Velkomin, Íslandshreyfing!

Þá er Íslandshreyfingin %u2013 lifandi land komin á koppinn. Að henni stendur hugsjónafólk. Sagt er að hún sé hægra megin við miðju, leggi áherslu á að skattakerfið þjóni þeim sem minnst mega sín og vilji jafnframt auðvelda fyrirtækjarekstur hér á landi. Þetta gladdi mitt miðaldra hjarta.

Það er ekkert sjálfgefið að velferðarmál þurfi að tilheyra vinstri flokkunum. Öflugt velferðarkerfi og hagstætt umhverfi fyrirtækja ætti að geta farið saman ef vilji er fyrir hendi. Þess vegna þykir mér þetta fýsilegur kostur.

Ég varð hins vegar ekki eins glaður að heyra í þeim Hannesi Þ. Sigurðssyni og Gylfa Arnbjörnssyni að ræða endurhæfingu fatlaðra og aukna þátttöku þeirra á vinnumarkaði. Endurhæfing er lykilatriði, sagði Gylfi.

Ég hef áður skrifað um það hér á þessari síðu að hópur vel menntaðs, fatlaðs fólks, gangi hér um atvinnulaus og fái ekki vinnu við sitt hæfi. Þetta fólk þarf ekki á endurhæfingu að halda. Atvinnurekendur vilja það ekki í vinnu og heldur ekki samtök fatlaðra. Það er því miður ljótur blettur á nokkrum samtökum fatlaðra að þau kæra sig ekki um fatlað fólk, a.m.k. ekki til ábyrgðarstarfa og það getur hvergi leitað réttar síns ef á því er brotið. Hvernig er þá hægt að hugsa sér að atvinnurekendur og hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi?

Það er leitt að skrifa svona geðvonskupistil, en því miður er þetta sannleikur og sannleikanum verða sumir sárreiðastir.

Það vantar ákvæði í íslenska löggjöf sem tryggir að ekki sé hægt að hrekja fólk úr vinnu vegna uppdiktaðra ástæðna. Það þarf að styrkja rétt fatlaðra til jafns við konur og jafnvel taka upp ívilnandi lagaákvæði um rétt fatlaðs fólks til atvinnu á almennum markaði á meðan verið er að laga ástandið.

Atvinnuveitendur hafa barist gegn því að ákvæði um bann gegn mismunun, m.a. vegna kynferðis, uppruna og fötlunar, verði tekin upp í íslenska löggjöf. Á meðan þessi afstaða þeirra er enn fyrir hendi og ríkisstjórnin gengur erinda

þeirra trúi ég ekki orðið af því sem þeir segja um þörfina fyrir endurhæfingu.

Ég ítreka það, sem segir í pistli á þessari síðu, að tillögur þær, sem nú liggja fyrir um breytingu á örorkumati o.fl. þurfa alvarlegrar athugunar við og gætu orðið hrein atlaga að kjörum öryrkja.

Kannski að nýi flokkurinn vilji ganga í lið með mér eða ég í lið með honum og breyta þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband