Verður Tónlistarhúsið við Reykjavíkurhöfn ódýrasta samheitalyfið

Mao formaður sagði eitt sinn: "Hugmyndirnar koma frá fjöldanum". Þetta þýðir með öðrum orðum að hugmyndir þróast og hver grípur á lofti það sem honum þykir fýsilegast og jafnvel gáfulegast hverju sinni.

Í þættinum Culture Shock á BBC var greint frá því um daginn að sænsk þingkona hefði lagt fram lagafrumvarp þess efnis að heimilt yrði að gefa út læknaávísanir (reseptir) á menningu. Í könnun, sem nýlega hefur verið birt í Svíþjóð og á að sögn BBC hliðstæður í öðrum löndum, kom í ljós að þeir, sem sækja menningarviðburði eins og sígilda tónlist, leiksýningar, málverkasýningar o.fl., lifa að meðaltali 10 árum lengur en fólk sem ástundar miður holla iðju, eins og sjónvarpsgláp með tilheyrandi neyslu sælgætis og skyndifæðis. Í samtali við þingkonuna kom fram að sænskir læknar gefa út tilvísanir á líkamsræktarstöðvar enda telja þeir að hvers kyns hreyfing og áreynsla sé af hinu góða.

Í viðtalinu kom einnig fram að ómenntað fólk og þeir, sem vinna erfiðisvinnu, hafi ekki tök á að veita sér þann munað að sækja ýmsa menningaratburði og hafi ef til vill ekki lært að njóta sígildrar menningar. Telur hún að menningartilvísanir lækna gætu bætt lífsgæði þessa þjóðfélagshóps.

Mér datt í hug að með því að gefa út tilvísanir á tónleika í nýja tónlistarhúsinu ynnist margt: Fólk fengi meiri lífsfyllingu, rándýr sérheita- og samheitalyf spöruðust, nýting hússins batnaði og menningin efldist. Sem sagt: Er ekki rétt að næsti heilbrigðisráðherra hugaði að þessu og skipaði nefnd til þess að rannsaka áhrif menningar á heilsu fólks? Ef til vill væri rétt að heilbrigðisráðuneytið skipaði einn fulltrúa í stjórn hússins og sjúklingasamtök eins og SÍBS, Geðhjálp og MS-félag Íslands ættu fulltrúa í stjórn væntanlegra hollvinasamtaka þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband