Jafnrétti allra en ekki sumra

Hinn fyrsta maí síðastliðinn, þegar nokkrir Íslendingar fóru í kröfugöngu og enn fleiri austur í Hveragerði, fékk Femínistafélag Íslands verðlaun jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar. Var félagið vel að þessum verðlaunum komið, enda hefur það vakið athygli á misrétti karla og kvenna sem viðgengist hefur á mörgum sviðum. Leidd hafa m.a. verið rök að því að lækkandi laun í ýmsum stéttum megi rekja til aukinnar þátttöku kvenna. Þannig hefur dregið sundur með kennurum og þingmönnum, sennilega vegna þess að karlmenn eru í meirihluta þingmanna og konur skipa meirihluta kennarastéttarinnar.

Þegar fyrst voru sett lög um jafnrétti kynjanna hér á landi ræddu ýmsir framsýnir forystumenn fatlaðra um að nauðsynlegt hefði verið að kveða á um jafnrétti fatlaðra í sömu löggjöf. Því miður báru þingmenn hvorki gæfu til að taka mark á þeim athugasemdum né til þess að skipa jafnréttislöggjöfinni þannig að eitthvert mark væri á henni takandi. Enn er það svo að umsækjendur um störf eiga erfitt með að fá hlut sinn réttan, ef brotið er á þeim í umsóknum um starf. Þá veikir það mjög jafnréttislöggjöfina hér á landi að hún tekur til opinberra stofnana en ekki einkafyrirtækja.

Um svipað leyti og jafnréttislög voru í fyrsta sinn sett hér á landi, voru í gildi lög um endurhæfingu. Þar voru ákvæði þar sem kveðið var á að sá, sem notið hefði endurhæfingar skyldi %u201Cað öðru jöfnu%u201D njóta forgangs til starfa hjá ríki og sveitarfélögum ef hann væri jafnfær eða hæfari öðrum umsækjendum til starfans. Einu sinni var ákveðið að láta á þessa grein reyna, en sá mæti lögmaður, Arnmundur Bachmann, taldi að orðin %u201Cað öðru jöfnu%u201D væru svo almenns eðlis að ekki væri hægt að festa hendur á þeim í málsókn. Um svipað leyti sóttu þeir Magnús Kjartansson og Eggert Þorsteinsson um starf forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og hlaut Eggert starfið. Vildu þá vinir Magnúsar að hann sækti rétt sinn á grundvelli áðurnefndra laga, en Magnús neitaði. Vissulega var Magnús fatlaður, því að hann var í hjólastól og hafði notið endurhæfingar. Hann benti á að Eggert hefði einnig strítt við sína fötlun, áfengissýki, og hefði einnig hlotið endurhæfingu. Báðir voru þeir mikilhæfir stjórnmálamenn og gerðu almenningi í landinu mikið gagn.

Því er þetta rifjað upp nú að í tengslum við jafnréttisviðurkenninguna fyrsta maí síðastliðinn rifjaðist upp fyrir mér að hinn 17. maí árið 2003 var haldin ráðstefna um jafnrétti á vegum jafnréttisnefndar Reykjavíkur þar sem leitað var svara við því hvort fjalla bæri um jafnréttismál í Reykjavík í víðara samhengi en hingað til hefði verið gert. Mér sýnist að niðurstöður flestra fyrirlesara hafi verið allar á einn veg. Fróðlegt verður því að fylgjast með jafnréttisviðurkenningum á næstu árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband