Orkuríkur fiðluleikur

fimmtudagskvöldið 10. maí síðastliðinn flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands 1. fiðlukonsert Sjostakovitsjs og hljómkviðu Síbelíusar nr. 2. finnski hljómsveitarstjórinn Pietari Inkinen hélt á tónsprotanum og Sigrún Eðvaldsdóttir lék einleik.

Eins og hljómkviða Síbelíusar var leiðinleg áheyrnar og á köflum allt að svæfandi, þegar hún varð einna rómantískust, var leikur Sigrúnar hrífandi. Tónninn var þéttur og túlkunin bæði orkurík og mild, þegar það átti við. Að vísu gerðist eitthvað í 2. þætti, sem undirritaður kann ekki skýringu á.

Mér hefur ævinlega þótt 2. sinfónía Síbelíusar ósamstæður ruglingur með ómstríðum köflum, sem tónskáldið virtist ekki ráða við, en þess á milli mildum tónum sem gæla við eyrað. Ég gæti ímyndað mér að líkja mætti tónverkinu við vatn, þar sem skiptust á vakir og ískrapi, sem fólk þyrfti að sullast gegnum á árabáti. Annað veifið gengur róðurinn vel, en svom þyngist hann og veldur ræðurunum næstum því uppgjöf. Ræðararnir eru áheyrendur, en hljómsveitin vatnið og stjórnandinn vindurinn, sem hreyfir til íshroðann.

Ýmsir hafa fjallað um þessa tónleika og fær sigrún Eðvaldsdóttir sums staðar slæma dóma - óverðskuldaða dóma. Fróðlegt væri að vita hvers vegna gera þurfti hlé á flutningi verksins í öðrum þætti. Ég ræddi við eiginkonu mína um að annaðhvort hljómsveitin eða Sigrún hefðu farið fram úr sér og virðist ríkarður Örn Pálsson komast að svipaðri niðurstöðu í Morgunblaðinu í dag.

Íslenskir einleikarar fá of sjaldan tækifæri til að leika með sinfóníuhljómsveit Íslands. Við eigum marga tónlistarmenn sem geta mætavel státað af álíka snilld og ýmsir, sem sækja landsmenn heim og gæða þeim á list sinni. Sú staðreynd, að söngvarar og einleikarar fá hér fá tækifæri, getur sett mark sitt á leik þeirra.

Öllum getur orðið á í messunni og er það vandi allra listamanna á öllum tímum. Ástæðurnar geta verið jafnmismargar og tónleikarnir eða listamennirner eru margir. Ekki verður velt frekar vöngum yfir því, sem gerðist, en samleikur hljómsveitar og Sigrúnar var yfirleitt frábær. Af 8. bakk fyrir miðju virtist fiðlan vera í góðu jafnvægi við hljómsveitina, svo að fátítt er að heyra á tónleikum hérlendis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband