Bæta þarf íslensk smáforrit fyrir snjallsíma

Á þessum síðum hefur komið fram að flest íslensk smáforrit fyrir Android-síma og spjaldtölvur séu óaðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Er því sjálfsagt um að kenna að ekki hefur verið vakin athygli á nauðsyn þess að gætt sé að þessum þætti við hönnun forrita.
Á bak við smíði flestra smáforrita, sem er að finna á íslensku, er fyrirtækið Stokkur í Hafnarfirði. Hér er enn eitt málið á ferðinni sem Blindrafélagið og fleir þurfa að sinna.
Í kvöld ritaði ég þeim Stokksmönnum eftirfarandi bréf:

Ágætu Stokkverjar.

Ég hef að undanförnu nýtt mér snjallsíma með Android-4.1.2 stýrikerfi. Nota ég einkum aðgengislausn sem nýtir Talkback-aðgengisviðmótið sem fylgir Android-símum.

Ég hef prófað nokkur íslensk smáforrit fyrir snjallsíma. Þau virðast flest þeim annmörkum háð að ekki hefur verið gert ráð fyrir að þeir, sem nýta talgervil og aðgengislausnir frá Android, geti nýtt þau.

Miklar framfari hafa orðið á vefaðgengi blindra og sjónskertra hér á landi og víða erlendis er nú unnið hörðum höndum við að gera Android-kerfið aðgengilegt, enda er gert ráð fyrir því við hönnun stýrikerfisins.
Sjá m.a.
http://developer.android.com/guide/topics/ui/accessibility/apps.html
Ýmislegt, sem ég hef heyrt um Stokk, bendir til að þið séuð afar hugmyndaríkir og snilldar forritarar. En getur verið að aðgengisþátturinn hafi farið framhjá ykkur? Í raun og veru ætti að hanna öll forrit þannig að aðgengi sé virt. Með því að sniðganga aðgengið eru lagðir ótrúlegir steinar í götu þeirra sem þurfa á því að halda að tæknin sé aðgengileg.

Mig langar að nefna þrjú dæmi um óaðgengileg forrit:

Strætóappið er algerlega óaðgengilegt þeim sem nota talgervil í símanum.

Forritið Leggja er einnig óaðgengilegt. Þar eru hnappar sem ekki eru með textalýsingu.

Þá er Veður að mestu aðgengilegt, en það hefur þann annmarka að forritið virðist ævinlega undirliggjandi þegar það er notað með Talkback og þvinga þarf fram stöðvun þess.

Ég bendi ykkur m.a. á hópinn Blindratækni á Facebook, en þar hefur farið fram nokkur umræða um notkun snjallsíma að undanförnu. Nú standa málin þannig að aðgengisforritið Mobile Accessibility hefur verið þýtt á íslensku og má búast við að blindum og sjónskertum snjallsímanotendum fjölgi að mun á næstunni. Þá er einnig í bígerð að þýða annað forrit svipaðs eðlis, Equaleyes, til þess að gefa fólki völ á fleiri lausnum.

Gangi ykkur vel í störfum ykkar.
Bestu kveðjur,

Arnþór Helgason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband