Vetrarbúningur ríkisútvarpsins

Einu sinni hitti ég Gísla Halldórsson, leikara. Þetta var í mars skömmu áður en hann lést. Fórum við að spjalla um veðrið og tjáði Gísli mér að ´hjá sér væri komið sumar, en árstíðirnar væru tvær: sumar frá 1. mars til 1. nóvember. Þá tæki veturinn við.

Í gamla daga, þegar ég var barn, hófst vetrardagskrá ríkisútvarpsins á fyrsta vetrardag og þá var yfirleitt eitthvað gert fólki til hátíðarbrigða enda gerðist ýmislegt fleira þann dag. Klukkunni var til að mynda seinkað.

Nú hefst vetrardagskrá ríkisútvarpsins upp úr mánaðmótunum ágúst-september. Í þetta skipti fer hún tiltölulega vel af stað, a.m.k. á rás 1.

Nokkrir þættir, sem voru á dagskrá í fyrra, hefja nú aftur göngu sína. Má þar nefna Flakk Lísu Pálsdóttur, en Lísu tekst oft vel upp í vali viðfangsefna. Þá gladdi mig mjög að heyra að Ársól Njarðar P. Njarðvíkur er enn á dagskrá. Umfjöllun Njarðar og sú umgerð, sem hann býr ljóðnum, ber vott um yfirburðaþekkingu og fágun í framsetningu. Þá er Kvika einnig fróðlegur þáttur um kvikmyndir. Þótt ýmsir þættir séu hér ekki nefndir er enginn hörgull á góðu dagskrárefni rásarinnar. Nefndir skulu Stef Bergþóru Jónsdóttur, þættir Unu Margrétar Jónsdóttur, Hlaupanótan, Stjörnukíkir o.fl.

Í gær hófst nýtt spennuleikrit hjá Ríkissjónvarpinu, sem gert er eftir sögu Ævars Arnar Jósefssonar. Mér varð að vísu á að sofna undir því og sskreiddist fram í eldhús þegar ég vaknaði að fá mér kaffi þegar ég áttaði mig á að ég átti lítið erindi við höfundinn og persónur hans. Með ólíkindum er að nokkur, sem er jafnósvífinn og kjaftfor og einn sóðakjafturinn, sem er leynilögreglu- eða rannsóknarlögreglumaður í þættinum, fengi vinnu hjá nokkru lögregluembætti landsins. Sú persóna er afar ósannfærandi og ýmislegt í umgerð þáttanna olli vonbrigðum. Samtölin voru þar að auki illa skrifuð og málfarið hreinlega ljótt. Tónlistin var ofnotuð og stundum spurði ég mig til hvers hún væri ætluð.

Minn betri helmingur sagðist samt ætla að fylgjast með þáttunum og gefa þeim tækifæri.

Vissu lega er það gleðiefni þegar Ríkissjónvarpið mannar sig upp og framleiðir eða kaupir eitthvað af íslensku sjónvarpsefni. Síðasta laugardagskvöld minnti helst á kvikmyndaleigu þar sem ekkert var sýnt nema bandarískar kvikmyndir. Án þess að nefna einstakar kvikmyndir verð ég að segja sem er að mér ofbýður að ríkissjónvarpið skuli bjóða fólki þrjár kvikmyndir í röð sem lýsa bandarískum viðhorfum og hella um leið yfir hlustir manna bandarískri ensku.

Ánauð enskunnar er orðin svo yfirþyrmandi í öllu okkar umhverfi að ástæða er til að spyrna á móti. Menn hafa reynt að þýða tölvuumhverfið og tókst það að mörgu leyti vel. Um leið og kafað er í hugbúnað tölvunnar verður enskann á vegi tölvunotendanna. Íslenskan er einungis á yfirborðinu.

Ríkisútvarpið vegur nú að íslenskri tungu með því að ausa yfir landslýð stanslausri ensku. Flest menningarsamfélög, sem vilja standa undir nafni, talsetja erlendar kvikmyndir. Hér er það nær eingöngu gert með barnaefnið.

Að lokum: Ástæða er til að vekja athygli á að tækni er fyrir hendi sem gerir kleift að útvarpa á sérstökum rásum lýsingum á því sem gerist í sjónvarpskvikmyndum. Jafnvel er hægt að koma slíkum lýsingum við íkvikmyndahúsum og fá þeir, sem þess þurfa, sérstök heyrnartól. Með þessum hætti getur blint fólk notið kvikmynda og sjónvarpsefnis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband