Hvers eiga framsóknarmenn að gjalda!

Í kvöld birti Ríkisútvarpið úrslit könnunar um fylgi flokkanna í Reykjavík. Kemur þar fram að fylgi Framsóknarflokksins skríður heldur upp á við og gæti fyrsti maður Framsóknar orðið 8. manni Sjálfstæðisflokksins skeinuhættur.

Að undanförnu hefur farið heldur lítið fyrir fylgi Framsóknarflokksins og svo hefur verið í undanfaranum að næstliðnum Alþingis- og sveitarstjórnakosningum. Á síðustu stundu hefur þó fylgið hysjast upp á við og nægt til þess að flokkurinn færi ekki þær hrakfarir sem sumum þykir hann eiga skildar. Í raun er það slæmt því að fáir smáflokkar þurfa jafnmikið aðhald frá kjósendum og Framsóknarflokkurinn.

Flokkurinn hefur haft heilbrigðis- og tryggingamálin á sinni könnu undanfarin 11 ár. Hann fullkomnaði það verk sem í raun var hafið á dögum Viðeyjarstjórnarinnar að eyðileggja íslenska almannatryggingakerfið. Þegar flokkurinn komst í tryggingaráðuneytið eftir fjögurra ára hlé var slitið á tengsl launahækkana og hækkana tryggingabóta og nokkur ár liðu þangað til slík tengsl voru tekin upp að nýju. Á þessum árum drógust öryrkjar og aldraðir Íslendingar aftur úr launafólki í þessu landi. Fiktað var meira í lyfja- og lækniskostnaði almennings en dæmi voru til og lyfjakostnaður lífeyrisþega jókst frá því sem áður var. Á sínum tíma varaði Öryrkjabandalagið Sighvat Björgvinsson við afleiðingum aukins lyfjakostnaðar a.m.k. fyrir geðsjúklinga og var að hluta til tekið mark á þeim aðvörunum.

Bifreiðastyrkjum til hreyfihamlaðra fækkaði á þessu tímabili og raungildi þeirra lækkaði einnig. Það hefur enn ekki fengist leiðrétt. Fyrir tveimur árum laumaði ráðherra Framsóknarflokksins inn breytingu á reglugerð um bifreiðastyrki sem varð enn til þess að rýra kjör hreyfihamlaðra og var ekkert samráð haft við samtök fatlaðra áður en sú ákvörðun var tekin. Þá hefur sami ráðherra aukið hlutdeild sjúklinga í sjúkraþjálfun og engu skeytt um rökstudd mótmæli.

Þá hefur almannatryggingakerfið orðið fjandsamlegt því fatlaða fólki sem vill hasla sér völl á atinnumarkaði. Atvinnuveitendur verða að greiða hjálpartæki handa fólki sem þeir vilja ráða til starfa. Menn taki eftir því að ég ræði hér um kerfi almannatrygginga en ekki lögin. Lögin eru þannig orðuð, t.d. 33. gr., að hægt er að bæta úr slíkum annmörkum með einfaldri reglugerðarbreytingu. Framsóknarflokkurinn hefur ekki borið gæfu til þess að hrinda slíkri breytingu í framkvæmd. Hvort ætla lífeyrisþegar í Reykjavík að láta flokkinn njóta þess eða gjalda?

Þá eru ótalin svikin við Öryrkjabandalagið í aðdraganda Alþingiskosninganna árið 2003 og sú makalausa lagasetning um aldurstengda örorkuuppbót sem fylgdi í kjölfarið. Þar eru öryrkjar sviptir allt að helmingi grunnlífeyris síns þegar þeir verða 67 ára gamlir. Ráðherra var undir eins bent á þessa mismun, en fólk heldur áfram að vera fatlað þótt það eldist. Framsóknarflokkurinn bar ekki gæfu til þess að bæta úr þessu. Ég þykist viss um að hugur Framsóknarráðherranna stóð til að standa við samkomulagið í upphafi, en vandinn hefur sennilega verið sá að þeir sögðu ekki allan sannleikann í ríkisstjórninni um kostnaðinn við framkvæmd þess. Nei, það var talið betra að ganga á bak orða sinna og segja jafnvel ósatt á Alþingi.

fyrsta skrefið til þess að minna Framsóknarflokkinn á skuldir þær sem hann á almenningi að gjalda er að kjósendur minnist afreka hans í ríkisstjórn og greiði honum ekki atkvæði á laugardag. Framsóknarflokkurinn þarf að fá þá lexíu í Reykjavík sem hann skilur og snúi menn sér fremur að Samfylkingu eða Vinstri grænum. Frjálslyndi flokkurinn er ekki heldur svo afleitur kostur en með hliðsjón af því að vinstri flokkarnir haldi borginni en þó væntanlega með tilstyrk Frjálslynda flokksins þurfa þeir, sem hætta við að kjósa Framsókn, væntanlega að veðja á annan hvorn vinstriflokkanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband