Blindir og sjónskertir eru ekki þorskflök á færibandi.

Á Íslandi starfar nú einungis einn blindrakennari!

Í öllum stofnunum Menntamálaráðuneytisins er hann eini, sérmenntaði starfsmaðurinn með einhverja þekkingu á málefnum blindra og sjónskertra sem vinnur á því sviði.

Nýlega hefur víst verið ráðinn deildarstjóri námsbókadeildar Blindrabókasafns Íslands. Sá hefur enga þekkingu á málefnum þessa hóps og er til að mynda gersamlega ókunnugur blindraletri.

Á NFS hefur að undanförnu verið fjallað um menntun blindra og sjónskertra grunnskólabarna hér á landi. Komið hefur í ljós að staða Íslendinga í þessum málum er nú jafnvel verri að sumu leyti en hún var á 7. áratugnum, svo slæm að fjölskyldur hyggjast flýja land vegna aðstöðuleysisins.

Lengi fram eftir síðustu öld bárust fregnir af sjóndöprum nemendum sem urðu að láta sér lynda að sitja aðgerðarlitlir í tímum og gátu ekki nema að litlu leyti fylgst með því sem fram fór í kennslunni því að kennarar vissu ekki hvernig skyldi bregðast við sjónskerðingu og ekki var hirt um að tilkynna um sjónskerðingu barna. Ekkert kerfi var til. Prestar skráðu að vísu upplýsingar um sjónskert sóknarbörn sín og var það nokkur stoð.

Í umræðum gærkvöldsins um þessi mál kom í ljós að Blindradeild Álftamýrarskóla hefur verið lögð niður. Í lok þáttarins hélt fulltrúi Reykjavíkurborgar því fram að Reykjavík myndi enn veita 5 klst á viku vegna ráðgjafar fyrir blind og sjónskert börn í grunnskólum. Nú er vitað að eini blindrakennarinn, sem starfaði í Reykjavík, hætti störfum í sumar og er ekki vitað til að annar hafi verið ráðinn í starfið. Fulltrúi Reykjavíkur sagði því vísvitandi ósatt í lok þáttarins.

Þá kom fram í þættinum það algera metnaðarleysi sem ríkt hefur í sérkennslumálum blindra og sjónskertra bæði hjá Menntamálaráðuneyti, Samtökum íslenskra sveitafélaga og Reykjavíkurborg. Raunar má halda því fram að Menntamálaráðuneytið hafi illilega sofið á verðinum og ekki hafi verið gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að styrkja hið faglega umhverfi sem þarf að vera fyrir hendi til þess að styðja við blind og sjónskert börn í grunnskólum.

Nú þarf að herða róðurinn á öllum sviðum til þess að bæta ástandið. Nauðsynlegt er að efla áhuga stjórnmálamanna á menntun og endurhæfingu blindra og sjónskertra og benda á arðsemi á öllum sviðum sem virku starfi fylgir. Leggja verður fram hugmyndir að lagabreytingum og vinna skipulega að stofnun þekkingarmiðstöðvar sem nýtist blindu og sjónskertu fólki á öllum skólastigum. Eðlilegast er að sameina Blindrabókasafn Íslands og Sjónstöð Íslands, a.m.k. endurhæfingarþáttinn og skjóta styrkari stoðum undir þann þátt sem snýr að skólastarfinu. Með þeim hætti einum verður hægt að halda utanum alla aldurshópa blindra og sjónskertra barna.

Forstöðumaður Sjónstöðvar þarf að láta af áhuga sínum á sameiningu Sjónstöðvar og Heyrnar- og talmeinastöðvar en leggjast þess í stað á árarnar með þeim sem honum er ætlað að þjóna og vilja ekki þessa sameiningu. Hér er um tvo ólíka hópa að ræða og samnýting stafsfólk verður lítil. Þá eru þau rök, sem heyrst hafa úr ranni forstöðumanna þess eðlis, að framleiðni starfsfólks aukist, dæmi um sára vanþekkingu á mannlegu eðli. Hugmyndafræði flæðilínunnar gildir ekki í þessum málaflokki.

Blindir og sjónskertir Íslendingar eru ekki þorskflök á færibandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband