Enn af þættinum um Sigurgeir, morgunhjólreiðum og eindælum árbít.

Í gærmorgun einhenti ég mér í að skipta þættinum um Sigurgeir bæjarstjóra í ýmsa efnisflokka. Mældi ég tímann gróflega og komst að þeirri niðurstöðu að með því að sleppa nokkrum þeirra yrði þátturinn rúmlega 50 mínútur. Ég samdi millikynningar og prentaði þær. Í morgun hófst ég svo handa við að lesa kynningarnar inn. Ég breytti stássstofunni í hljóðver og lokaði bæði gluggum og hurðum. Með því að nota fremur stefnuvirkan hljóðnema tókst mér að draga úr hljómi í stofunni. Settist ég síðan við tölvuna og fórað raða saman. Kl. 11:30 var mér öllum lokið, þátturinn var tilbúinn, 49,36 mínútur. Ég fór síðan yfir þáttinn og snyrti hann örlítið til. Frumflutti hannsíðan fyrir sjálfan mig kl. 14:00 og tel hann nú hæfan til útsendingar. Auðvitað gæti ég lesið inn kynningarnar uppi í útvarpi, en mér þykir heimilishljómurinn alltaf skemmtilegur og nýt þess að föndra við þennan samsetning. Ég held að flokka megi svona lagað undir list eða prjónaskap. Elín prjónar flíkur og ég útvarpsþætti. Í gærkvöld fórum við suður í Hafnarfjörð til Árna og Elvu. Birgir litli Þór var hinn kátasti en reyndi þó dálítið að frekjast við matarborðið. Gistum við síðan á Nönnustígnum í nótt. Í morgun vöknuðum við hjónakornin kl. 05:00 og hjóluðum upp á Hvaleyrarholt í morgunverðinn sem okkur var boðið til og hófst kl. 06:00. Þar voru saman komnar nokkrar kellur úr Öskjuhlíðarskóla sem taka þátt í Íslandi á iði auk mín, sem er háseti á Orminum bláa hjá Elínu. Eiginmaður húsfreyju þjónaði til borðs. Á boðstólnum voru a.m.k. þrenns konar heimabökuð brauð ásamt ýmsu meðlæti og góðu kaffi. Þegar okkar boði lauk fór húsbóndinn að undirbúa næsta morgunverð, en hann er liðsstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu. Mættum við nokkrum hjólreiðamönnum sem voru á leiðinni til hans. Við lögðum síðan af staðnorðvestur í Öskjuhlíðarskóla kl. 06:45 og vorum komin á áfangastað upp úr kl. hálf átta. Vegalengdin er um 12 km og upp talsverðar brekkur að fara, einkum Kópavogshálsinn og Suðurhlíðina. Dáðist ég að nokkrum kvennanna sem voru ekki vanar hjólreiðum. Öskjuhlíðarskóli er nú framalega í keppninni um Ísland á iði enda sést vart bíll á bifreiðastæði skólans um þessar mundir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband