Er rógburður réttmætur í fjölmiðlum?

Ég varð í tvígang hissa á forystu Framsóknarflokksins fyrir helgi. Fyrra skiptið voru skiptin í stjórn Landsvirkjunar þegar Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni var að því er virtist vikið frirvaralaust úr embætti. Þegar ég hugsaði málið betur datt mér í hug að þarna hefði Jón formaður sennilega verið að undirbúa næstu helmingaskiptaríkisstjórn, en háværar raddir heyrast nú úr Sjálfstæðisflokknum að sennilega væri illskást að halda áfram með Framsóknarflokknum á svipaðri braut eftir kosningar. Breyti Geir Haarde um stíl og gerist félagshyggjusinnaðri á hann vísan bandamann í framsóknarmönnum.

Þá varð mér ónotalega við þegar ég heyrði af máli verðandi tengdadóttur Jónínu Bjartmars og þótti það með ólíkindum að jafnskynsöm kona léti hafa sig út í annað eins og það sem hún var sökuð um. Ég fylgdist síðan með meintu viðtali í kastljósi föstudagsins þegar Helgi Seljan, yngri hugðist myrða umhverfisráðherra í beinni útsendingu. Þar tókust á prúðmennskan og skrýlsæðið. Það var eitthvert misheppnaðasta upphlaup nokkurs fjölmiðlamanns sem ég hef orðið vitni að. Helgi fór offari, hleypti viðmælanda sínum sjaldan að og úr varð at eins og þegar reiður griðungur ræðst á rautt klæði.

Þeir, sem rætt hefur verið við úr allsherjarnefnd Alþingis um þetta mál eru sammála um að ekkert óeðlilegt hafi verið við þessa afgreiðslu. Hitt er þó annað að stundum hefur allsherjarnefnd ekki farið jafnmjúkum höndum um fólk sem hefur ekkert til saka unnið en að vera frá svæðum sem talin eru vaasöm, eins og t.d. frá Austurlöndum nær. Ég ætla hér ekki að tíunda einstök tilvik. En slík ósamkvæmni býður jafnan hættunni heim og í þessu máli átti greinilega að gera Jónínu Bjartmars að fórnarlambi.

Það skyldi þó ekki vera að Helgi Seljan, kæmi Jónínu á þing með hamagangi sínum. Sem fjölmiðlamaður ráðlegg ég honum eindregið að athuga sinn gang og vanda umfjöllun sína um þau mál sem hann tekur fyrir. Umræður, sem einkennast af upphrópunum, frammíköllum og dylgjum eru engum sæmandi. Helgi ætti að muna þær reglur sem tíðkaðar voru í hólmgöngum til forna. Gunnlaugs saga ormstungu væri honum holl lesning.

Í stað þess að fremja pólitískt morð á viðmælanda sínum hefur Helgi framið sjálfsmorð sem sjónvarpsmaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband