Egils saga Skalla-Gríms sonar í Ríkisútvarpinu

Um þessar mundir er flutt á vegum Útvarpsleikhússins norsk leikgerð Egils sögu í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur. Vísur Egils og brot úr kvæðum hefur Þórarinn Eldjárn endurort.

Tæknivinnsla er öll hin besta og hljóðmyndin yfirleitt til fyrirmyndar. Leikurinn er góður. Þó hefði mátt nota yngri leikara í fyrsta þættinum, en þá var fjallað um æsku Egils. En allt sleppur þetta þó fyrir horn.

Eins og við mátti búast er þýðing Ingunnar vel gerð. Þó sakna ég þess að ekki skuli notuð orðatiltæki úr sjómannamáli, sem voru lifandi í málinu til skamms tíma. Hér áður fyrr undu menn upp segl, en hífðu þau ekki upp og felldu seglið.

Vísur Þórarins Eldjárns bera af. Hann hefur endurort þær flestar undir dróttkvæðum hætti og tekst listavel að koma efni þeirra til skila. Sýnir Þórarinn hvað dróttkvæður háttur getur í raun verið lipur bragarháttur, ef vel er með farið. Vísurnar eru sumar reyndar svo vel gerðar, að sá grunur læðist að mér, að vísurnar hljóti jafnvel að hafa verið umortar eftir því er tímar liðu fram og lengra varð frá því að Egill var á dögum. Reyndar voru vísur Egils torráðnar fyrri tíðar mönnum, eða orti annálaritarinn Björn á Skarðsá ekki þannig á 17. öld?

Mín er ekki menntin slyng

mætri að skemmta dróttu.

Eg var að ráða ár um kring

það Egill kvað á nóttu.

Þarna vitnar Björn til Höfuðlausnar. Gaman verður að heyra Höfuðlausn Þórarins á sunnudaginn kemur.

Þórarni eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þakklæti fyrir þessa mætu skemmtan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband