Endasleppar hjólreiðar

Við hjónin fórum hjólandi með Unni vinkonu okkar Alfréðsdóttur upp í Hlíðar í kvöld, en hún hjólaði til okkar eftir kvöldmat. Þegar við komum upp úr göngunum undir Bústaðaveginn fóru að heyrast högg einhvers staðar í Orminum bláa og varð brátt ljóst að þau komu úr afturhjólinu. Hófust miklar vangaveltur um hvað þetta gæti verið, gírarnir, því að slátturinn var mildur, hemlaklossarnir eða gjörðin væri farin að skekkjast.

Þegar við komum heim til Unnar voru höggin orðin háværari svo að nokkru nam. Þegar hjólinu var lyft sást að dekkið rakst á einum stað utan í hemlaklossana.

Við renndum okkur heim á leið og fann ég þá fyrir skekkju í afturhjólinu. Grunaði mig ekki að það sama endurtæki sig og fyrir tveimur árum. Þegar við áttum skammt ófarið að Tanngarði hvellsprakk.

Mér er óskiljanlegt hvers vegna dekk endast ekki lengur en þetta 700 km hjá okkur á tveggja manna hjólinu. Það er eins og þau nuddist í sundur eða eitthvað gerist þannig að þau byrja að gúlpa út. Við héldum að þetta væru vanstilltir hemlaklossar og fóru þeir viðgerðarmenn hjá Erninum ítarlega yfir þetta í fyrra.

Okkur brá við þennan hvell og snarhemluðum svo snögglega að Elín meiddist í hné, en hún hefur átt við óþægindi að stríða i því öðru hverju.

Hófst nú næsti þáttur ferðalagsns - sá að leita að sendibíl til að flytja Orminn bláa og okkur heim í háttinn. Engir sendibílstjórar voru á vakt eftir kl. 22 en klukkan var að nálgast miðnætti. Fangaráðið varð að hringja í Hreyfil og var okkur sendur stór farþegabíll. Með því að leggja niður aftursætin tókst að koma tveggja manna hjólinu þar fyrir.

Nú verður skipt um dekk á Orminum eftir helgi og sjálfsagt reynt að velja eitthvað gott og vandað. Annars eigum við Schwalbe hjólbarða sem er nær óslitinn og e.t.v. ráð að nota hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir reynast stundum erfiðir forsetahundarnir.

Emil (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband