Geisladiskar Fóstbræðra, heimsmet Kínverja í píanóleik og óperan sem Tan Dun samdi aldrei handa Íslendingum.

Tengdamóðir mín blessuð, Sólveig Eggerz, listmálari, gaf mér aura í afmælisgjöf og keypti ég mér geisladiska fyrir aurana. Þetta voru þrír diskar með tónlist Karlakórsins Fóstbræðra og mynddiskur frá Deutsche Grammofon með leik Lang Lang, píanóleikara.

Sannast sagna eru Fóstbræðradiskarnir hreinasta afbragð. Um er að ræða hljóðrit frá 4. áratugnum fram til þessa tíma. Flest lögin eru sungin á íslensku. Má þar m.a. nefna gersemar eins og upphaf og endi Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson. Því miður hefur þessu verki einungis verið útvarpað einu sinni í heild og það einungis sett á svið árið 1974. Það þyrfti svo sannarlega að fara að dusta af því rykið. Ég held þó að Óperukórinn hafi gefið út forleikinn að Galdra-Lofti eftir Jón og lokaþátt Þrymskviðu í einni heild. Virðist Jón þar hafa breytt útsetningu lokaþáttarins nokkuð og að mér finnst til hins verra.

Diskurinn með Lang Lang er með kvikmynd um ferðalag hans til Kína í fyrra, en þá ákvað hann að setja heimsmet og hélt 250 tónleika á einu ári. Á diskinum er hljóðrit tónleika þar sem hann flutti píanókonsertinn Gula fljótið ásamt fjórum sinfóníuhljómsveitum og 100 stúlkum sem léku á píanó. Hafa því a.m.k. 400 manns tekið þátt í þessum flutningi. Segja verður hverja sögu eins og er, að flutningurinn er hálfgert sull og hljóðritunin ekki góð. Samt er einhver stemmning yfir þessari hljóðritun, það er feiknalega gaman að heyra allar 100 slaghörpurnar taka undir með hljómsveitinni. Lang Lang virðist hins vegar dálítið einmana þegar hann leikur einn með öllum hljómsveitunum eða einleiksþættina í konsertinum. Það er talsvert ójafnvægi í hljóðrituninni enda er það sjálfsagt ekkert áhlaupaverk að hljóðrita 300 manna sinfóníuhljómsveit og 101 slaghörpuleikara.

Ég held að til sé önnur hljóðritun með Lang Lang þar sem hann leikur konsertinn og þarf ég endilega að komast yfir hana. Þótt flutningurinn gæti e.t.v. verið betri er geislandi lífsorka í flutningum. Kínverja munar sjálfsagt ekkert um að útvega 100 góða píanóleikara til flutningsins þar sem 20 milljónir nemenda leggja stund á píanóleik í þvísa landi. Þetta tónverk hefur nú fylgt mér í bráðum 40 ár. Ég hélt að ég fengi hjartaáfall af hrifningu þegar ég heyrði á stuttbylgjum lokaþátt konsertsins í september 1970 og hann endaði á Austrið er rautt og Nallanum. Ég skrifaði alþjóðaútvarpinu í Beijing og þeir sendu mér segulbandsspólu með konsertinum. Hvílík hamingja. Ég spilaði jafnan þriðja eða fjórða þátt þessa verks ef ég þurfti að koma mér í baráttuham fyrir próf og enn kem ég mér í ham með þessu verki.

Í kvöld rifjaði Emil Bóasson upp með mér að fyrir rúmum 20 árum falaðist Björn Emilsson eftir því að kínverskt tónskáld semdi óperu sennilega fyrir Íslensku hljómsveitina. Eitt tónskáld var reiðubúið að taka þetta verk að sér, Tan Dun, sem var þá að ljúka námi við tónlistarháskólann í Beijing. Birni þótti hann ekki nógu þekktur. Skyldi Björn ekki naga sig í handabökin fyrir að hafa ekki þegið þetta boð? Einu launin sem farið var fram á voru þau að Tan Dun yrði boðið hingað að vera viðstaddur frumflutninginn. Nú er Tan Dun orðinn eitt virtasta tónskáld heims og hefur aldrei komið til Íslands!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband