Til heiðurs Elínu Árnadóttur, eiginkonu minni.

Konan mín á afmæli í dag og ég hef verið ástfanginn af henni í 20 ár og 14 daga. Það var einkennileg tilfinning, þegar ástin skall á mér. Ég uppgötvaði allt í einu, þar sem við stóðum og kvöddumst, að ég var orðinn ástfanginn. Þetta hafði auðvitað átt sinn aðdraganda, en þarna á þessari stundu kl. rúmlega 6 síðdegis þann 15. mars 1987 áttaði ég mig á þessu. Þetta var því merkilegra sem ég hafði rætt það við vinkonu mína austur á Stöðvarfirði þremur mánuðum áður að kosturinn við að vera kominn á miðjan fertugs aldur væri m.a. sá að maður gæti ráðið því hvort maður léti eftir sér að verða ástfanginn. Ársfjórðungi síðar vissi ég varla hvað ég hét, hugsaði einungis um Elínu. Þetta var víst svo áberandi að stjórnarmenn Öryrkjabandalagsins tóku eftir breytingunni og sögðu að ég hefði einhvern veginn mildast allur.

Og þessi ást hefur staðið í 20 ár. Hún er ekki eins og í upphafi heldur dýpri og sterkari.

Ég eignaðist ekki eingöngu góða og heiðarlega konu heldur tengdist ég einstakri fjölskyldu. Upp úr krafsinu hef ég m.a. haft tvö, góð barnabörn, góða tengdadóttur og fyrrum sambýlismann (son konu minnar), en ekki síst mína ágætu tengdaforeldra. Í kvöld safnast fjölskyldan saman og neytir góðrar máltíðar.

Fljótlega eftir að við Elín kynntumst tók mig að dreyma að hluta til í litum. Elín talaði um allt sem fyrir augu bar og lýsti því öllu. Þetta fór inn í undirmeðvitundina og eftir 17 ára hlé fór mig að dreyma á ný ýmiss konar litbrigði sem höfðu lítt eða ekki gert vart við sig síðan haustið 1970.

Á þessum degi er mér efst í huga þakklæti fyrir árin okkar saman. Megi þau verða fleiri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband