Hvort eru fjölmiðlar ætlaðir öllum eða sumum?

Handa hverjum eru fjölmiðlarnir?
Undanfarið hefur verið fjallað um málefni heyrnarlausra í sjónvarpi allra landsmanna og er það vel. Sérstök athygli hefur verið vakin á táknmálinu og hversu mikilvægt sé að allir eigi sér móðurmál (eigið tungumál).
Heyrnarlaust fólk hefur löngum bent á að táknmálið gegni hlutverki móðurmálsins og íslenska sé yfirleitt annað mál þess.
Það gladdi því mitt miðaldra hjarta að Kastljós sjónvarpsins skyldi túlkað á táknmál. Hins vegar var táknmálið textað en ekki lesið upp svo að ég fór varhluta af svörum heyrnarlausra viðmælenda. Þannig hefur vafalítið farið fyrir þó nokkrum hópi sjónskertra sem geta tæplega lesið texta.

Þegar ég spurði sjálfan mig hvort eitthvert réttlæti væri í þessu svaraði ég mér neitandi. Um leið sagði ég: Í dag sendirðu pistil upp í útvarp og honum verður útvarpað á fimmtudag. Hvernig geturðu gert hann aðgengilegan heyrnarlausum hlustendum?

Á þeim sviðum sem hægt er að uppfylla kröfur um aðgengi er rétt að verða við þeim. Þannig ætti t.d. að skylda dagblöð til að gera allt efni sitt aðgengilegt öllum, hvort sem þeir eru sjáandi eða blindir. Eina dagblaðið, sem uppfyllir þessar kröfur með sóma hér á landi, er Morgunblaðið. Fréttablaðið sinnir þessu illa og Blaðið alls ekki. Þó á Morgunblaðið Blaðið.
Sjónvarpið hefur látið undir höfuð leggjast að sinna þörfum heyrnarlausra nema að litlu leyti. Ríkisútvarpið, hljóðvarp, sinnir í engu þörfum nýbúa hér á landi. Fyrir nokkrum árum varpaði ég fram þeirri hugmynd að komið yrði á svokölluðu innflytjenda- eða nýbúaútvarpi, en við þeirri hugmynd fengust engin svör.
Velti menn því nú fyrir sér hvernig hægt sé að gera fjölmiðla aðgengilega öllum en ekki einungis sumum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband