"
JÁTAÐU, ÁRNI, JÁTAÐU!
Heill og sæll Árni.
Þetta bréf er skrifað í tilefni af dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Þar varst þú dæmdur brotlegur fyrir að hafa í desember 2007 skipað Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara þótt dómnefnd hefði úrskurðað að þrír umsækjendur um stöðuna væru tveimur flokkum hæfari en hann. Málið höfðaði einn þessara þriggja umsækjenda, Guðmundur Kristjánsson, en honum þótti sem þú hefðir gengið freklega framhjá sér við stöðuveitinguna.
Og skal engan undra. Í umsögn dómnefndar um Guðmund sagði: [Hann] hefur langlengstan starfsferil umsækjenda og tengist hann allur dómstólum. Hann hefur fengist við dómarastörf með einum eða öðrum hætti um tólf ára skeið og stundað málflutning fyrir héraðsdómstólum í rúm 20 ár og síðustu tólf árin einnig fyrir Hæstarétti. Hann hefur fengist bæði við einkamál og opinber mál og hefur vegna dómara- og málflutningsstarfa sinna víðtæka þekkingu á réttarfari og iðkun þess. Hann hefur jafnframt haft með höndum stjórnunarstörf í átta ár sem aðalfulltrúi bæjarfógeta og sýslumanns í stóru umdæmi og getið sér góðan orðstír á starfsferli sínum.
UNDIR VENJULEGUM KRINGUMSTÆÐUM KOM ÞORSTEINN EKKI TIL GREINA Þorsteinn Davíðsson, sá maður sem þú tókst fram yfir Guðmund með alla sína fjölbreyttu reynslu, hann hafði aftur á móti útskrifast sem lögfræðingur aðeins 8 árum fyrr. Hann hafði starfað sem aðstoðarmaður dómara í þrjú ár en síðan verið aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra í fjögur ár. Undir venjulegum kringumstæðum hefði Þorsteinn því augljóslega ekki komið einu sinni til álita í þessa dómarastöðu. Ekki aðeins Guðmundur Kristjánsson, heldur einnig Halldór Björnsson og Pétur Dam Leifsson voru metnir miklu hæfari en Þorsteinn, svo munaði tveim flokkum í mati dómnefndar. Þeir þremenningar voru mjög vel hæfir; Þorsteinn aðeins hæfur.
En kringumstæður voru ekki venjulegar. Þorsteinn Davíðsson var og er sonur Davíðs Oddssonar. Og árið 2007 hafði Davíð enn heljartök á Sjálfstæðisflokknum (og hefur kannski enn?). Og við strax og við (íslenska þjóðin) fréttum að þú, sem settur dómsmálaráðherra, hefðir ráðið Þorstein Davíðsson í starfi, þá vissum við hvað klukkan sló.
Enn ein hneykslanlega ráðningin sem Davíð Oddsson stóð fyrir, þó þú, Árni, sæir formlega um málið.
Í þessu sambandi er forvitnilegt að líta til baka til ársins 1995. Þá lét af störfum Guðni Guðmundsson, sá frægi rektor Menntaskólans í Reykjavík. Nokkrir gamalreyndir kennarar við MR sóttu um starfið og þar á meðal var íslenskukennarinn Ólafur Oddsson.
DAVÍÐ TÓK UPP ÞYKKJUNA FYRIR BRÓÐUR SINN Ólafur kenndi mér um tíma þegar ég var í MR fyrir margt löngu og ég get vottað að hann var prýðilegur kennari og ljómandi viðkunnanlegur maður. Hann bar hins vegar ekki endilega með sér að vera mikill stjórnandi í eðli sínu, enda valdi Björn Bjarnason menntamálaráðherra hann ekki sem arftaka Guðna. Þess í stað skipaði hann sem rektor Ragnheiði Torfadóttur, skörulegan latínukennara við MR. Og er ekki vitað til annars en Ólafur Oddsson og aðrir keppinautar Ragnheiðar um stöðuna hafi vel unnt henni framans. En einn var sá maður sem tók upp þykkjuna fyrir Ólaf Oddsson. Það var Davíð, yngri bróðir hans. Hann mun hafa reiðst heiftarlega þegar Björn Bjarnason gekk framhjá bróður hans og hófst þegar handa um að gera Birni það ljóst. Ekki nóg með það, heldur kom hann öllum öðrum í innsta hring sínum líka í skilning um að Björn hefði brugðist honum. Í langan tíma á eftir virti Davíð Björn ekki viðlits, hvorki á ríkisstjórnarfundum né utan þeirra, heldur lét bara eins og menntamálaráðherrann væri ekki til. Hreytti í mestan lagi einhverju geðvonskulega í hann.
Hér er ýmislegt að athuga, Árni Mathiesen.
Í fyrsta lagi kann það að virðast eðlilegt hvöt að fyrtast við ef náið skyldmenni fær ekki að sjá drauma sína rætast. Í þessu tilfelli meina ég draum Ólafs íslenskukennara um að verða rektor Menntaskólans. En ef maður gegnir valdamesta embætti landsins verður maður að geta greint á milli sinnar prívatpersónu og forsætisráðherrans.
Davíð hafði þegar sýnt að hann átti mjög erfitt með einmitt það, þegar Ólafur G. Einarsson þáverandi menntamálaráðherra réði séra Heimi Steinsson útvarpsstjóra RÚV árið 1991 en ekki þann kandídat sem Davíð vildi, Ingu Jónu Þórðardóttur, eiginkonu Geirs Haarde. Þá reiddist Davíð mjög og bætti ekki úr skák þegar séra Heimir rak nokkru síðar fornvin Davíðs, Hrafn Gunnlaugsson, úr starfi dagskrárstjóra Sjónvarpsins. Þá beitti forsætisráðherra landsins sér af hörku gegn útvarpsstjóranum, nokkuð sem hann hefði auðvitað aldrei gert ef hinn burtrekni dagskrárstjóri hefði ekki verið vinur hans.
VILJASTERK LÍTILMENNI BEITA GEÐVONSKU SEM VOPNI Í öðru lagi var mál Hrafns Gunnlaugssonar aðeins það fyrsta af fjölmörgum sem sigldu í kjölfarið, og sýndu að Davíð sá ekkert rangt við og ætlaðist reyndar beinlínis til þess að fólk honum þóknanlegt hefði forgang að opinberum embættum. Björn Bjarnason hafði þó enn ekki áttað sig nógsamlega á því þegar hann slysaðist til að ráða Ragnheiði Torfadóttur rektor MR árið 1995 en hann fékk nú yfir sig sótsvarta reiði foringjans. Sú er oft raunin um viljasterk lítilmenni að þau beita geðvonsku sinni sem vopni, og þegar verst lætur verður það vopn svo máttugt að óttinn við geðvonskukastið verður jafnvel skelfilegri en bræðin sjálf. Björn Bjarnason, svo gáfaður og hæfileikaríkur maður sem hann þó er frá náttúrunnar hendi, hann kunni ekki að höndla augljósa reiði Davíðs og lyppaðist niður í ótta og vanlíðan. Hann gat ekki hugsast sér að þurfa að þola ískalda þögn Davíðs en á bak við brún hans virtist ólga ofsareiðin.
Það er ein af furðum stjórnartíðar Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokknum hvernig honum tókst að gera sér jafnvel hina mætustu menn svo fylgisspaka að þeir beinlínis skulfu eins og strá í vindi við tilhugsunina um að gera eitthvað móti vilja hans. Og sannfærðu sig frekar um að vilji hans væri ætíð sá eini rétti, og stóðu síðan fastir á því fram í rauðan dauðann. Það er mín kenning, Árni, að þegar gáfaðir menn neyðast til að játast undir áhrifavald sér minni manna, þá verði þeir ofurtrúir foringja sínum af því þeim sé kappsmál að sanna fyrir sjálfum sér að þeir hafi gert rétt í að beygja vilja sinn undir vilja foringjans. Því sannfæri þeir sig um að foringinn sé vissulega afbragð annarra manna og hljóti alltaf að hafa rétt fyrir sér. Það sé eina skýringin sem þeir geti innra með sér sætt sig við á því að haga sér eins og lúpa andspænis lítilmenninu.
NÝTUR EINHVER UMSÆKJENDA VELVILDAR FORINGJANS? Þessari kenningu kom ég einu sinni á flot varðandi Styrmi Gunnarsson og þjónkun hans á seinni árum við Davíð, en ég hugsa að hún geti allt eins átt við um Björn Bjarnason. Meðferðin á Birni í þetta sinn var það sem endanlega kenndi þeim, sem vildu njóta velvildar Davíðs, að við mannaráðningar væri mönnum hollast að athuga ævinlega fyrst hvort einhver umsækjenda kynni að njóta sérstakrar velvildar leiðtogans mikla; síðan mátti fara að huga að öðrum verðleikum.
Það skal tekið að Björn Bjarnason hefur ávallt neitað því að ofangreind lýsing á viðbrögðum Davíðs við ráðningu Ragnheiðar Torfadóttur eigi við rök að styðjast. Sjálfsagt mun hann enn bera á móti því. En í andmælum er heldur holur hljómur. Um þögula fyrirlitninguna sem Davíð sýndi Birni í kjölfarið hef ég öruggar heimildir.
Um daginn vitnaði svo Hreinn Loftsson um algjöra örvilnan Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar þegar Davíð setti hann í frystikistuna eftir að Hannes hafði leyft sér að mótmæla mannréttindabrotum íslenskra stjórnvalda í garð Falun Gong-hópsins. Sú lýsing hljómaði mjög kunnuglega fyrir þá sem þekktu til viðbragða Davíðs við ráðningu rektors MR, og annarra dæma um hvernig hann beygði að lokum allan Sjálfstæðisflokkinn undir sinn vilja og sína hagsmuni eða hagsmuni vina sinna og ættingja.
Frægustu og afdrifaríkustu dæmin eru auðvitað þau sem lúta að dómstólum landsins. Þegar tök Davíðsklíkunnar á samfélaginu voru orðin nægilega sterk var jafnvel æðsti dómstóll landsins meðhöndlaður sem prívatsandkassi fyrir vini og ættingja foringjans.
ÓÞEKKTUR DÓMSTJÓRI TEKINN FRAM YFIR KUNNA LÖGFRÆÐINGA Árið 2003 losnaði staða dómara við Hæstarétt og meðal umsækjenda voru margir vel kunnir og afar færir lögfræðingar. Það kom hins vegar öllum í opna skjöldu þegar Björn Bjarnason, sem þá var orðinn dómsmálaráðherra, veitti þetta mikilvæga embætti Ólafi Berki Þorvaldssyni, ungum dómstjóra á Selfossi sem hafði hvorki í laganámi né nokkurn tíma síðan látið neitt umtalsvert að sér kveða á sviði lögfræðinnar. Enda höfðu nálega allir umsækjendur um starfið verið metnir mun hæfari en Ólafur Börkur. Þetta þótti mjög dularfullt, þangað til bent var á að Ólafur Börkur var náfrændi Davíðs Oddssonar þeir munu vera systkinasynir. Auðvitað var það ástæðan fyrir því að Björn réði Ólaf Börk. Svo brenndur var Björn eftir reynslu sína af MR-málinu að ég efast um að Davíð hafi einu sinni þurft að nefna það við hann hvort ekki væri kjörið að Ólafur Börkur fengi embættið. Væntanlega hefur Björn skipað hann orðalaust, því hann vissi vilja meistara síns. Fyrir þessa embættisveitingu var Björn dæmdur brotlegur við jafnréttislög með því að taka Ólaf Börk fram yfir Hjördísi Hákonardóttur sem var samkvæmt öllum mælikvörðum mun álitlegri umsækjandi.
Ári seinna losnaði aftur staða dómara við Hæstarétt. Aftur sótti um mikið lið valinkunnra lögfræðinga. Nú vék Björn Bjarnason sæti en Geir Haarde fjármálaráðherra tók að sér að veita embættið. Ótrúlegt nokk ákvað Geir að skipa í starfið Jón Steinar Gunnlaugsson, sérlegan vin og baráttufélaga Davíð Oddssonar, þótt margir lögfræðingar væru metnir hæfari til starfans en hann.
Hæstiréttur á að vera hafinn yfir alla flokkadrætti. Vitaskuld er það svo að gegnum tíðina hafa hinir valhelgu helmingaskiptaflokkar unnvörpum skipað þar inn sína menn en ég held að aldrei í sögu pólitískrar spillingar á Íslandi hafi hún orðið jafn nakin og auðsæ og þessi ár, þegar Ólafur Börkur og Jón Steinar voru skipaðir í Hæstarétt.
ÓLAFUR BÖRKUR OG JÓN STEINAR ÆTTU AÐ SEGJA AF SÉR Í raun og veru finnst mér að í nafni væntanlegrar siðbótar í íslensku samfélagi ættu þeir kumpánar að sjá sóma sinn í að segja af sér embættunum sem þeir hlutu svo greinilega af því einu að vera í frændskap og vináttu við Davíð Oddsson. Mér þykir ekki liggja beint við að við, íslenska þjóðin, þurfum að borga þessum mönnum há laun og síðan eftirlaun til æviloka í þakkarskyni fyrir þátttöku þeirra í spillingunni.
En ekki var allt búið enn. Nú var komið að þér, Árni Mathiesen. Í desember 2007 var komið að því að skipa í embætti héraðsdómara á Norðausturlandi. Þá voru farnir að kortast dagar hins mikla og ástsæla leiðtoga á valdastóli á Íslandi, Davíð sat í Seðlabankanum en fjendur hans í Samfylkingunni voru komnir í ríkisstjórn og óvíst hve lengi enn áhrifavald Davíðs myndi vara. Kannski hefði Þorsteinn Davíðsson á mestu velmektardögum karls föðurs síns óhikað verið skipaður beint upp í Hæstarétt, þrátt fyrir lítið starf að lögum, en nú varð embætti héraðsdómara að duga.
Þar eð Þorsteinn hafði verið aðstoðarmaður Björns dómsmálaráðherra lýsti hann sig vanhæfan til að skipa í starfið og þá varst þú, dýralæknirinn og fjármálaráðherrann, settur til að skipa í stöðuna. Og þú varst ekki að tvínóna við hlutina á einum eftirmiðdegi eða svo gekkstu frá ráðningu Þorsteins, og sjá: einkasonur leiðtogans mikla var kominn í þægilega innivinnu hjá ríkinu en það var svo skrýtið með frjálshyggjumennina í Eimreiðarhópnum gamla hvað þeir sóttu fast í að koma sér og sínum á ríkisjötuna.
ÞORSTEINI DAVÍÐSSYNI FINNST SÉR SÆMA AÐ SITJA ÁFRAM Í ÞESSU STARFI Nú er búið að dæma þig fyrir þetta, Árni, og ég hvet alla til að kynna sér dóminn, en hann er að finna á netinu. Þar kemur skýrt og greinilega fram hve augljósa valdníðslu þú framdir því ég veit svo sem ekki hvað er hægt að kalla það annað. Og þar kemur reyndar líka fram það sem ég vissi ekki, að eftir að Guðmundur Kristjánsson lýsti sig svo sárlega óánægðan með skipan Þorsteins að hann ætlaði í mál við þig og ríkið, þá var honum boðin staða afleysingadómara í tvö ár en hann hafði sómatilfinningu til að hafna því kostaboði. En það sem ég vildi sagt hafa, Árni ég sé að þú hefur ekki viljað láta hafa neitt eftir þér um niðurstöðuna í máli Guðmundar gegn þér. Aftur á móti hefur Karl Axelsson, lögmaður þinn, látið í veðri vaka að dómnum verði áreiðanlega áfrýjað til Hæstaréttar. Og ástæða þess að ég skrifa þér þetta opna bréf, Árni, er sú að ég vil biðja þig að gera það ekki.
Ekki láta etja þér út í frekari lagaflækjur um þetta mál. Við vitum öll að þú skipaðir Þorstein í starf dómara eingöngu af því hann var sonur föður síns. Þú veist að við vitum það, og við vitum að þú veist að við vitum það. Það sem kannski er óviðfelldnast er að Þorsteinn Davíðsson veit það auðvitað líka, en finnst sér samt sæma að sitja áfram í þessu starfi. Það verður sá góði maður að eiga við sjálfan sig.
En af því bæði þú og við vitum þetta allt, Árni, ekki láta þá Karl Axelsson telja þér trú um að ástæða sé til þvæla þetta mál frekar fyrir dómstólum.
Það þarf náttúrlega ekki að segja þér hvar Karl Axelsson er alinn upp sem lögfræðingur. Jú, á lögfræðistofu Jóns Steinars Gunnlaugssonar
VIÐ EIGUM ÞAÐ SKILIÐ AÐ ÞÚ SEGIR OKKUR SANNLEIKANN
Ekki vera í þessu kompaníi til æviloka, Árni. Játaðu sekt þína. Stígðu fram og segðu okkur hreinskilnislega frá vinnubrögðunum og móralnum sem við lýði voru í Sjálfstæðisflokknum á valdaárum Davíðs og litlu ljótu klíkunnar.
Þú hefur nú þegar sýnt ákveðinn manndóm með því að reyna ekki að streitast við að halda áfram í pólitík eftir aðild þína að hruninu, heldur ertu bara kominn út í sveit að sinna því starfi sem þú ert vissulega menntaður til að gegna það væri betur að fleiri færu að dæmi þínu. En stígðu skrefið til fulls. Ekki reyna að telja okkur trú um að eitthvað sé verjandi við það sem þú hefur nú verið dæmdur fyrir. Játaðu sekt þína og segðu okkur allan hinn nakta sannleika um það andrúmsloft í flokknum, sem varð þess valdandi að ágætir menn létu líðast að dómskerfi landsins varð sandkassi lítillar klíku. Við eigum það skilið af þér, Árni, að þú segir okkur sannleikann en reynir ekki að ljúga með lagaflækjum.
Og þú átt það skilið að híma ekki í aftursætinu til eilífðarnóns.=
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 3.5.2010 | 06:52 (breytt kl. 07:38) | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.