Morgunpóstur Kjarnans í dag hefst svo:
Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra og seðlabankastjóri skrifaði svakalegt Reykjavíkurbréf í sunnudagsmoggann. Þar hafnar hann að bankarnir hafi verið einkavinavæddi, og lög hafi verið brotin þegar fyrrverandi ríkisstjórn nánast gaf Arion banka og Íslandsbanka erlendum kröfuhöfum.
Sé þetta rétt ályktað hjá pistilshöfundi Kjarnans skautar Davíð yfir ýmislegt sem tengist sölu bankanna í upphafi síðustu aldar, t.d. verðið og hvernig var lánað fyrir því í stað þess að erlendur gjaldeyrir yrði fluttur inn í landið. Leitt er í ljós hver inn raunverulegi einkavinur er sem er í sjálfu sér prýðilegt, enda um prýðis einstakling að ræða. En Davíð hefði sjálfsagt fengið meira pláss í Morgunblaði til þessa ævisöguágrips, sé það eftir hann, og þá hefði sitthvað fleira skýrst.
Það er sorglegt að Morgunblaðið sé orðið vettvangur manns sem virðist nærast á heift og langrækni í garð þeirra sem hann telur sig eiga sitthvað sökótt við. En þar sem ekki eru allir lesendur þessa bloggs áskrifendur að Morgunblaðinu þykir rétt að birta Reykjavíkurbréfið hér í heild.
Sögusmettum verður bumbult af sögunni þegar hún birtir lokaorðið
Viðskiptaráð veraldarinnar, framkvæmda- og athafnamenn eru vísast eins misjafnlega innréttaðir gagnvart trú og heimspeki eins og hitt fólkið í mannheimi og pólitísk binding hugans er sjálfsagt almennt ólík fyrir utan þann þátt sem snýr að frelsi í viðskiptum og almennu umhverfi þess.
Von vaknar
Það er þó sitt hvað sem einkennir þá í augum annarra, og eigin mati á sjálfum sér. Það er vonin um að fá eðlilegt svigrúm til að láta til sín taka, án fyrirmæla eða óeðlilegra hindana að ofan. Taka má Ísland sem dæmi. Það var mjög síðbúinn vettvangur frjálsra viðskipta og sat einmitt á sama tíma aftast á meri lífskjaranna. Um næstseinustu aldamót voru engin jarðgöng á Íslandi. En náttúran hafði gefið okkur forsmekkinn. Menn þekktu Víðgelmi og Surtshelli og því þekktu þeir tilfinninguna sem fylgir því að feta hrjúfa brautina í myrkri og sjá loks glitta í ljós. Þegar barátta Jóns Sigurðssonar og annarra í sömu erindum fór seint og um síðir að bera árangur gerðist einmitt þetta. Eftir barning í myrkri og þraut glitti í von um að betri tíð kynni að vera í vændum eftir allar þessar vondu og vonlitlu aldir. Ráðgjafaþing í Reykjavík, heimastjórn og loks fullveldi voru hraðfara risaskref, sé borið saman við aldalangt vonleysið. Það var eitthvað stórkostlegt að gerast.
En í augum nútímafólks, sem horfir um öxl, virðist þetta hafa verið agnarsmár árangur og varla farið fetið. En mestu varðaði að ferðin inn í framtíðina var hafin.
Heimatilbúnar meinlokur töfðu
Lítill markaður og veikluð kaupgeta alls almennings einkenndu fyrri hluta síðustu aldar. Þó fór þeim smám saman fjölgandi sem höfðu raunverulegar launatekjur, sem var undantekning í gamla íslenska bændasamfélaginu, ef embættismenn og prestar eru taldir frá.
Höft, í fjölbreyttari mynd en þau sem nú eru mest umtöluð, og pólitísk forsjá, oft í smáu sem stóru, einkenndu fyrstu 60 ár aldarinnar og takmörkuðu hreyfanleika þess fjár sem sem óx með skútuöld og auknum viðskiptum. Og þessa gætti enn þótt með bresku og bandarísku hernámi 1940-1945 hafi vellaunuðum störfum fjölgað mjög og digrir sjóðir myndast í erlendum gjaldeyri með almennum viðskiptum við bandamannaþjóðirnar.
En landið, svo fagurt og unaðslegt sem það var og er, naut sín ekki til fulls. Eftir heil 1000 ár var það enn um margt eins og ónumið væri.
Það hamlaði vexti margra atvinnugreina. Landið var nánast ófært fyrir almenna umferð lungann af öldinni, ef miðað er við það sem nú er. Ferðaþjónusta fór því hægt af stað. Nú spretta hótel upp eins og gorkúlur og mætti fara að með meiri gát. En lengi var það haft í flimtingum að ekkert hótel gæti borið sig fyrr en það hefði farið myndarlega á höfuðið fjórum sinnum, svo að allur stofnkostnaður, sem aðallega var fenginn úr opinberum sjóðum, hefði verið afskrifaður. En jafnvel þau hótel, sem farið höfðu samviskusamlega alla tilskilda kollhnísa, fóru samt á hausinn, því íslenska ferðaárið stóð aðeins í fáeinar vikur.
Það eina sem mátti sín
Enginn gat gert neitt stórt á Íslandi á þeirri tíð nema hið opinbera. Það, sem annars staðar var í höndum einkaaðila, var hér á landi í höndum ríkisins eða sveitarfélaga. Annaðhvort vegna þess að enginn hafði bolmagn til eins eða neins og lánsfé lá ekki á lausu eða að stjórnmálaleg þráhyggja sá svo um. Það kom mörgum á óvart að einkavæðing Bæjarútgerðar í Reykjavík skyldi lukkast svo vel sem hún gerði og verða borgarsjóði svona hagstæð.
Ýmsum hentar að láta eins og einkavæðing banka í landinu hafi verið neikvætt skref, jafnvel óháð því hvernig mönnum þótti slík einkavæðing hafa tekist.
En góðu ríkisbankarnir, sem sumir halda að þeir eigi að sakna eftir alla ruglingslegu umræðuna um það mál, voru ekki mjög burðugir.
Snemma á 10. áratug síðustu aldar varð þáverandi ríkisstjórn og seðlabanki að bregðast fljótt við til að koma í veg fyrir að sjálfur Landsbanki Íslands kæmist í þrot. Ríkissjóður og Seðlabankinn lögðu fram fé og ábyrgðust víkjandi lán fyrir bankann. Það er undra stutt síðan. Eitt það eftirtektarverðasta við þennan atburð nú er hve lág fjárhæðin var sem um var að tefla og þurfti til að koma mætti í veg fyrir að stærsti banki landsins færi á hliðina.
Án þess að fletta því upp til staðfestingar má af sæmilegu öryggi nefna töluna fjóra milljarða króna. Helmingur aðstoðarinnar kom sem bein fjárhagsaðstoð og hitt var tryggt með víkjandi lánsábyrgð.
Landsbankinn greiddi síðar féð til baka og engar ábyrgðir lentu á ríkissjóði.
Allt fram undir seinasta hluta aldarinnar gátu fyrirtæki ekki fengið nýtanlegar upphæðir að láni til fjárfestinga án þess að nefnd um langtímalán færi yfir slíkar beiðnir og viðskiptaráðherra samþykkti persónulega einstök lán. Hafði ráðherra mjög frjálsar hendur um mat sitt og ákvörðun.
Þegar fyrirtæki stækkuðu, svo sem Flugleiðir eða Eimskip, fengu þau leyfi til að vera með meginviðskipti sín við erlenda banka, því íslenska bankakerfið var ófært um að veita þeim þá þjónustu sem var óhjákvæmileg stærri fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni.
Mýturnar mygla ein af annarri
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hótaði því sýknt og heilagt að láta rannsaka einkavæðingu bankanna.
(Sú einkavæðing hefur gjarnan verið í sniðugheitum kölluð einkavinavæðing, sem er óneitanlega dálítið snjallt, enda kom hinn orðhagi rithöfundur og raunar fjöllistamaður, Ingólfur Margeirsson, fyrstur fram með það orð.
Þeir sem keyptu eða komust yfir þrjá stærstu íslensku bankanna voru auðvitað einkavinir þáverandi forsætisráðherra. Forstjóri banka Kaupþings í London segir frá því í bók, að þegar æðstu yfirmenn Kaupþings fengu þær fréttir að sá forsætisráðherra væri loks að hætta þá hafi þeir slegið upp gleðskap og dregið tappa úr eðalvínum. Einkavinur forsætisráðherrans númer 2, Jón Ásgeir Jóhannesson, réð yfir Glitni og skuldaði stjarnfræðilegar upphæðir í íslensku bankakerfi og eru ekki til dæmi um slíkar skuldir eins manns í nokkru bankakerfi í veröldinni.
Einkavinur númer 3 var Björgólfur Guðmundsson, sem fjármagnaði Albert Guðmundsson í baráttu hans gegn Davíð Oddssyni í prófkjöri um borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins vegna kosninga 1982.
Eini einkavinurinn með réttu var Kjartan Gunnarsson, sem mun hafa átt nærri 1% í Landsbankanum áður en yfir lauk. Þessar staðreyndir breyta raunar engu um að orðssmíðin er prýðileg og þessar staðreyndir breyta heldur engu um dellu fullyrðingar. Hinir óforbetranlegu halda sínu striki hversu skakkt sem það er.)
Á nýlegri ráðstefnu í Háskóla Íslands upplýstu fræðimenn, án andmæla, að ekki fyndist fótur fyrir tveimur vinsælum mýtum. Önnur var um ummæli þáverandi seðlabankastjóra í Kastljósi, daginn eftir að neyðarlög voru sett.
Spekingar í Samfylkingu, vefvitringar og lítt hæfir launaðir erindrekar sjálfs Ríkisútvarpsins, innanlands sem utan, höfðu lengi haldið því fram að forkastanleg ummæli þáverandi seðlabankastjóra um að íslenska þjóðin ætti ekki að axla skuldir óreiðumanna væri ástæðan fyrir óverjandi viðbrögðum Gordons Browns, en ekki yfirgengileg vanstilling hans sjálfs og neyðarlögin frá deginum áður.
Allar voru þær fullyrðingar auðvitað tilhæfulausar að mati fræðimannanna, svo sem raunar allir með gripsvit hafa lengi vitað.
Horfnar hótanir
Íslensku bankarnir fóru illa haustið 2008 eins og þúsundir erlendra banka. Sumum hinna erlendu tókst að bjarga. Fá lönd, sem í erfiðleikunum lentu, reyndu að bjarga öllum sínum bönkum.
Dæmin eru kunn frá Danmörku og Bandaríkjunum. Stærsti banki Danmerkur, Danske Bank, riðaði til falls. Það kom öllum í opna skjöldu, þ.m.t. ríkisstjórn, seðlabanka og fjármálaeftirliti.
Stjórnmálamenn stærstu flokka landsins hittust á leynifundum með framangeindum stofnunum og danskt og bandaríkst fé var fengið til að bjarga stórbankanum.
Sérfræðingar þaðan höfðu gapað um íslenska banka, og giskað rétt um sumt, virtust hins vegar ekkert vita um sinn eigin stórbanka.
Margir danskir bankar voru settir á guð og gaddinn.
Sá íslenski banki sem fyrstur féll og dró hina með sér í fallinu (enda voru þeir veikir fyrir) var ekki einka(vina)væddur á ríkisstjórnarárunum frá 1991-2005, eins og ætla mætti af afskræmdri umræðu. Þá einkavæðingu, sem snerti tilveru þess banka, framkvæmdi ríkisstjórnin sem sat árin 1987-1991.
Í þeirri stjórn voru tveir ráðherrar sem betur urðu kunnir síðar: Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Sífelldar hótanir Jóhönnu Sigurðardóttur, í öll hennar fjögur ár á valdastóli, um að láta rannsaka einka(vina)væðingu ríkisbankanna urðu aðeins orðin tóm. Og það þótt Morgunblaðið mælti í ritstjórnargreinum sínum eindregið með því að slík rannsókn færi fram, teldu menn ástæðu til þess. Því miður var sjaldan tilefni til þess að taka undir hugmyndir eða hótanir Jóhönnu Sigurðardóttur þessi fjögur ár. En það var gert í þessu tilviki. Engin skýring er til á því, hvers vegna Jóhanna lét ekki verða af þessum hótunum, þrátt fyrir ótvíræðan stuðning úr óvæntri átt.
Kannski má rekja það athafnaleysi til þess, að Ríkisendurskoðun hafði þegar, að sérstakri ósk, látið rannsaka þá einka(vina)væðingu.
Auðvitað gerði stofnunin þá sínar athugasemdir um einstök atriði, eins og jafnan gerist, en engin þeirra var í átt til þess sem Jóhanna dylgjaði um, svo ekki sé minnst á sögusmettur á vefnum. Lög höfðu ekki verið sniðgengin.
En þegar tveir íslenskir bankar voru hins vegar nánast gefnir erlendum kröfuhöfum var það gert án umræðu og án lagaheimildar, svo ótrúlega sem það hljómar. Þá héldu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon um stýri þjóðarskútunnar.
Þau gerðu það þannig, að þjóðarskútan velktist um eins og í óveðri, þótt hún væri bundin við bryggju nánast allt kjörtímabilið, og fékk aldrei að sækja björg í bú.
Íslenskum kjósendum var nóg boðið. Þeir tóku sig því saman og settu strandkapteinana tvo í land, með slíkum vitnisburði, að ekki er líklegt að nokkur, sem hann les, ráði þá í sambærilega vinnu aftur.
Það er þó huggunarríkt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 1.2.2015 | 14:02 | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 319774
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.