Lagið við kvæðið Vestmannaeyjar 40 ára

Hinn 15. maí og dagurinn eftir, 16. maí 1966 eru mér minnisstæðir.

Að kvöldi þess 15. heimsóttu okkur úti í Vestmannaeyjum nokkrir sjónvarpsmenn, en þeir voru þar til þess að safna efni fyrir væntanlegt ríkissjónvarp. Sjómannadaginn bar að því sinni upp á þennan dag, 15. maí og var Ríkisútvarpið með sérstaka dagskrá um kvöldið eins og vant var. Við bræður vorum miklir áhugamenn um slíka þætti og hljóðrituðum því dagskrá útvarpsins á meðan sjónvarpsmenn luku sér af.

Daginn eftir hlustuðum við á þáttinn. Prófum var lokið og við höfðum nægan tíma. Um þetta leyti æfðum við okkur talsvert því að í bígerð var að við færum í tónleikaferð á vegum Hjálparsjóðs æskufólks að safna fé í sjóðinn. Í útvarpsþættinum, sem Karl Einarsson sá um, las Þorsteinn Ö. Stephensen kvæði Kristins Bjarnasonar, Vestmannaeyjar og hreifst ég mjög af því. Ákvað ég samstundis að semja við það lag.

Ég bjóst segulbandstæki og hélt niður í stofu. Settist ég þar við hljóðfærið og lék nokkur tilbrigði sem ég taldi henta kvæðinu. Festi ég eitt þeirra í huga mér og fór síðan upp í herbergi okkar til þess að bera saman kvæðið og lagið. Hvílík vonbrigði! Lagið gekk ekki upp! Ég fór aftur niður í stofu og hafði nú lært eitt erindi kvæðisins. Spilaði ég nú og söng hástöfum og allt í einu kom það. Enn bar ég ljóðið og lagið saman, gerði örlitlar breytingar og spilaði síðan endanlega útgáfu inn á segulband til þess að gleyma því ekki. Um þetta leyti var ég afar hrifinn af arabiskri tónlist og þess vegna ákvað ég að hafa arabiskt forspil í laginu. Ég hugsaði einnig fyrir því að gera það þannig úr garði að hægt yrði að útsetja það til kórsöngs. Við fluttum þetta lag í fyrsta sinn opinberlega á Selfossi þann 6. júní þá um sumarið og hvar sem við lékum það var því gríðarlega vel tekið. Af einhverjum ástæðum, sem ég hirði ekki um að ræða hér, var lagið hins vegar aldrei flutt í Vestmannaeyjum, a.m.k. var það aldrei sungið. Þegar útvarpsþættirnir Eyjapistill hófust fengum við Guðmund Jónsson til þess að syngja það fyrir okkur sem eins konar hvatningarsöng og Eyjapistlarnir enduðu einnig á þessu lagi rúmu ári síðar. Árið 1973 gáfum við lagið út á hljómplötu Eyjaliðsins. Síðan kom það í nýrri útsetningu á Bróðernisplötunni 1981 og árið 1985 eða 86 gaf Gísli Helgason það út á Ástarjátningarplötunnni. Síðasta útgáfa þess var gefin út árið 2002. Magnús Ingimarsson útsetti lagið fyrir blandaðan kór árið 1970 og flutti Samkór Vestmannaeyja það í Færeyjum árið 1972. Nanna Egils Björnsson lék það sem forspil við messu í Landakirkju þá um vorið og dauðlangaði mig að vera viðstaddur. Ég hafði hins vegar orðið skotinn í stelpu sem þar var um þær mundir og lagði ekki á mig ferðalag til Eyja þess vegna. Fjárhagurinn var heldur ekki upp á marga fiska og ég hafði fengið frí fyrr um vorið til þess að fara til Eyja. Þá var ég einnig í miðjum prófum. Fyrst heyrði ég lagið Vestmannaeyjar flutt af kór við jarðarför vinar míns Eyþórs Þórðarsonar árið 1998 eða 1999, en þá gerði Elías Davíðsson nýja útsetingu. Með einhverjum hætti komst lagið til Kína og varð vinsælt í flutningi barnakórs kínverska útvarpsins árið 1983 eða 1984. Fyrir nokkrum árum kom hingað kínversk hljómsveit og lék lagið á tónleikum og enn berast fréttir austan úr Kína um unga poppstjörnu, sem tekið hefur lagið upp á sína arma. Ekki tel ég þetta lag merka tónsmíð enda er hún æskuverk og ég hef aldrei komist upp úr því að vera annað en alþýðutónskáld. Er það vel. Ókosturinn við lagið er að það nær yfir mikið tónsvið og er því nokkuð erfitt til söngs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband