Freedom Box - Frelsiskassinn bætir aðgengi blindra og sjónskertra að uplýsingum

Öðru hverju berast okkur greinar um margvíslegar nýjungar í tölvumálum blindra. Í gær rakst ég á grein um Freedom Box (frelsiskassa) í rafritinu AFB Access World sem gerir blindu fólki kleift að vinna með pc-tölvum. Tekið er fram í auglýsingum framleiðanda að frelsiskassinn marki byltingu í tölvumálum blindra. Má það til sanns vegar færa einkum fyrir byrjendur. Við nánari yfirsýn er þó ekki hægt að bera Frelsiskassann saman við hefðbundna skjálesara sem gera blindu fólki kleift að vinna við ólíkan hugbúnað frá mismunandi framleiðendum.

Ég hef nú rennt yfir greinina um Freedom Box sem er á margan hátt yndislegt fyrirbæri. Hér að neðan er aðeins fjallað um það helsta:

Freedom box (Frelsiskassinn) er fyrst og fremst hugsaður sem aðgangur að upplýsingum. Í fyrstu útgáfum Frelsiskassans var gert ráð fyrir aðgengi að margvíslegum upplýsingum svo sem margs konar afþreyingu, fræðslu, rafbókum, kvikmyndum með lesnum lýsingum, efnisveitum frá flestum löndum heims o.s.frv. Kerfið vinnur m.a. þannig að fólk getur sett upp ýmiss konar stillingar sem henta hverjum og einum. Hægt er að hlusta á yfir 2000 rafbækur, aðgangur er að orðasöfnum, Biblíunni og fleiri uppsláttarritum og menn geta sett inn bókarmerki þar sem þeir hætta að hlusta. Þegar næst er sest við tölvuna geta menn síðan haldið áfram þar sem hætt var.

Hægt er að fá hugbúnaðinn settan í tölvuna eða nota minnislykil til þess að setja upp hugbúnaðinn. Ekki þarf að gera neinar ráðstafanir til uppsetningar. Hann tengir sig sjálfur um leið og kubbnum er stungið í USB-gátt vélarinnar og þess vegna er hægt að nota hugbúnaðinn við hvaða pc-vél sem er. Með Frelsiskassanum fylgja nokkrir enskir talgervlar og er sérstaklega tekið fram að þeir séu mjög skýrmæltir.

Sem skjálesari er Freedom Box ekki sambærilegur við Jaws og Dolphin hugbúnaðinn, en samt veitir Freedom Box aðgang að forritum eins og Microsoft Word, Outlook, Exel og Powerpoint. Greinarhöfundur tekur fram að stundum hafi hugbúnaðurinn frosið og endurræst tölvuna. Tekið er fram að þessi hugbúnaður sé í stöðugri þróun. Það vakti sérstaka athygli greinarhöfundar hversu auðvelt var að fylla út ýmis eyðublöð svo sem hótelpantanir o.fl með notkun þessa hugbúnaðar. Að lokum skal tekið fram að ég hef fengið staðfest að Freedom box vinnur með flestum talgervlum sem eru á markaðinum og þar með ætti að vera hægt að ferðast um íslenskar heimasíður. Því ætti að vera hægt að hlusta á íslenskar rafbækur. Gallinn er hins vegar sá að þær eru ekki á netinu enn sem komið er.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þessa grein nánar er bent á krækjuna

http://www.afb.org/aw/main.asp


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband