Færsluflokkur: Sjónvarp

Vetrarbúningur ríkisútvarpsins

Einu sinni hitti ég Gísla Halldórsson, leikara. Þetta var í mars skömmu áður en hann lést. Fórum við að spjalla um veðrið og tjáði Gísli mér að ´hjá sér væri komið sumar, en árstíðirnar væru tvær: sumar frá 1. mars til 1. nóvember. Þá tæki veturinn við.

Í gamla daga, þegar ég var barn, hófst vetrardagskrá ríkisútvarpsins á fyrsta vetrardag og þá var yfirleitt eitthvað gert fólki til hátíðarbrigða enda gerðist ýmislegt fleira þann dag. Klukkunni var til að mynda seinkað.

Nú hefst vetrardagskrá ríkisútvarpsins upp úr mánaðmótunum ágúst-september. Í þetta skipti fer hún tiltölulega vel af stað, a.m.k. á rás 1.

Nokkrir þættir, sem voru á dagskrá í fyrra, hefja nú aftur göngu sína. Má þar nefna Flakk Lísu Pálsdóttur, en Lísu tekst oft vel upp í vali viðfangsefna. Þá gladdi mig mjög að heyra að Ársól Njarðar P. Njarðvíkur er enn á dagskrá. Umfjöllun Njarðar og sú umgerð, sem hann býr ljóðnum, ber vott um yfirburðaþekkingu og fágun í framsetningu. Þá er Kvika einnig fróðlegur þáttur um kvikmyndir. Þótt ýmsir þættir séu hér ekki nefndir er enginn hörgull á góðu dagskrárefni rásarinnar. Nefndir skulu Stef Bergþóru Jónsdóttur, þættir Unu Margrétar Jónsdóttur, Hlaupanótan, Stjörnukíkir o.fl.

Í gær hófst nýtt spennuleikrit hjá Ríkissjónvarpinu, sem gert er eftir sögu Ævars Arnar Jósefssonar. Mér varð að vísu á að sofna undir því og sskreiddist fram í eldhús þegar ég vaknaði að fá mér kaffi þegar ég áttaði mig á að ég átti lítið erindi við höfundinn og persónur hans. Með ólíkindum er að nokkur, sem er jafnósvífinn og kjaftfor og einn sóðakjafturinn, sem er leynilögreglu- eða rannsóknarlögreglumaður í þættinum, fengi vinnu hjá nokkru lögregluembætti landsins. Sú persóna er afar ósannfærandi og ýmislegt í umgerð þáttanna olli vonbrigðum. Samtölin voru þar að auki illa skrifuð og málfarið hreinlega ljótt. Tónlistin var ofnotuð og stundum spurði ég mig til hvers hún væri ætluð.

Minn betri helmingur sagðist samt ætla að fylgjast með þáttunum og gefa þeim tækifæri.

Vissu lega er það gleðiefni þegar Ríkissjónvarpið mannar sig upp og framleiðir eða kaupir eitthvað af íslensku sjónvarpsefni. Síðasta laugardagskvöld minnti helst á kvikmyndaleigu þar sem ekkert var sýnt nema bandarískar kvikmyndir. Án þess að nefna einstakar kvikmyndir verð ég að segja sem er að mér ofbýður að ríkissjónvarpið skuli bjóða fólki þrjár kvikmyndir í röð sem lýsa bandarískum viðhorfum og hella um leið yfir hlustir manna bandarískri ensku.

Ánauð enskunnar er orðin svo yfirþyrmandi í öllu okkar umhverfi að ástæða er til að spyrna á móti. Menn hafa reynt að þýða tölvuumhverfið og tókst það að mörgu leyti vel. Um leið og kafað er í hugbúnað tölvunnar verður enskann á vegi tölvunotendanna. Íslenskan er einungis á yfirborðinu.

Ríkisútvarpið vegur nú að íslenskri tungu með því að ausa yfir landslýð stanslausri ensku. Flest menningarsamfélög, sem vilja standa undir nafni, talsetja erlendar kvikmyndir. Hér er það nær eingöngu gert með barnaefnið.

Að lokum: Ástæða er til að vekja athygli á að tækni er fyrir hendi sem gerir kleift að útvarpa á sérstökum rásum lýsingum á því sem gerist í sjónvarpskvikmyndum. Jafnvel er hægt að koma slíkum lýsingum við íkvikmyndahúsum og fá þeir, sem þess þurfa, sérstök heyrnartól. Með þessum hætti getur blint fólk notið kvikmynda og sjónvarpsefnis.


Þýðingar í sjónvarpi

Það gladdi marga þegar Björgúlfur Guðmundsson ákvað að styrkja Ríkissjónvarpið til þess að framleiða leikið, íslenskt sjónvarpsefni. Ekki veitir af. Sennilega á Ríkissjónvarpið meiri þátt í því en flestar aðrar stofnanir að eyðileggja málvitund fólks. Enskan bylur á eyrum landsmanna í tíma og ótíma. Þá má vænta þess að nýju, íslensku þættirnir endurspegli íslenskan veruleika og vonandi njóta þeir vinsælda.

Nú stendur yfir sýning seinni myndarinnar um októberbyltinguna í Rússlandi. Myndin er frönsk. Þulurinn les á ensku en viðmælendur í myndinni mæla á rússnesku og frönsku. Ég skil hvorugt málið og textinn rennur svo hratt yfir skjáinn að flestum er ókleift að lesa hann upphátt. Ég skil enskuna sæmilega en samhengið vantar í frásögnina vegna þess að ég skil ekki athugasemdir viðmælandanna. Allt efnið er textað. Hvað ætli margir fari á mis við texta við myndirnar? Ég gæti ímyndað mér að það væri um fimmtungur áhorfenda.

Nú er sú tækni fyrir hendi að útvarpa á sérstakri hlóðrás lýsingum á myndum sem sjónvarpað er eða lestri texta sem settur er við myndirnar. Gaman væri að vita hvort eitthvað slíkt sé í bígerð hjá ríkissjónvarpinu. Okkur vantar annan Björgúlf til þess að styrkja Ríkissjónvarpið til þess að láta lesa textann við myndir og sjá jafnframt til þess að íslenskir þættir séu túlkaðir á táknmál.


Birkir Rúnar Gunnarsson

Það var fróðlegt að fylgjast með viðtali sjónarpsins við Birki Rúnar Gunnarsson í kvöld. Það virtist svo ótrúlega stutt síðan þeir feðgar gomu í heimsókn til okkar mæðgina skömmu eftir að Birkir Rúnar missti sjónina. Þetta var einlægur snáði og afar forvitinn. "Finnst þér ekki gaman að tala við mig?" spurði hann móður mina og vitanlega játti hún þí, enda var so sannarlega gaman að hlusta á þennan tápmikla snáða sem irtist eiga framtíðina fyrir sér.

Leiðir okkar Birkis Rúnars lágu saman að nokkru leyti næstu árin. Hann fékk lestrar- og námsefni frá Blindrabókasafni Íslands og hann varð á meðal hinna fyrstu í hópi blindra hér á landi til þess að tileinka sér tölvubúnað. Varð strax augljóst að tölvan og blindraletursskjár, síðar einnig talgervill, yrðu hans mikilægustu hjálpartæki.

Árin hafa þotið hjá og nú er Birkir Rúnar orðinn faðir. Honum eru fluttar alúðar hamingjuóskir með von um bjarta framtíð honum og fjölskyldunni til handa.


Enn eitt staðfestuleysið í íslenskri nútímafjölmiðlun

Þennan pistil set ég á sjónvarpsbloggið því að hann á eiginlega hvergi heima annars staðar.

Nú hafa enn orðið sviptingar í íslenskum fjölmiðlun og Róbert Marshall ásamt öðrum starfsmönnum NFS verið sagt upp.

Þegar NFS hóf útsendingar síðastliðið haust fannst ýmsum, reyndum fjölmiðlungum það orka nokkuð tvímælis að halda úti stöð sem byggði nær eingöngu á sífelldum fréttaflutningi eins og stöðin gerði. Kom brátt í ljós að flestir gáfust upp á að fylgjast með stöðinni því að framboðið var of einhæft, nær eingöngu fréttir og fréttaskýringar.

Það er hins vegar rétt hjá Róbert Marshall að stöðin hefði þurft meiri tíma til þess að festa sig í sessi og vissulega hefði þurft að inna af hendi vissa þróunarvinnu til þess að stöðin fengi að takast á við samkeppnina á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Annars finnst mér sem 365 miðlar fari ekki að öllu leyti gæfulega af stað. Úthaldsleysið virðist einkenna samsteypuna. Góðar tilraunir eru gerðar en það er eins og þær renni út í sandinn. Ekki kæmi mér á óvart þótt einhverjir þeirra, sem reknir voru frá NFS, reyndu að stofna annan ljósvakamiðil og gera út á svipuð mið og NFS eða talstöðin áður.

Já, vel á minnst, Talstöðin. Hún var stofnuð eftir að Útvarp Saga klofnaði. Sú tilraun lofaði góðu. Nokkrir reyndir dagskrárgerðarmenn voru þar við hljóðnemann svo sem Illugi Jökulsson, Ragnheiður Gyða Jónsdóttir og Sigurður G. Tómasson. En Talstöðin rann út í buskann um leið og NFS skaust upp á stjörnuhimininn.

Það er aumkunarvert að heyra ævinlega sama sönginn, að ekki sé hægt að keppa við ríkisrekinn fjölmiðil. Því er haldið fram að þessi ríkisrekni fjölmiðill skekki samkeppnisstöðu annarra fjölmiðla.

Sannleikurinn er sá að þótt þrengt sé illyrmislega að Ríkisútvarpinu virðist það þó hafa ákveðinn metnað til að bera sem menningarmiðill, en það skortir aðra ljósvakamiðla tilfinnanlega. Þegar svo loksins er hleypt af stokkunum rándýrri tilraun eins og NFS komast menn að því innan árs að það er vart pláss fyrir slíkan fjölmiðil á okkar litla markaði.

Í kvöld var því haldið fram að nú yrði Vísir efldur sem vefmiðill og honum skotið upp í fyrsta sæti, sem sagt stefnt gegn mgl.is. Mikið þarf nú Vísir að taka sig á til þess að geta talist jafnoki Moggans. Má þar nefna uppbyggingu heimasíðunnar, aðgengi o.s.frv. Hönnun Vísis er með afbrigðum slæm. Á heimasíðunni ægir öllu saman og erfitt er að henda reiður á því sem menn ætla að lesa. Vonandi stendur það til bóta og vonandi halda menn út í einhvern tíma og leyfa vísi að þróast í rétta átt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband