Rafbækur opna nýjar víddir

 

Þegar Bókatíðendum er flett kemur í ljós að útgáfa rafbóka hefur aukist og koma nú mun fleiri rafbækur út en í fyrra. Allmargar þeirra eru endurútgefnar bækur og er það vel.

Ýmsar leiðir er hægt að fara til þess að lesa rafbækur. Margir velja sér rafbókalesara, en aðrir nota tölvurnar. Hlynur Már Hreinsson vakti athygli á viðbót við Firefox-vefskoðarann, sem nefnist Epubreader. Forritið er sáraeinfalt og dugar til að lesa flestar rafbækur. Það er þó vart sambærilegt við forrit eins og Digital Editions frá Adobe eða EasyReader frá Dolphin Computer Access, sem er sérhannað handa blindum eða sjónskertum lesendum. En Epub-lesarinn á Mozilla er þjáll í notkun og full ástæða til að benda fólki á hann.

 

Frágangur rafbóka

 

Að undanförnu hef ég keypt rafbækur frá Skinnu og Emmu og hafa þær allar verið aðgengilegar þeim tækjum og tólum sem ég nota. Ég hef þó orðið var við að frágangur rafbókanna er mjög misjafn. Nokkrar skáldsögur hef ég keypt eða halað niður þeim sem eru ókeypis. flestar eru vel frá gengnar, auðvelt að blaða í þeim, fletta á milli kafla, greinaskila o.s.frv.

 

Enn er lítið til af hand- og fræðibókum sem gefnar hafa verið út sem rafbækur á íslensku. Lýðræðissetrið virðist einna athafnasamast á þessum vettvangi, en það hefur gefið út 5 rit: Lýðræði með raðvali og sjóðvali á fjölda tungumála, Bókmenntasögur, Hjáríki, Þróun þjóðfélagsins og Sjálfstæði Íslands. Þessar bækur eru allar eftir Björn S. Stefánsson, sem stendur fyrir Lýðræðissetrinu. Það er þeim sammerkt að þær eru vel upp settar og firna vel frá þeim gengið. Frágangur hefur verið í höndum fyrirtækisins Tvístirnis.

 

Eina rafbók, ævisögu þekkts stjórnmála- og fræðimanns keypti ég um daginn. Hún er skemmtileg aflestrar. Nokkuð vantar þó á að hún sé skipulega uppbyggð sem rafbók og virðist ókleift að nota hefðbundnar rafbókaaðferðir til þess að fletta bókinni.

Vafalaust er hér um barnasjúkdóma rafbókanna að ræða. En fyrirtæki eins og http://www.skinna.is/ þarf að leggjametnað sinn í að bækur, sem teknar eru til sölu, standist kröfur sem gerðar eru um gæði og uppbyggingu rafbóka.

 

Nýr heimur

 

Þegar blaðað er í Bókatíðindum verður ljóst að úrval rafbóka er orðið svo mikið hér á landi að það opnar ýmsum, sem geta ekki nýtt sér prentað letur, nýjan heim. Vænta má þess að fræðimenn sjái sér aukinn hag í að gefa út rit sín með þessum hætti. Má nefna sem dæmi eina af fáum fræðibókum, sem komið hafa út að undanförnu, en það er bókin Dr. Valtýr Guðmundsson, ævisaga. Þótt umbroti bókarinnar sem rafbókar sé nokkuð ábótavant er þó mikill fengur að henni. Á höfundurinn, Jón Þ. Þór, sagnfræðingur, heiður skilinn fyrir framtakið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband