Færsluflokkur: Sjónvarp

Nornaveiðar fréttamanna Ríkisútvarpsins á hendur öryrkjum

Fréttastofa Ríkisútvarpsins fer stundum óvarlega í fréttaflutningi sínum. Nú virðist eiga að æsa almenningsálitið gegn öryrkjum sem þiggja atvinnuleysisbætur.

Um síðustu mánaðamót fengu 16.000 manns greiddar atvinnuleysisbætur. Þar af voru um 700 öryrkjar eða tæp 4,5% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Ég veit ekki hversu margir öryrkjar eru nú skráðir á Íslendi en nær er mér að halda að um sé að ræða um 5% öryrkja sem fengu bæturnar. Það merkir ekki að atvinnuástand sé betra með öryrkjum en öðrum landsmönnum heldur fremur hitt að atvinnuþátttaka öryrkja sé minni en þeirra sem eru ófatlaðir. Niðurstaðan er því sú að talan 700 öryrkjar bendi í raun til þess að atvinnuleysi sé mun meira á meðal öryrkja en þeirra sem hafa óskerta vinnugetu

Þessar tölur sýna, sem er gleðilegt, að ýmsir öryrkjar hafa leitað réttar síns og sótt um atvinnuleysisbætur. Þess var að litlu getið í fréttum Ríkisútvarpsins að atvinnuleysisbætur skerði bætur almannatrygginga og að bætur almannatrygginga skerði atvinnuleysisbætur. Það er því varasamt að halda því fram að um misnotkun sé að ræða. Atvinnutekjur skerða bætur almannatrygginga eftir ákveðnum reglum sem ekki verða skýrðar hér. Hið sama á við um atvinnuleysisbætur og í greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins er beinlínis gert ráð fyrir að öryrkjar áætli atvinnuleysisbætur sínar.

Sá munur er á atvinnuleysisbótum og bótum almannatrygginga að hinar fyrr nefndur eru stundarfyrirbæri í lífi flestra en tryggingabætur eru ævikjör margra. Ástæða þess að öryrkjar fá atvinnuleysisbætur er sú að þeir hafa leitað eftir atvinnu á almennum markaði og er það vel.

Verði öryrkjar sviptir þeim rétti að njóta réttinda vegna atvinnuleysis til jafns við þá sem eru fullvinnufærir verður enn höggvið í sama knérunn. Öryrkjar hafa þegar verið látnir afsala sér vísitölutengingu bótanna eða hafa réttara sagt verið sviptir henni. Öryrkjabandalag Íslands hefur ekki samningsrétt og stjórnvöld hafa sjaldan hlustað á röksemdir þess þegar ákveðið hefur verið að níðast á öryrkjum í þágu ófatlaðs fólks. Sú ríkisstjórn, sem nú situr, virðist því miður engin undantekning.

Flestir öryrkjar eru væntanlega stoltir af því að hafa lagt sinn skerf til þess að leysa greiðsluvanda ríkisins. En þá ber stjórnvöldum að vinna almennan rétt þeirra.

Örorku fylgir jafnan kostnaður og tími er til kominn að ráðamenn átti sig á því. Engir öryrkjar vinna á fréttastofu Ríkisútvarpsins og þar á bæ virðast menn ófróðir um þessi mál.

Ætli heyrist ekkert í þeim fáu öryrkjum sem sitja nú á alþingi? Hvernig stendur á því að enginn þeirra ræðir málefni lífeyrisþega í óundirbúnum fyrirspurnum? Er það vegna þess að einhverjir þeirra eru í stjórnarliðinu? Spyr sá sem ekki veit.


Barnatími sjónvarpsins

Í morgun vaknaði Birgir Þór kl. hálf átta og eftir að afi fór fram varð hann friðlaus.

Snáðinn læddist fram í eldhús og sagðist ekki geta sofið lengur svo að afi stakk upp á að þeir fylgdust með barnatíma ríkissjónvarpsins.

Á dagskrá voru bandarískar barnamyndir að ég hygg og hafði verið sett við þær íslenskt tal. Til mikillar fyrirmyndar er að sjónvarpið skuli láta þýða efni sem ætlað er börnum, enda hafa komið fram á undanförnum árum ýmsar snilldarvel gerðar þýðingar.

Í morgun fannst mér talsvert skorta á að vandað hefði verið til þýðinganna. Guðfinna rúnarsdóttir virðist hafa þýtt flestar myndirnar sem sýndar voru í morgun. Raddbeiting leikaranna var með ágætum en málfarið ekki upp á marga fiska.

Búinn var til morgunverður fyrir fólk en ekki handa því (enska forsetningin for), börn (pöddur eða eitthvað annað) léku í stað þess að leika sér, upphrópanir eins og "Ó nei" voru algengar og margt bar þess keim að ensk tunga væri móðurmál þess er samdi textann. Þýðingarnar voru yfirleitt hráar þótt nokkrum sinnum brygði til hins betra.

Ýmislegt fleira gæti ég tínt til. Textinn var þó að flestu leyti fremur lipurlega saman settur. Þýðandinn ættii að vanda betur verk sitt og láta einhvern lesa yfir textann áður en hann er hljóðsettur handa íslenskum börnum.

Barnatímar sjónvarpsins eru vinsælir. Því er hætt við að málfar þeirra móti málþróun barnanna. Ábyrgur ríkisfjölmiðill (ef hann er þá til) á skilyrðislaust að gera kröfur til þess að dagskrárgerðarfólk vandi málfar sitt í stað þess að kasta til höndunum. Er þetta einkar mikilvægt þegar efni er matreitt handa börnum.


Steindór Andersen og Sigurrós til Óslóar!

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir og félagar voru svo sannarlega vel að öðru sæti komin í Moskvu í kvöld. Flutningur þeirra var áberandi langbestur og lagið hans Óskars Páls Sveinssonar prýðilegt. Það var hins vegar gaman að heyra norska lagið með Harðangursfiðluleik og þjóðlegu ívafi.

Hvernig væri að einhver tæki sig nú til og semdi dægurstemmu sem send yrði til Noregs á næsta ári og verði Steindór Andersen fenginn til að kveða hana við undirleik hljómsveitarinnar Sigurrósar? Þá verði auðvitað kveðið á íslensku.

Ekki ætla ég að leggja dóm á önnur lög en það norska og íslenska. En kynningar Rússanna voru hreint afleitar, yfirdrifnar og leiðinlegar. Rússar hafa oft átt í vandræðum að tjá sig á alþjóðavettvangi og það virðist lítið hafa lagast.


mbl.is Langt fram úr mínum vonum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær nýjungar í íslenskri ljósvakamiðlun

Sjónvarp mbl.is hóf útsendingar á fréttaþættinum Setunni í dag. Þau Agnes Bragadóttir og Karl Blöndal ræddu fyrst við Steingrím Sigfússon og síðan sat Þór Sari frá Borgarahreyfingunni fyrir svörum hjá Þóru Kristínu Ástgeirsdóttur og Birni Vigni Sigurpálssyni.

Það var skemmtilegt að fylgjast með því hvað karlmennirnir og konurnar voru ólíkir spyrjendur. Þeir Karl og Björn vignir voru kurteisin uppmáluð en þær Agnes og Þóra Kristín gengu stundum í skrokk á viðmælendum sínum. Einkum átti þetta við um Steingrím, enda er hann margreyndur stjórnmálamaður og hefur unun af pólitískum slagsmálum. Þór Sari svaraði ágætlega því sem til hans var beint, en ekki var mjög hart að honum sótt. Agnes var einkar heimilislegur og grimmur spyrjandi, sjálfri sér lík í einu og öllu.:)

Það er mikill akkur í því að jafnreyndir frétta- og blaðamenn taki til sig og yfirheyri forystumenn þeirra framboða sem í boði verða fyrir kosningarnar.

Í morgun hóf svo Lýðvarpið hans Ástþórs Magnússonar útsendingar. Mér þótti rétt að líta þar við öðru hverju í dag og hlusta. Stundum heyrði ég að Ástþór lét samstarfsmann sinn spyrja sig og síðan yfirheyrði Ástþór hann og aðra og reyndi þannig að brjóta mál til mergjar.


Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fær íslensku blaðamannaverðlaunin

Ríkisútvarpið skýrði frá því í þessu að Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur hefðu verið veitt íslensku blaðamannaverðlaunin í dag. Þóra Kristín er margreyndur frétta- og blaðamaður og hefur oft og iðulega ekki skirrst við að stilla viðmælendum upp við vegg. Hún er hugmyndarík, útsjónarsöm, skemmtileg, ákveðin og umfram allt sanngjörn. Í höndum hennar hefur sjónvarp mbl.is orðið einstakur fréttamiðill í sinni röð á Íslandi. Þóra Kristín er einn þeirra blaðamanna hér á landi sem eru á heims mælikvarða. Þar í flokki eru einnig Önundur Páll Ragnarsson, Jóhann Hauksson og Ragnar Axelsson, Sigrún Davíðsdóttir o.fl.


Áfellisdómur á vinnubrögð síðasta félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins

Það er oft með ólíkindum hve ungur starfsmaður Kastljóssins setur mál í rangt samhengi. Samtalið við forsætisráðherra í kvöld var enn eitt dæmið í safn piltsins sem var rangt reiknað.

Stjórnarnefnd málefna fatlaðra var skipuð til fjögurra ára og var til siðs að endurnýja nefndina eftir kosningar. Þess vegna var skipun félagsmálaráðherra Framsóknar á formanni nefndarinnar til fjögurra ára í lok kjörtðímabils siðlaus enda mátti hann vita að Framsóknarflokkurinn færi illa út úr kosningunum 2007, til þess bentu eindregið allar kannanir.

Pilturinn, sem fer oft mikinn í Kastljósinu, hefði átt að ræða við fyrrum félagsmálaráðhera Framsóknarflokksins í stað þess að tuða og nöldra í forsætisráðherra eins og hann skildi hvovki skrifað né mælt, íslensktt mál. Pilturinn ætti einnig að vita að fjölmörgum dómum héraðsdóms Reykjavíkur hefur verið hnekkt fyrir Hæstarétti. Hann hefði fremur átt að þakka Jóhönnu fyrir að áfrýja ekki dómnum og valda skattgreiðendum þannig auknum kostnaði.

Þá var fáheyrður sá sóðaskapur unga mannsins að jafna saman þeim gerningi Árna Magnússonar að losa sig við Valgerði Bjarnadóttur. Þar var ekki um pólitískan trúnaðarmann að ræða sem skipaður var út kjörtímabil Alþingis heldur embættismann sem var skipaður væntanlega til 5 ára.

Vonandi verður þessi makalausa framkoma piltsins og úttekt hans til þess að hann verði settur í einhvers konar endurhæfingu enda eru dæmi þess að slík endurhæfing eða menntun snúist fólki til góðs.


Textinn skiptir engu

Ég hef reynt að forðast Evróvisjón-keppnina eins og heitan eldinn. Í gær komst ég ekki hjá því að fylgjast með keppninni hér á landi. Flest lögin áttu það sameiginlegt að eiga engar líkur á sigri í Moskvu. Þar að auki voru ýmsir söngvarar óþjálfaðir og söngurinn ekki burðugur.

Guðrún Jóhanna Jónsdóttir söng best og lagið "Er það satt" var með þeim skárri. Nú ætti höfundurinn að láta þýða ljóðið á íslensku og senda lagið þannig til Moskvu. Textinn skiptir hvort eð er engu máli.


Ingvi Hrafn er reiður

Ég stilli stundum á ÍNN - Íslands nýjasta nýtt, einkasjónvarpsstöð Ingva Hrafns Jónssonar. Þar er oft tekið fremur rösklega á málunum.

Í gærkvöld var boðað að Björn Bjarnason kæmi í viðtal og talaði tæpitungulausar en nokkru sinni fyrr. Þátturinn hófst á því að Ingvi Hrafn reifaði það sem gerst hafði í stjórnmálum og taldi það með hreinum ólíkindum.Fór hann mikinn og brýndi raustina svo mjög að hann talaði jafnvel í falsettu. Fór það honum ekki vel.

Þegar samræður þeirra Björns hófust hafði Ingvi Hrafn greinilega ekki jafnað sig eftir hamaganginn og var fremur vanstilltur í spurningum og sleggjudómum. Björn var hins vegar rólyndið sjálft þótt undirniðri kraumaði nokkur ólga.

Á árum áður var Hrafn frægur fyrir röskleg viðtöl þar sem hann reifst við viðmælendur sína og dró hvergi af sér. Lenti ég eitt sinn í slíku viðtali og höfðum við allir gaman af sem að því stóðum. Í gær fannst mér honum bregðast bogalisti. Hann fór offari og eyðilagði í raun þá stemmningu sem hægt hefði verið að byggja upp í samtali við jafnþrautreyndan stjórnmálamann og Björn Bjarnason er. Veit ég ekki hvernig þeir enduðu þáttinn því að mig brast þolinmæði til að hlusta. Auðvitað getur Ingvi Hrafn látið eins og honum sýnist á einkastöðinni sini. En hálfgert garg fer illa í suma hlustendur.


Uppsagnir á Stöð tvö

Í morgun bárust fréttir af því að Sigmundi Erni Rúnarssyni, fréttastjóra Stöðvar tvö og eiginkonu hans hefði verið sagt upp störfum. Þá hefur þáttagerðarmönnum einnig verið sagt upp störfum.

Sigmundur Ernir lætur að því liggja að reynslulitlir stjórnendur, sem hafi verið ráðnir að stöðinni, þoli ekki fólk með reynslu í kringum sig.

Þetta er leitt. Og það er leitt að bjóða þau hjónin velkomin í hóp reyndra stjórnenda sem reynslulitlir forráðamenn þola ekki.

Minnimáttarkenndin er mikils megnug en hefnir sín fyrr eða síðar. Þeim hjónum og öðrum, sem hafa orðið að sæta þessum örlögum, er óskað velfarnaðar.


Íslendingar eru bestir

Það hefur verið heldur óskemmtilegt að fylgjast með umræðunni undanfarna daga. Svo virðist sem mikil umbrot eigi sér nú stað á íslenska fjármálamarkaðinum og hver reyni að bjarga eigin skinni.

Ríkissjónvarpinu tekst afar illa að efna til málefnalegra umræðna um þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni. Umræðan endar yfirleitt með eins konar hanaati og menn eru jafnnær eftir atið og áður. Helgi Seljan (man ekki hvers son hann er) hefur einstakt lag á því að grípa fram í fyrir viðmælendum og yfirleitt enda viðtölin hjá honum illa. Þá lýstur stjórnmálamönnum iðulega saman og allt endar með ósköpum.

Stjórnendur Kastljóssins verða að fara að hugsa um hag hlustenda og hætta þessari skrýlsframleiðslu.

Nú kemur það fram að Íslendingar eru hvarvetna bestir. Enn hefur aðeins einn banki lent í fjárþroti og líkur benda til að Landsbankanum hafi tekist að forðast stóráföll að sinni.

Í gær fékk ég enn eina staðfestinguna á því hvað Íslendingar eru frábærir. Ég er í þróunarhópi um hugnúnað fyrir blinda og sjónskerta. Í gær barst tilkynning um að forritið Ragga myndi fylgja næstu útgáfu hugbúnaðarins og er forritið með tilraunaútgáfunni. Engar úrbætur hafa verið gerðar á talgervlinum þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar.

Vafalaust eru Íslendingarnir, sem hönnuðu Röggu, ágætlega vel að sér í sínu fagi. En þeir hafa enga reynslu af því að framleiða talgervla. Starfsmenn Dolphin-fyrirtækisins, sem hefur ákveðið að fjárfesta í Röggu, töldu sem eðlilegt var, að talgervillinn hefði verið prófaður með notendum. Nú lítur út fyrir að þeir muni jafnvel hverfa frá því að nota hann.

Það er eins með talgervilinn Röggu og fjármálaveldi Íslendinga. Menn hafa ekki hugsað leikinn til enda og kastað til höndunum við framleiðslu hans.

Hefði talgervillinn verið framleiddur í Kína myndu Kínverjar hafa verið sakaðir um vörusvik. Og nú saka ég Símann um vörusvik. Síðan bætir menntamálaráðherra gráu ofan á svart með því að afhenda þessi ósköp við hátíðlega athöfn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband