Enskumengunin í Kína

Fimmtudaginn 15. Apríl síðastliðinn var haldin austur í Beijing ráðstefna um þá hættu sem kínverskri tungu stafar af stöðugt meiri enskumengun. Kínverska alþjóðaútvarpið, china Radio International, birti frásögn af ráðstefnunni föstudaginn 30. apríl.

Áhrifa enskunnar fór að gæta í kínversku um svipað leyti og Bretar tóku að herja á Kínverja laust fyrir miðja 19. öld og fóru þessi áhrif vaxandi þegar leið fram á 20. öldina. Ýmis orð eins og jakki og rjómaís eiga rætur að rekja til ensku þótt menn átti sig ekki á því við fyrstu heyrn. Í Hong Kong, þar sem Bretar réðu ríkjum í hálfa aðra öld, er mál manna mjög enskuskotið.

Áhrif enskunnar jukust að mun upp úr 1980 þegar samskipti Kínverja við verstrænar þjóðir færðust í aukana. Fyrst ruddu sér til rúms skammstafanir á enskum fræðiheitum og heitum námsgreina sem ekki höfðu verið kenndar við kínverska háskóla. Ástæðan var einkum sú að menn urðu ekki sammála um þýðingu skammstafananna. Þótt leitast hafi verið við að þýða námsgreinaheitin á kínversku er svo komið að í um þriðjungi frétta kínverskra fjölmiðla bregður fyrir enskum skammstöfunum innan um kínverska letrið, sem almenningur skilur ekki. Vandinn hefur orðið enn meiri vegna þess að menn hafa ekki hirt um að þýða ýmsar skammstafanir í tölvukerfum og er nú svo komið að almenningur skilur ekki allt sem stendur á aðgöngumiðum kvikmynda- og tónleikahúsa.

Fram kom í máli nokkurra ræðumanna á ráðstefnunni að þeir óttuðust að nokkur hluti fræði- og vísindamanna ættu orðið í erfiðleikum með að tjá sig á kínversku svo að vel færi og almenningur skildi. Hefur nú verið boðað sérstakt átak til þess að sporna við þessum áhrifum.

Íslendingum er þessi umræða ekki ókunn. Ensk heiti haa nú leyst latnesk fræðaheiti af hólmi. Enginn verður nú magister heldur lýkur hann mastersprófi eða –gráðu. Orðið meistaranám heyrist sára sjaldan.

Kínverskir fréttamenn sletta iðulega enskum skammstöfunum þegar um er að ræða hugtök í hagfræði og fleiri greinum. Þó að Íslendingar geri það ekki hlýtur samt að fara hrollur um þá sem vilja veg tungunnar sem mestan þegar spurnir berast af áhyggjum fjölmennustu þjóðar heims af tungu sinni. Íslendingar búa nú við þá sérstöðu í Evrópu að mestur hluti talaðs máls í sjónvarpi er á ensku. Enskan bylur á eyrum sjónvarpsáheyrenda og mótar hugsun og málfar. Íslenskir listamenn leggjast jafnvel svo lágt að þruma yfir áheyrendum enska texta, misjafnlega vel orta, sem einungis nokkur hluti almennings skilur. Hljómsveitin Hjaltalín er dæmi um slíkan hóp, en á frídegi verkalýðsins 1. maí sl. þrumdi úr hátalarkerfi sveitarinnar ensk tunga þegar fólk hélt að um baráttutónlist væri að ræða. Þannig hefur hljómsveitin gengið í lið með þeim sem vega að tungumálum smáþjóða og er það illt afspurnar.

Forstöðumenn kínverskra ráðuneyta, sem tóku til máls á ráðstefnunni, tóku fram að ekki væri rétt að banna notkun slíkra skammstafana en menn yrðu að gæta sín þegar þær væru farnar að menga tungumálið.

http://english.cri.cn/08webcast/index.htm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reyndu ekki bankræningjarnir sitt besta til að hafa af okkur móðurmálið, menn sem tala lélega ensku og aflóga íslensku?

Emil (IP-tala skráð) 3.5.2010 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband