Áframhaldandi atvinnuleit

Ég dunda mér enn við að sækja um störf enda verð ég að gera atvinnuráðgjafa vinnumiðlunar Vinnumálastofnunar grein fyrir leit minni að atvinnu við hæfi.

Fyrir rúmum mánuði sótti ég um hálft starf hjá samtökum nokkrum. Um var að ræða starf alþjóðafulltrúa á sviði sem ég hef allgóða þekkingu á. Samtímis auglýstu samtökin eftir starfsmanni í nýja stöðu foreldraráðgjafa. Niðurstaðan varð sú að kona nokkur var ráðin í bæði störfin, en hún hefur það sér til ágætis að hafa starfað fyrir alþjóðlegt olíufélag erlendis. Þótt hún hafi tengsl við málaflokkinn, sem ég tel mig þekkja, hefur hún aldrei unnið að þessum málum sem dæmið snýst um. Þetta urðu mér talsverð vonbrigði.

Um daginn sótti ég um starf í þjónustuveri fyrirtækis sem sér um símaþjónustu, en slík störf hefur margt, blint fólk um allan heim stundað. Ég held þó að enginn vinni við þetta hér á landi úr þessum hópi um stundarsakir. Neitunin frá fyrirtækinu var ekki uppörvandi. Fyrirtækið treysti sér ekki að ráða mig að svo stöddu til starfa. Hvað skyldi valda?

Í dag hef ég enn sótt um tvö störf sem ég tel mig ráða sæmilega vel við og verður fróðlegt að sjá hvað út úr þessum umsóknum kemur. Ég hef nú verið atvinnulaus á 14. mánuð og verður þetta að teljast hin fróðlegasta reynsla. En vonin deyr aldrei. Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga! Og daginn lengir óðum! Hafið þið ekki tekið eftir því!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband