Barnatími sjónvarpsins

Í morgun vaknaði Birgir Þór kl. hálf átta og eftir að afi fór fram varð hann friðlaus.

Snáðinn læddist fram í eldhús og sagðist ekki geta sofið lengur svo að afi stakk upp á að þeir fylgdust með barnatíma ríkissjónvarpsins.

Á dagskrá voru bandarískar barnamyndir að ég hygg og hafði verið sett við þær íslenskt tal. Til mikillar fyrirmyndar er að sjónvarpið skuli láta þýða efni sem ætlað er börnum, enda hafa komið fram á undanförnum árum ýmsar snilldarvel gerðar þýðingar.

Í morgun fannst mér talsvert skorta á að vandað hefði verið til þýðinganna. Guðfinna rúnarsdóttir virðist hafa þýtt flestar myndirnar sem sýndar voru í morgun. Raddbeiting leikaranna var með ágætum en málfarið ekki upp á marga fiska.

Búinn var til morgunverður fyrir fólk en ekki handa því (enska forsetningin for), börn (pöddur eða eitthvað annað) léku í stað þess að leika sér, upphrópanir eins og "Ó nei" voru algengar og margt bar þess keim að ensk tunga væri móðurmál þess er samdi textann. Þýðingarnar voru yfirleitt hráar þótt nokkrum sinnum brygði til hins betra.

Ýmislegt fleira gæti ég tínt til. Textinn var þó að flestu leyti fremur lipurlega saman settur. Þýðandinn ættii að vanda betur verk sitt og láta einhvern lesa yfir textann áður en hann er hljóðsettur handa íslenskum börnum.

Barnatímar sjónvarpsins eru vinsælir. Því er hætt við að málfar þeirra móti málþróun barnanna. Ábyrgur ríkisfjölmiðill (ef hann er þá til) á skilyrðislaust að gera kröfur til þess að dagskrárgerðarfólk vandi málfar sitt í stað þess að kasta til höndunum. Er þetta einkar mikilvægt þegar efni er matreitt handa börnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælir Arnþór,

Ég vann við þýðingar á slíku efni fyrir nokkrum árum og tók þá eftir því að vegna þess hve enska og íslenska eru ólík tungumál hvað varðar fjölda atkvæða til að segja sama hlutinn, þá þurfti oft að nota orðatiltæki sem geta ekki talist til venjulegs daglegs máls, þrátt fyrir að vera rétt íslenska. Okkur þýðendum var fyrst og fremt sett sú krafa að atkvæðafjöldi þess sem við þýddum færi ekki mikið fram úr upprunalega enska textanum, svo að talsetningin passaði við varahreyfingar persónanna í myndunum. Krafa númer tvö var að við þýddum yfir á lýtalausa íslensku. En vegna fyrri kröfunnar þá er það staðreynd, að íslenska á þýddu barnaefni er um margt sérstök, og oft eru sjaldgæf og lítt notuð orðatiltæki valin yfir þau algengari og eðlilegri vegna þess að þau passa í talsetningu.

Þetta er allavega ein skýring á hluta þess sem þú nefnir. En þegar málfræðin er farin að taka á sig blæ enskrar málfræði er um annan og meiri vanda að ræða heldur en einungis þýdds barnaefni, því þetta er nokkuð sem er orðið mjög algengt í almennu máli. 

Með kveðju,
Magnús

Magnús G.Kuwahara Magnússon (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband