Hagsmunir heildarinnar

Í morgun var auglýstur fundur um óvissu í íslenskum sjávarútvegi sem haldinn verður í edínborgarhúsinu á Ísafirði í kvöld. Sitt sýnist hverjum um fundinn og Kristinn Gunnarsson, fyrrum þingmaður, reit þetta á heimasíðu sinni í gær:

http://kristinn.is/frettirpage.asp?ID=1359

„Baráttufundur fyrir hvern? 23. mars 2010

Þegar blásið er til baráttufundar er spurt : fyrir hvern er baráttan?

Fundurinn á Ísafirði á morgun er ekki baráttufundur fyrir heldur

auglýstur sem baráttufundur gegn. Fundurinn er fyrst og fremst gegn breytingum á fiskveiðikerfinu. Það heitir aðför að landsbyggðinni.

Baráttan er, þegar að er gáð, fyrir óbreyttum reglum um framsal, fyrir

því að áfram verði hagur almennings í sjávarbyggðum á valdi þeirra sem hafa fiskveiðiheimildir undir höndum og að áfram megi þeir ráðstafa þeim á þann hátt sem þeim sýnist hverju sinni og hirði allan arð í eigin vasa.

Fyrir liggur fyrirheit ríkisstjórnarinnar um langþráðar breytingar á reglum um framsal. Útvegsmenn með LÍÚ í broddi fylkingar líka á það sem aðför gegn sínum hagsmunum. Þess vegna er fundurinn baráttufundur gegn en ekki fyrir.

LÍÚ vill engar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þegar kerfið var endurskoðað á síðasta áratug tókst LÍÚ að koma í veg fyrir allar breytingar. Núna leika þeir sama leikinn. Þeir leggja ekkert til, setja ekki fram neina málamiðlun eða sáttatillögu. Þeir eru bara gegn. LÍÚ reynir að eyðileggja störf nefndar sem á að ná samkomulagi um breytingar, ganga á dyr, neita að koma inn aftur nema ekkert verði rætt annað en það sem þeir samþykkja, hóta að sigla flotanum í land og hætta veiðum og beita Samtökum atvinnulífsins fyrir sig til þess að setja efnahagsmál þjóðarinnar í uppnám. Þeir krefjast þess að stjórna löggjöfinni og gefa ekkert fyrir umboð ríkisstjórnar sem kjósendur veittu henni í almennum kosningum. Krafa LÍÚ er krafa um afnám lýðræðisins.

Það eru hagsmunir almennings að þessari gölluðu löggjöf verði breytt.

Það er gegn almannahag þegar útgerðarmaður á Flateyri getur selt allar veiðiheimildir staðarins í einu vetfangi og gert fólk atvinnulaust og skaðað verðmæti eigna þess. Það er gegn almannahag þegar útgerðarmaðurinn setur 2 milljarða króna eða kannski meira í eigin vasa og fer. Það er gegn almannahag þegar ekkert af þessu fé rennur til sveitarfélagsins til þess að standa undir þjónustu og velferðarkerfi.

Það er gegn almannahag þegar fólkið missir vinnuna og flytur burt. Staða Flateyrar og staða Ísafjarðarbæjar hefur versnað. Salan á kvótanum, sem var heimil vegna núverandi laga var aðgerð gegn íbúum sveitarfélagsins. Þess vegna er það gegn hagsmunum þeirra að vinna gegn breytingum.

Vilja bæjarstjórar og forráðamenn almennings á Vestfjörðum hafa það þannig að einn eða tveir menn verði áfram í þeirri stöðu að geta selt kvóta Gunnvarar í Hnífsdal eða Odda á Patreksfirði til dæmis til Samherja á Akureyri? Vilja menn endurtaka áföllin sem urðu við svik Samherja og Þorbjarnarins eða skammarlega framkomu Guðmundar vinarlausa? Vilja þeir áfram að ekkert af andvirði kvótans renni heim í hérað? Vilja þeir áfram að leiga á veiðiheimildum fari þannig fram að fáeinar útgerðir raki saman fé og kúgi leiguliðana til þess að greiða allan afrakstur veiðanna til sín?

Eða hvað eru menn að meina með því að stíga upp í fangið á LÍÚ? Fyrst LÍÚ vill ekki taka þátt í því að breyta framsalsreglum kvótakerfisins og laga það að almannahag og ekki hvað síst hag sjávarbyggðanna þá eiga forystumenn Vestfirðinga að vinna að því að koma á breytingum án þeirra.

Það verður eftir því tekið á morgun hvernig þeir haga máli sínu og hvað þeir raunverulega ætla sér með þessum fundi. Hitt vitum við hvað LÍÚ ætlar sér með fundinum. Það er andstætt hagsmunum Vestfirðinga.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Rétt hjá þér félagi, framganga LÍÚ mafíunnar er enn & aftur til háborinnar skammar og einni FLokkurinn sem talar þeirra mál er RÁNfuglinn - sorry - BÓFAflokkurinn - nú er mál að linni.  Tek heilshugar undir þína gagnrýni á LÍÚ: "LÍÚ vill engar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þegar kerfið var endurskoðað á síðasta áratug tókst LÍÚ að koma í veg fyrir allar breytingar. Núna leika þeir sama leikinn. Þeir leggja ekkert til, setja ekki fram neina málamiðlun eða sáttatillögu. Þeir eru bara gegn. LÍÚ reynir að eyðileggja störf nefndar sem á að ná samkomulagi um breytingar, ganga á dyr, neita að koma inn aftur nema ekkert verði rætt annað en það sem þeir samþykkja, hóta að sigla flotanum í land og hætta veiðum og beita Samtökum atvinnulífsins fyrir sig til þess að setja efnahagsmál þjóðarinnar í uppnám."

kv. Heilbrigð skynsemi (www.fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 24.3.2010 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband