Hagnaðist einungis um 380 milljónir. Hvernig verða þær nýttar?

Fyrir skömmu keypti Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, nokkur hlutabréf í bankanum á hagstæðu gengi, sem hann hafði samið um í svo nefndum kaupréttarsamningi. Í morgun vakti þessi frétt í Morgunblaðinu athygli mína:

Hagnaðist um 380 milljónir

Ranghermt var í fyrirsögn á viðskiptasíðu blaðsins í gær að Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, hefði hagnast um 420 milljónir króna á hlutabréfakaupum sínum í bankanum. Fram kom í fréttinni sjálfri að söluhagnaðurinn hefði verið 380 milljónir. Þá var misritað í fréttinni að Bjarni hefði upphaflega keypt bréfin á 4,15 milljónir, þar átti að standa 42,15 milljónir. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

Það er leitt að hagnaður Bjarna skuli einungis nema 380 milljónum króna. Í raun er málum þannig varið að vegna aðstöðu sinnar sem einn af eigendum Glitnis og forstjóri, hefur hann vart þurft að leggja eyris virði út fyrir hlutabréfunum. Um leið og hann keypti þau seldi hann bankanum þau aftur á tíföldu gengi.

Í Bandaríkjunum eru nú uppi miklar vangaveltur um réttmæti svokallaðra kaupréttarsamninga og þessi frétt Morgunblaðsins afhjúpar það siðleysi sem hér liggur á bakvið. Í raun sé ég ekki, hvernig sem ég velti því fyrir mér og hversu hlýtt sem mér er til Bjarna Ármannssonar og Glitnis, að hér sé um annað en þjófnað að ræða.

Bjarni Ármannsson væri maður að meiri ef hann gæfi allan þennan hagnað, að frádregnum fjármagnsskatti, til líknarmála. Hér eru nokkrar tillögur:

Þjónustumiðstöð blindra og sjónskertra. Blindrafélagið hefur af veikum mætti barist fyrir stofnun hennar en litlar undirtektir fengið hjá stjórnmálaflokkum.

Væntanlegur stjórnmálaflokkur aldraðra og öryrkja. Flokkinn vantar tilfinnanlega fjármagn til þess að geta hafið starfsemi sína, ef samstaða næst á meðal aldaðra á fundinum sem verður haldinn á Grand hóteli í Reykjavík kl. 14 á sunnudag, en engin ástæða er að ætla annað en slík samstaða náist.

Stofnun atvinnuþróunarverkefna fyrir fatlað fólk til þess að auðvelda því störf á almennum vinnumarkaði.

Glitnir hefur haft frumkvæði að því að gera heimasíður bankanna aðgengilegar. Bjarni Ármannsson er nú í aðstöðu til þess að verja umtalsverðum fjármunum til margvíslegra velferðarmála og reisa sér þannig óbrotgjarnan bautastein. Þá munu men e.t.v. gleyma því hvernig hann eignaðist þessar 380 milljónir króna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband