema hvort tveggja sé.


Enn um Jónas Kaufmann í sjónvarpðinu

Hafa skal það er sannara reynist. Bjarni Rúnar Bjarnason, tónmeistari Ríkisútvarpsins, hefur bent mér á í tölvupósti, að hljóðútsendingin á tónleikum Jónasar Kaufmanns og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem send var út á nýársdagskvöld, hafi verið í góðu lagi og hafi hann sjálfur unnið að gerð hljómsins. Segir hann í skeyti sínu að einungis sé hægt að reiða sig á gamaldags sjónvarpsloftnet, vilji menn tryggja hljóðgæðin.

Það er því ekki við Ríkisútvarpið að sakast heldur Símann. Með öðrum orðum selur Síminn okkur svikna vöru, þegar um sjónvarpsútsendingu er að ræða.


Jonas Kaufmann án víðóms í sjónvarpi

Þegar vel tekst til getur sjónvarp sameinað hið besta, sem myndmiðill hefur fram að færa og hið svokallaða hljóðvarp. Það var því með nokkurri eftirvæntngu sem við hjónin og gestir okkar settumst til að hlýða á Jonas Kaufmann, sem kom fram í Hörpu á listahátíð í vor. Ég hafði að vísu heyrt hljóðrit Ríkisútvarpsins, en gat vel hugsað mér að njóta listar Kaufmanns enn á ný.

Hvílík vonbrigði. Útsendingin var án víðóms, einóma útsending (mono) eins og gerðist í útvarpi landsmanna allt fram á árið 1980.

Fyrir um tveimur áratugum var því lýst yfir að nú tæki Ríkissjónvarpið að varpa hljóðinu í víðómi (stereo). Eitthvað virtist bera á þessu fyrst í stað, en síðan heyrði það til undantekninga. Nú býður sjónvarpið landsmönnum útsendingar í mónó. Hljómdreifinguna vantar og ánægjan verður einungis hálf. Hvernig stendur á þessu? Er enginn hljóðmetnaður ríkjandi innan Ríkissjónvarpsins?

Útsendingin í kvöld er í raun þess eðlis að hún bætir gráu ofan á svart, ef miðað er við áramótaannál sjónverpsins sem fluttur var í gærkvöld. Eins ágæt samantekt og hann var, þótti ýmsum torkennilegt að flest innskotin voru með einhvers konar dósahljóði. Forvitnilegt væri að fá svör við þeirri spurningu, hvað hafi valdið. Það var hreinlega eins og hljóðnema hefði verið stillt fyrir framan fremur lélegan hátalara og hljóðið fengið þannig við myndirnar.


90 ár frá stofnun Kínverska kommúnistaflokksins

 

Föstudaginn 1. júlí síðastliðinn voru 90 ár liðin frá því að Kínverski kommúnistaflokkurinn var stofnaður. Fundurinn var haldinn í shanghai árið 1921 og stóð að stofnun hans fremur fámennur hópur vígreifra einstaklinga sem vildu leggja allt í sölurnar til þess að létta af kínverskri alþýðu þvíi oki sem hún reis vart undir. Skömmu eftir að fundinum lauk kom leynilögregla stjórnvalda á staðinn, en greip í tómt.

Í tilefni afmælisins var haldinn fundur í Alþýðuhöllinni miklu í Beijing, þar sem einstaklingar og samtök hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Þar flutti Hu Jintao, formaður flokksins og forseti Kínverska alþýðulýðveldisins, ræðu, sem er um margt merkileg. Þar vék hann m.a. að þeim hræringum sem nú hreyfa við þjóðfélögum víða um veröld. Fullyrti hann að framfarir sem byggja á baráttu fólks fyrir betri kjörum, væru forsenda framfara á hverjum tíma  og yrðu Kínverjar að læra að takast á við vandamál sem þeim fylgdu. Þá taldi hann einhlítt að lýðræði yrði aukið í landinu og yrði fyrsta skrefið að auka það innan flokksins.

Vafalaust rýna margir í ræðuna og reyna að spá fyrir um framvindu mála í Kína. Hér er krækja á hátíðarhöldin. Ræður eru þýddar jafnóðum á ensku.

http://english.cntv.cn/program/asiatoday/20110701/107836.shtml

 

Þá er hér 18 sjónvarpsþátta röð um sögu Kínverska kommúnistaflokksins:

http://english.cntv.cn/english/special/glorious_journey/homepage/index.shtml

 

Hér fyrir neðan eru krækjur á fyrstu 7 þættina.

 

Episode 1: Rising from the flames: http://english.cntv.cn/program/storyboard/20100922/101929.shtml

 

Episode 2: Founding New China http://english.cntv.cn/program/storyboard/20100923/101979.shtml

 

Episode 3: Difficult Endeavours http://english.cntv.cn/program/storyboard/20100924/101907.shtml

 

Episode 4: A Great Turning Point http://english.cntv.cn/program/storyboard/20100925/103239.shtml

 

Episode 5: High Tides http://english.cntv.cn/program/storyboard/20100926/103172.shtml

 

Episode 6: Breaking Waves http://english.cntv.cn/program/storyboard/20100927/103571.shtml%3e

 

Part 7: Sailing into the New Century http://english.cntv.cn/program/storyboard/20100928/103886.shtml

 

 


Hvert útvarpslistaverkið öðru betra

Um þessar mundir er hvert listaverkið öðru betra á dagskrá ríkisfjölmiðlanna.

Í dag verður útvarpað seinni þremur leikritum Hrafnhildar Hagalín Guðmundsdóttur um einfarana. Leikritin eru stutt, gæðin misjöfn, en öll eru þau góð og sum á meðal þess besta sem ritað hefur verið fyrir útvarp. Hlustendur geta notið þeirra á vef Ríkisútvarpsins í nokkurn tíma eftir að þeim hefur verið útvarpað.

Þá verður á dagskrá sjónvarpsins í kvöld heimildamyndin Álfahöllin, sem Jón Karl Helgason gerði í tilefni 60 ára afmælis Þjóðleikhússins. Íslandsklukkan í leikstjórn Benedikts Erlingssonar er meginþráðurinn sem myndin er ofin um og var einróma álit áheyrenda, sem sáu frumsýningu hennar í Þjóðleikhúsinu í gær, að vel hefði til tekist um gerð myndarinnar. Það hríslaðist um suma sælukennd þegar gamlar ljósmyndir eða kvikmyndir birtust. Um undirritaðan fór skjálfti þegar hann heyrði brot úr lokaþætti Þrymskviðu sem sýnd var árið 1974 og þyrfti að taka á ný til sýningar.

Áberandi var hvað hljóðsetningin var góð og aldrei komu högg mili atriða eins og svo títt er um kvikmyndir, enda er Jón Karl gjörkunnugur útvarpi sem dagskrárgerðarmaður. Jón Karl Helgason fékk í fyrsta sinn birt eftir sig efni í Ríkisútvarpinu árið 1973, þegar hann var 6 vetra. Hann sendi okkur vísu í eyjapistil og minnir mig að fyrstu tvær hendingarnar hafi verið þannig:

Nú er gos í Heimaey, gufan er þar yfir.

Þá er og rétt að vekja athygli á Víðsjárþættinum um Matthías Jochumsson sem frumfluttur var á föstudaginn var. Þátturinn var að flestu leyti listavel gerður. Það spillti þó nokkru að tólist var látin hljóma undir frásögnum og kvæði. Þá var alls ekki nægilega vel vandað til kvæðalestrarins og til að mynda var lestur kvæðisins um móður skáldsins afleitur.

Að lokum eru menn hvattir til að hlýða á tónleika með sönglögum eftir Árna Thorsteinsson, en þeir voru ritdæmdir á þessum síðum fyrir skömmu.


Páll Steingrímsson er snillingur

Ég legg gjarnan við hlustir þegar myndir Páls Steingrímssonar eru sýndar í sjónvarpinu. Myndin um kríuna, sem sýnd var í vköld, er einstætt listaverk, fróðleg og skemmtileg. Hljóðmyndin var skemmtileg og einstakt hvað Páll hefur náð að hljóðrita marga fugla sem eru í tengslum við kríuna.

Til hamingju með tilveruna, Páll.


Skemmdarverk á Ríkisútvarpinu

Ríkisútvarpið er nú verulega laskað eftir breytingar sem gerðar hafa verið til þess að draga úr kostnaði við rekstur stofnunarinnar. Líkur benda til að þar sé ekki allt sem sýnist. Sagt er að nýir stjórnendur hafi ekki næga þekkingu á starfsemi stofnunarinnar og er sem dæmi tekið að útvarpsstjóri heilsaði víst ekki upp á starfsmenn rásar 1 fyrr en ári eftir að hann var ráðinn.

Dregið hefur verið úr rekstri svæðisstöðvanna. Nú er enginn fastur starfsmaður á Ísafirði og einungis einn fréttamaður á Egilsstöðum.

Ríkisútvarpið átti 600 fermetra hús á Akureyri sem selt var árið 2002 þegar starfsemin var flutt í leiguhúsnæði. Flutningarnir kostuðu um 100 milljónir króna en aðeins fengust tæpar 30 milljónir fyrir húsið sem selt var. Nú hefur verið gerður samningur við Háskólann á Akureyri sem sagður er mjög hagstæður fyrir Ríkisútvarpið. Húsnæðið nær ekki 100 fermetrum. Þar á að vera eitt lítið og þröngt hljóðver og þröng aðstaða fyrir 8 skrifborð. Ekki er pláss fyrir fatahengi, nánast engin kaffistofa og ein lítil snyrting. Á móti fær Ríkisútvarpið aðgang að mötuneyti Háskólans, fundarherbergjum og hátíðarsal. Þykir samningur þessi tilmarks um metnaðarleysi og skort á áhuga yfirmanna stofnunarinnar á því að hún geti rækt hlutverk sitt á landsbyggðinni. Þá hefur verið á það bent að Ríkisútvarpið geti ekki lengur fjallað með hlutlægum hætti um málefni Háskólans á Akureyri þar sem hagsmunatengsl séu of náin.

Dagskrá Ríkisútvarpsins hefur verið mótuð til margra ára af lausráðnu dagskrárgerðarfólki sem hefur ekki fengið há laun fyrir vinnu sína. Fólkið hefur unnið sem verktakar og ekki öðlast nein réttindi þrátt fyrir áralangt starf fyrir stofnunina. Nú hefur flestum lausráðnum dagskrárgerðarmönnum verið vísað á dyr. Birtist það m.a. í því að fátt er um nýja og frumlega þætti en endurtekið efni er í staðinn mikill hluti dagskrárinnar.

Fjölmiðlar hér á landi hafa hvorki fjallað um málefni Ríkisútvarpsins á málefnalegan hátt né af neinni þekkingu. Leiðaraskrif Morgunblaðsins hafa mótast mjög af óvild í garð stofnunarinnar og litlum skilningi á því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur heldur ekki fjallað um þessi mál með hlutlægum hætti og jafnvel haldið upplýsingum frá hlustendum og áhorfendum sjónvarps. Því hefur verið haldið fram að fréttastjóri Ríkisútvarpsins hafi skipað fréttamönnum að matreiða fréttirnar af niðurskurðinum með tilteknum hætti og alls ekki hafi mátt spyrja um sparnað eða kostnað við ákveðnar aðgerðir. Sem dæmi hefur verið tekin frétt Ríkisútvarpsins sjónvarps um fyrirhugaða flutninga í húsnæði Háskólans á Akureyri. Fréttastjóri mun hafa bannað fréttamanni að spyrja um kostnaðinn og ekki mátti heldur upplýsa um þann kostnað sem hlaust af sölu húsnæðis Ríkisútvarpsins árið 2002 og vegna flutninganna.

Það vakti athygli fyrir skömmu að ekki var greint frá tapi Ríkisútvarpsins af því að missa útsendingarréttinn af tilteknum íþróttaviðburðum. Hvorki voru birtar tölur um kostnað vegna viðburðanna né þær tekjur sem auglýsingar skiluðu. Þá gengur fjöllunum hærra að fréttastjórinn hafi ráðið og rekið fólk að eigin geðþótta og sjaldan spurt um reynslu eða hæfni.

Vakið hefur athygli að ýmsir sumarstarfsmenn fréttastofunnar virðast hafa afar takmarkaða þekkingu og íslenskukunnátta þeirra sumra er í lágmarki. Viðmælandi bloggsíðunnar, sem var starfsmaður fréttastofu Rúv um árabil orðaði þetta svo: „Fréttastjórinn heldur um sig hirð jábræðra- og systra og stór hópur fréttamanna er eins og hrædd dýr sem þora hvorki að æmta né skræmta. Á hinum endanum eru nokkrir óánægðir fréttamenn sem hugsa sinn gang.“

Málsmetandi menn í hópi fjölmiðlafólks telja jafnvel að nú sé svo fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins komið að hún geti ekki fjallað um ýmis mál með hlutlægum hætti. Fátt sé orðið eftir af reyndum fréttamönnum og ekki vinnist lengur tími til að vinna fréttir og afla gagna með sama hætti og áður. Þá virðist sem fréttaskýringar heyri sögunni til og fréttastofunni hafi ekki tekist að framreiða jafnvandaðar fréttir og heitið var þegar síðustu breytingar voru kynntar. Því er hætt við a fari að molna undan fréttastjóranum ef heldur fram sem horfir.


"Hann er einstök gersemi"

Í gærkvöld var endurfluttur á rás 1 þáttur þeirra Bergljótar Baldursdóttur og Jóhönnu Harðardóttur um íslenska fjárhundinn sem útvarpað var árið 1995. Var það fjallað um einstakt eðli og eiginleika hundanna og rakin saga þess að næstum hafði tekist að útrýma þeim um miðja síðustu öld.

Þátturinn er einn hinna vel gerðu útvarpsþátta sem hafa verið fluttir að undanförnu undir nafninu „Útvarpsperlur“.

Lítið hefur borið á því að undanförnu að vandaðir þættir hafi verið gerðir fyrir Ríkisútvarpið. Þó eru þar nokkrar undantekningar á og hefur Víðsjárliðið staðið að nokkrum slíkum. Eftir að lausráðnir dagskrárgerðarmenn voru slegnir af í niðurskurðinum hefur dagskrárgerð hrakað. Það er eins og allur neisti sé horfinn úr dagskrárgerðinni og fastir þættir orðnir steingeldir. Það er sagt stafa af því að fastráðnir dagskrárgerðarmenn séu þrautpíndir til hins ítrasta og hafi lítinn tíma til að sinna öðru en daglegum störfum.

Ég hef einatt velt fyrir mér hlutverki Ríkisútvarpsins og hvernig megi spara þar á bæ. Þegar litið er á sjónvarpið kemur í ljós að það er í raun stærsta kvikmyndaleiga landsins. Munurinn á sjónvarpinu og öðrum kvikmyndaleigum er sá að menn leigja sér myndir á öðrum leigum en sjónvarpið treður upp á áhorfendur því efni sem stjórnendum þóknast.

Í öllum niðurskurðinum væri ráð að stytta dagskrá sjónvarpsins og skera við trog kvikmyndirnar sem boðnar eru áhorfendum. Í staðinn mætti talsetja meira efni eða hreinlega verja fénu til vandaðri útvarps- og sjónvarpsþáttagerðar. Þá drægi úr áreiti enskunnar sem virðist á góðri leið að ganga frá íslenskri tungu.

Með sjónvarpinu varð eitthvert mesta menningarrof í íslensku samfélagi sem um getur, jafnvel verra rof en varð með innrás erlendra herja árið 1940. Hin myndræna framsetning hefur nú tekið við í æ ríkara mæli af munnlegri frásögn og mest efni er á ensku. Enskan bylur á hlustum fólks og skaðar málvitund barna og fullorðinna. Að vísu skal viðurkennt að flest efni barnatíma sjónvarpsins er með íslensku tali.

Flestar menningarþjóðir setja tal við erlendar kvikmyndir sem sýndar eru í sjónvarpi og Íslendingar þyrftu að hafa metnað til þess að haga sér eins. Telji þeir sig ekki hafa efni á því er eins gott að viðurkenna það, stytta dagskrá sjónvarpsins og veita fjármunum í annað.


Nornaveiðar fréttastofu RÚV - um viðbrögð fréttamanns

Einn af lesendum bloggsíðunnar sendi Kristni Hrafnssyni, fréttamanni Ríkisútvarpsins, slóðina að síðasta pistli. Fékk hann þau svör að flest væri rétt en upphafið væri „bull og þvættingur“. Slíkt orðbragð bendir til þess að ég hafi haft nokkuð til míns máls og að fréttamaðurinn sé rökþrota. Grípa menn þá einatt til gífuryrða.

Hugtakið „nornaveiðar“ׂ merki m.a. órökstuddar fullyrðingar sem slegið er fram án þess að kafað hafi verið ofan í orsakir þess sem fjallað er um. Slíkar fullyrðingar eru iðulega til þess fallnar að ýta undir sleggjudóma hjá almenningi sem byggja iðulega á fáfræði.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur tíðum fjallað um málefni lífeyrisþega af þekkingu og ábyrgð. Þó hefur borið við að fréttamenn hafi ekki verið vandir að virðingu sinni og slegið fram fullyrðingu sem orðið hafa til þess að skaða málstað öryrkja. Hið sama á við um dagblöðin og Stöð tvö, en þar ofsótti ónefndur fréttamaður samtök öryrkja á tímabili. Kvað svo rammt að því að Stöð tvö var beðinn að sjá svo um að hann mætti ekki á fréttamannafundi sem haldnir voru.

Þótt ég nefni engin nöfn í þessum pistli verður tekið dæmi af atburði sem varð fyrir tveimur árum. Þá sagði formaður Öryrkjabandalagsins skyndilega af sér. Hófst þá mikil rógsherferð á hendur Hússjóði Öryrkjabandalagsins sem hefði getað endað með ósköpum hefði ekki verið gripið í taumana. Ungur og kappssamur fréttamaður, sem vann þá á fréttastofu ríkisútvarpsins, virtist lítið þekkja til málsins og ruglaði öllu saman. Vissi hann t.d. ekki muninn á félagsþjónustunni í Reykjavík og Hússjóði Öryrkjabandalagsins. Sem betur fór tókst að stöðva manninn áður en skaði hlytist af.

Flestir frétta- og blaðamenn hér á landi vinna starf sitt af samviskusemi og árvekni. Kristinn

Hrafnsson er þar ekki undanskilinn. Í fréttinni um öryrkja skaut hann yfir markið og fyrir það ber fréttastofu ríkisútvarpsins að bæta.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband