Steinar sem lagðir eru í götu fólks - þiggjendur eða þolendur?

Stundum uppllifi ég sjálfan mig sem fimmta flokks þegn eða úrkast í íslensku samfélagi, en reyni iðulega að hrinda þessari tilfinningu frá mér.
Sannast sagna er eins og ekki sé gert ráð fyrir ákveðnum hópum sem þátttakendum, heldur sem eins konar þiggjendum.
Nýjasta dæmið er Kolviður. Við hjónin höfum áhuga á umhverfismálum og ákváðum að kolefnisjafna flugferðir okkar á milli Krítar og Íslands. Þegar ég fór inn á síðu Kolviðar kom í ljós að útfyllingarvélin var að ýmsu gersamlega óaðgengileg. Meðal annars birtust einhverjir stafir á skjánum sem hvorki talgervill né blindraleturstæki námu.
Slíkar hindranir verða á vegi mínum í hverri viku.
Annað dæmi:
Ég ætla að fá mér snarl á tilteknum veitingastað í kvöld ásamt góðvini mínum. Matseðillinn er ekki aðgengilegur.

Ég hef heyrt að á næsta eða þar næsta ári verði heimsþing blindra haldið hér á landi. Blindrafélagið virðist hvorki hafa getu né áhuga til að ýta við aðgengismálum í netheimum Íslands. Af hverju ætli félagið skipi ekki aðgerðahóp í þessu máli?


Fasbókin nýtti til níðskrifa

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðing og v. hæstaréttardómara. Fjallar hann þar um fasbókarsvæðið „Karlar gera merkilega hluti“.
Samkvæmt greininni virðist helsta markmið svæðisins að ata hann auri.
Ef rétt er að kona hafi stofnað síðuna og að einkum konur tjái sig þar um persónu lögfræðingsins, eins og greinin fjallar um, verður að segjast sem er að síða þessi er aðstandendum ekki til neins sóma. Gífuryrði og niðrandi ummæli ásamt viðeigandi munnsöfnuði eru engum til sóma. Þetta er galli fasbókarinnar. Oft reynist erfitt að halda uppi rökræðum um málefni líðandi stundar þar sem einatt verða einhverjir til þess að spilla þeim með gífuryrðum og málsóðaskap.

Bloggfærslur 19. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband