Svifryk, bráðnandi jöklar og sjálfbærar samgöngur

Í dag tók ég mér göngu meðfram strönd Seltjarnarness, gekk sem leið lá meðfram Suðurströnd, þvert yfir nesið og að fjörunni við Gróttu. Heitir þar ekki Snoppa?

Á meðan ég var í mestri nánd við kaupstaðinn varð ég þess óþyrmilega var hvað svifryksmengunin var mikil og var ekki laust við að ég kenndi eymsla í hálsi þegar ég kom úr þessari tveggja tíma göngu. Í fjörunni við Snoppu var indælt að vera. Þar var fuglakvak og sjávarniður og sólin vermdi vanga. Sem sagt: Eins fallegt og orðið getur á vetrardegi.

Þegar Evróvisjóninni lauk í kvöld fór ég inn á vef Ríkisútvarpsins og hlustaði á tvo liði þáttarins Vítt og breitt frá fimmtudeginum 15. þessa mánaðar. Pétur Halldórsson sá um þáttinn. Ekki hlustaði ég á sjálfan mig, enda gerðist ekki þörf heldur á afar athyglisert viðtal Péturs við Helga Björnsson jöklafræðing og samantekt hans um málþing um sjálfbærar samgöngur sem haldið var á Akureyri fyrir nokkru.

Í raun tengdist þessi umfjöllun og viðtalið við Helga. Helgi lýsti því hversu jöklar bráðni hratt haldi fram sem horfi og loftslag hlýni. Hann gerir ráð fyrir örlitlu hægari hlýnun á Norðurlöndum en svartsýnustu spár greina, en samt munu flestir jöklar landsins hverfa á næstu 200 árum.

Málþingið um sjálfbærar samgöngur snerist m.a. um kosti þess að efla hlut gangandi og hjólandi í umferðinni og auka veg almenningssamgangna. Þar var fjallað um skipulag borga og hvernig hægt væri að gera það mannvænna en tíðkast hefur á undanförnum árum á Íslandi.

Meðal annars var bent á hvernig hægt væri að breyta gjöldum af bifreiðum til þess að fjölga fremur sparneytnum bifreiðum og díselbílum.

Ég held að lítið muni gerast á þessu sviði nema Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn verði hraktir frá völdum í kosningunum í vor. Umhverfisstefna ríkisstjórnarinnar sannar þetta meðal annars samanber óraunhæf markmið um losun koltvísýrings. Það er eins og hvorugur þessara flokka treystist til að taka á umhverfismálum vegna þess að forystumenn þeirra hafa efni á að tileinka sér íburðarmikinn lífsstíl og þá skiptir engu hvaða afleiðingar hann hefur fyrir umhverfið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband