Tæknin leyfir brátt samband við látna vini og vandamenn!

Ekki veit ég hvort þessi pistill á heima í þessum flokki, en vissulega fjallar hann um samfélagsmál, jafnvel alþjóðastjórnmál.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur verið mér mikil uppspretta fróðleiks og skemmtunar í fjóra áratugi eða jafnvel lengur. Áður en ég skildi ensku að ráði hlustaði ég gjarnan á útsendingar þess til Mið-Austurlanda og hreifst mjög af þeirri tónlist sem útvarpað var. Skilyrði í Vestmannaeyjum til þess að hlusta á miðbylgju og stuttbylgjur voru ákjósanleg og get ég hiklaust haldið því fram að þessi útvarpshlustun hafi valdið straumhvörfum í lífi mínu. Nú virðist óðum líða að því að stuttbylgjuútsendingar í núverandi mynd heyri brátt sögunni til. Stöðugt fækkar þeim útvarpsstöðvum sem senda út á þessu tíðnisviði.

Í gærkvöld hlustaði ég á athyglisverðan þátt, sem kallast menningaráfall. Var þar rætt um ýmislegt sem snertir himingeiminn og samband við vitsmunaverur á öðrum hnöttum. Þar hélt maður nokkur því fram að innan nokkura áratuga ætti að vera hægt að beita gervigreind tölvu til þess að menn geti haft samband við látna vini og frændur svo fremi sem nægilega margar hljóðritanir af samtölum við hina látnu væru til. Þá væri hægt að beita gervigreindinni til þess að fá ásættanleg svör frá hinum látnu við ýmsum spurningum sem að þeim kynni að verða beint.

Í þessum sama þætti var greint frá starfsemi bandarísks fyrirtækis sem tekur að sér að senda skilaboð frá fólki út í himingeiminn í þeirri von að þeim verði einhvern tíma svarað.

Einn maður skaut þó skökku við og varaði jarðarbúa við að veita of miklar upplýsingar um sig. Hann hélt því fram að þegar að því kæmi að við næðum sambandi við vitsmunaverur á fjarlægum tilvistarsviðum mættum við ekki skerða samningsstöðu okkar með því að láta í té endurgjaldslausar upplýsingar um jarðarkringluna. Slík samskipti hlytu að felast m.a. í því að skiptast á upplýsingum um aðstæður okkar og hinna vitsmunaveranna. Ef einhver árangur ætti að nást í slíkum samningum yrðum við að hafa eitthvað til að láta af hendi í stað þess sem okkur langar að vita.

Ekki þori ég að segja að öll sé vitleysan eins. Þróunin er svo hröð að vitneskjan, sem við bjuggum yfir í gær, verður orðin úrelt á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Æ veistu, ég er alveg sátt að bíða þangað til ég dett yfir líka og sjá þá bara hvernig þetta er, reyni bara að vera á tánum alla daga að hafa góð samskipti við alla sem eru mér kærir, svo ég geti beðið, eða þeir, eftir að hittast aftur hinum megin

Ásdís Sigurðardóttir, 20.3.2007 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband