Margir fylgjast með vaxandi ugg með því hvernig reynt er að soga Ísland inn í Evrópusambandið. Morgunblaðið hefur verið jafneinarður andstæðingur EES-aðildar og það er tryggt útgerðarmönnum. Í dag birtist leiðari í blaðinu þar sem rakin er sjálfvirk afgreiðsla Alþingis á hverju því sem berst frá Evrópusambandinu. Annar ritstjóri blaðsins er gagnkunnugur þessu færibandi og veit því hvað hann syngur.
Rétt þykir að birta þennan leiðara á þessum síðum.
Lýðræðishalli leynist víða
Föstudagur, 2. nóvember 2012
Breska kosningakerfið tryggir að oftast fer einn flokkur með stjórn landins á hverju kjörtímabili. Þannig sópaði Tony Blair til sín þingsætum og var með mikinn meirihluta í neðri málstofu þingsins eftir kosningar í maí 1997. Blair hafði vissulega unnið mjög góðan sigur og jók fylgið úr um 35 prósentum í rúm 43 prósent. Hann var sem sé fjarri því að hafa náð hreinum meirihluta atkvæða. En kosningakerfið færði honum hins vegar 418 þingmenn af 659 eða um 63 prósent þingsætanna fyrir 43 prósent atkvæðanna.
Þrátt fyrir óvinsældir Gordons Browns tókst Íhaldsflokknum ekki að tryggja sér hreinan meirihluta þingsæta í síðustu kosningum og myndaði flokksleiðtoginn því samsteypustjórn með Frjálslynda flokknum. Það samkrull virðist ekki vera blessunarríkt fyrir flokkana og frjálslyndir virðast mjög særðir. Í stjórnarmyndunarviðræðum fengu þeir þó samþykkt loforð um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Bretar vildu falla frá núverandi kerfi þar sem meirihluti í hverju kjördæmi fær sinn mann og önnur atkvæði falla dauð" og taka í staðinn upp kerfi hlutfallskosninga. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni hafði hver maður eitt jafngilt atkvæði.
Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn sneru bökum saman um að verja núverandi skipan og höfðu auðveldan sigur. Þjóðin vildi áframhaldandi óréttlæti" með hreinni kostum á hverju kjörtímabili, fremur en að ýta undir samsteypustjórnir og þar með á stundum óeðlileg ítök smáflokka í landstjórninni, eins og Íslendingar þekkja vel til.
Auðvelt er að halda því fram að þetta kerfi skapi viðvarandi lýðræðishalla" en um leið er auðveldara að réttlæta hann eftir að hann hefur verið sérstaklega staðfestur með lýðræðislegum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu.
En lýðræðishallinn er víðar. Fullyrða má að lagafrumvörp, sem lögð eru fyrir íslenska þingið með þeirri forskrift úr ráðuneyti að um ees-mál" sé að ræða, fái ekki raunverulega lagasetningarmeðferð, nema að formi til. Slík mál eru fyrst lögð fyrir ríkisstjórn og fara þar í gegn umræðulítið og oftast umræðulaust. Og það er ekki aðeins að núverandi forsætisráðherra lesi þau ekki fremur en önnur frumvörp, það gerir enginn ráðherra annar. Raunar er gjarnan sagt að slík lög virðist enginn hafa lesið nema þýðandinn.
Hvernig stendur á þessu? Það er örugglega einkum vegna þess að allir þeir sem koma að málinu vita að þeir geta ekki haft nein áhrif á þessa lagasetningu. En það alvarlega er að hvergi fer fram raunveruleg könnun á því hvort lagasetningin er hverju sinni óhjákvæmileg nauðsyn vegna EES-samningsins. Og nú þegar samningaviðræður" standa yfir um aðild að ESB hefur ástandið versnað um allan helming.
Allir vita að engar raunverulegar samningaviðræður fara fram. Óheiðarlegir stjórnmálamenn og óheiðarlegir eða meðvirkir embættismenn og svokallaðir samningamenn" Íslands lúta hverri kröfu embættismanna ESB um aðlögun og hún er send í gegnum þingið á færibandi þess undir þeirri forskrift að aðeins sé um ees-mál" að ræða. Meira að segja þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki skorist úr þessum ljóta leik. Engin lýðræðisleg skoðun á sér stað. Enginn veltir fyrir sér hvort breytingarnar séu hollar íslenskum hagsmunum.
Sjálfsagt hefur meirihluti núverandi þingmanna enga burði til að leggja sjálfstætt mat á framangreinda hluti. En að auki er við ofurefli að etja og til lítils að lyfta litla fingri.
En svo aftur sé horft til Bretlands þá varð þar töluverður þinglegur atburður í vikunni. Samsteypustjórnin varð undir í máli sem varðaði fjárframlög til Evrópusambandsins. Forsætisráðherrann hefur þóst góður að orða það viðhorf að hann vilji vera á móti því að útgjöld sambandsins hækki á næstunni meir en sem nemur hækkun verðbólgunnar á svæðinu. En útgjöld ESB hafa þanist út á margföldum hraða hennar síðustu árin. En mörgum þingmönnum, þar á meðal óþægum" þingmönnum Íhaldsflokksins, þótti betur fara á því að útgjöld ESB hækkuðu minna en verðlag á þeim tíma sem sambandið er sérstaklega herskátt að herja á útgjöld í aðildarlöndunum.
Verkamannaflokkurinn, sem hefur verið mjög hallur undir ESB, en ekki þó beinlínis í bandi þess eins og Frjálslyndi flokkurinn, sá sér leik á borði. Hann studdi þá óþægu og ríkisstjórnin varð undir í atkvæðagreiðslu í fyrsta sinn á kjörtímabilinu. Það þótti niðurlæging fyrir forsætisráðherrann. En þá er bent á að forsætisráðherrann sé alls ekki bundinn af niðurstöðu þingsins í þessu máli! Hann geti gegn vilja breska þingsins samþykkt á leiðtogafundi að auka útgjöld ESB, sem sendir stóran hluta þess reiknings til breskra skattborgara. Það er eitt dæmi af mörgum um hvernig ESB-aðild hefur smám saman plokkað fullveldi af þjóðum, án þess að þær hafi gert sér grein fyrir hvernig komið væri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 2.11.2012 | 17:38 | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 319699
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.