Þið hafið engin fjárhagsleg áhrif

 

Allir þurfa að sníða sér stakk eftir vexti, einnig ríkissjóðir og ríkisstjórnir.

Í dag var greint frá uppsögnum starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu. Þá var þess getið að hætt yrði að kaupa þjónustu af verktökum. Einnig var sagt að minna yrði keypt af íslensku sjónvarpsefni en áður.

Ríkisstjórnir, sem verið hafa við völd á ögurstundum hafa ætíð níðst á íslenskri menningu, Ríkisútvarpinu og öryrkjum. Þegar svarf að á 9. Áratugnum var byrjað á því að brjóta lög um málefni fatlaðra og skerða framkvæmdasjóð fatlaðra. Tekjutenging grunnlífeyris var afnumin og svo mætti lengi telja. Árið 1986 höfðu Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp burði til að hrinda árás stjórnvalda, e.t.v. vegna þess að kosningar voru í nánd.

Nú sjá stjórnvöld engin ráð önnur en að höggva enn í sama knérunn. Verðtrygging lífeyrisins hefur verið afnumin og þannig eru þeir, sem draga fram lífið á bótum einum, settir út á Guð og gaddinn, ég endurtek - Guð og gaddinn!

Ætla öryrkjar ekki að láta sverfa til stáls?

Vill enginn hefja setuverkfall?

Hvað ætlar Öryrkjabandalagið að gera annað en að semja ályktanir?

Hvar er byltingarráðið sem starfaði fyrir 20 árum? Er ekki hægt að endurvekja það með nýju fólki?

Aðhafist menn ekkert ber það merki um að fólk sé sátt við ástandið.

 

Heimsks manns ráð

Ýmsir hafa undrast forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar. Spara mætti nokkra milljarða með eftirtöldum aðgerðum:

  • 1. Hætt verði við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Skora ég á formann samninganefndar Íslendinga, Stefán Hauk Jóhannesson, sendiherra, að segja nú þegar af sér og leggja þannig lífsbaráttu íslensku þjóðarinnar lið.
  • 2. Utanríkisþjónustan verði verulega dregin saman og sendiráðum fækkað. Stofnað verði eitt Norðurlandasendiráð í Kaupmannahöfn, Evrópusambandssendiráð í Berlín, Ameríkusendiráð í Washington, Asíusendiráð í Beijing og Afríku þjónað frá Berlín.

Fjármunum sem þannig sparast verði varið til velferðarmála fyrst og fremst, en þar sverfur nú hvarvetna að.

 

Jafnvel heyrist að nú eigi að loka sérdeildum fatlaðra nemenda í íslenskum grunnskólum. Hvenær hættir þessi þjóðfélagshópur að verða afgangsstærð í íslensku samfélagi?

Eitt sinn spurði ég boga Ágústsson, sem var fréttastjóri Sjónvarpsins á þeim tíma, hvers vegna svo illa gengi að koma málefnum fatlaðs fólks á framfæri í ríkissjónvarpinu. Hjúkrunarfræðingar, sem væru nokkur hundruð, fylltu hvern fréttatímann á fætur öðrum vegna yfirvofandi verkfalls en ekkert fengist fjallað um baráttu fatlaðra fyrir bættum kjörum.

Svar hans var athyglisvert:

„Þið hafið engin fjárhagsleg áhrif."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Lúðvíksson

Nú er bara að hvetja alla til að mæta á austurvöll í dag kl 15.

www.nyttisland.is

Lúðvík Lúðvíksson, 23.1.2010 kl. 10:29

2 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þær eru margar sparnaðarholurnar hjá þessari norrænu velferðarstjórn. Nú verða til t.d. krabbameinssjúklingar sem koma á göngudeild í lyfjagjöf að hafa með sér skrínukost því það kostar of mikið að gefa þeim að borða.

Sigurður Sveinsson, 23.1.2010 kl. 12:18

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

"hrunið" er núna að birtast okkur í sínum fjölmörgu myndum. þetta er bara forsmekkur. ríkissjóður hefur ekki neina peninga til að deila út í raun. mest allt fé í umferð er lánsfé og ber vexti. þetta getur ekki borið upp velferðakerfið einsog við höfum vanist því. - ég er hissa á ef menn halda að við munum sleppa með að fara aftur til 2002! við erum á hraðri leið til sjöundaáratugarins. - þetta er ekki sagt til að bera blak af ríkisstjórninni - hún ræður ekki þessari ferð, þetta er hrun. Botninum er ekki náð..

Gísli Ingvarsson, 23.1.2010 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband