Hraðatakmarkandi búnaður í bifreiðar og bifhjól, færri dauðsföll og örkuml!

Á rúmum sólarhring hefur tvennt beðið bana í umferðarslysum og þrennt liggur í öndunarvélum. Þetta eru afleiðingar gáleysis og fyrst og fremst hraðaksturs á bifhjólum og bifreiðum.

Það er með ólíkindum hvernig umferðarmenning Íslendinga hefur þróast að undanförnu. Bættir vegir hafa þýtt aukinn hraða og bílstjórar víla ekki fyrir sér að níðast svo á samferðarmönnum sínum í umferðinni að þakka má fyrir að fleiri skuli ekki vera drepnir en raun ber vitni. Bifreið og bifhjól eru engu hættuminni en skotvopn í höndum gálauss manns. Fyrir rúmri viku fórum við hjónin hjólandi austur í Ölvus. Lögðum við af stað úr bænum um tvöleytið á laugardegi og héldum sem leið liggur upp að Litlu kaffistofunni þar sem við áðum. Þegar haldið var af stað að nýju um 5-leytið var umferðin orðin svo hröð og glannaskapur bílstjóra slíkur að við hættum ekki á að fara yfir Hellisheiði heldur héldum um Þrengslin til Hveragerðis. Þar áðum við drykklanga stund og nutum góðra veitinga.

Þegar við vorum nýlega lögð af stað í áttina að Selfossi kom sportbíll æðandi á eftir okkur. Þeytti drengurinn, sem sat undir stýri, flautuna í ákafa og þaut framhjá á ofsahraða, sennilega ekki undir 150 km á klst. Sem betur fer hélt hann sig á veginum en notaði ekki vegaröxlina. Guð veit hvernig þá hefði farið.

Ég sat í Umferðarráði í nokkur ár. Þar rifjaði ég upp tillögu Hrafns Baldurssonar, sem hann sendi Öryrkjabandalagi Íslands árið 1987 þess efnis að settur yrði sérstakur búnaður í bíla sem takmarkaði hraða þeirra. Á þessum tíma hlaut tillagan engar undirtektir þegar bandalagið leitaði liðsinnis tryggingarfélaganna. Nokkrar umræður urðu um tillöguna í Umferðarráði að þessu sinni og voru ýmsir því fylgjandi að málið yrði athugað nánar. Hins vegar voru nokkrir meintir sérfræðingar í gerð og búnaði bifreiða, sem brugðust ókvæða við og töldu henni allt til foráttu, sögðu m.a. að slíkur búnaður myndi eyðileggja vélar bifreiðanna og gæti valdið stórhættu við sum skilyrði. Í tillögunni fólst m.a. að kannað yrði hvort ekki væri hægt að stýra slíkum búnaði þannig að hann stjórnaðist af þeim hámarkshraða sem leyfilegur væri hverju sinni.

Búnaður sem takmarkar hraða bifreiða hefur verið í hópferðabifreiðum um nokkurt skeið og þykir nú jafnsjálfsagður og hann þótti hin mesta firra þegar hann var upphaflega settur í bifreiðarnar. Með bættu fjarskiptasambandi og nýrri tækni á ekkert að vera því til fyrirstöðu að slíkur búnaður verði settur í allar bifreiðar, hvaða nafni sem þær nefnast og almenningur notar.

Íslendingar skilja hvorki boð né bönn heldur sektir, refsingar og hvers konar þvinganir. Í raun ætti annaðhvort að bannað eða skattleggja stórkostlega innflutning bifreiða og bifhjóla sem ná ofurhraða og herða að mun viðurlög við hraðaakstri. Einnig verður að beita meiri fræðslu og áróðri og sýna svart á hvítu hvaða afleiðingar slíkur akstur hefur í för með sér.

Nú liggja tvær ungar stúlkur og einn piltur í öndunarvél sennilega vegna ofsaaksturs og tvennt er látið. Hverju þarf að fórna til þess að tryggingafélögin og yfirvöld samgöngumála taki við sér og hefti þetta æði sem gripið hefur um sig á meðal bifreiðastjóra og lýsir sér í furðulegri fólsku í garð samferðarmanna sinna?

Á Selfossi stunda menn nú bligðunarlausan kappakstur á götum bæjarins og Ólafur sýslumaður hefur of lítil völd til þess að hemja þessa hryðjuverkamenn. Fyrir skömmu varð árekstur vegna þess að bifreið hafði verið lagt á vegaröxl og ökufantur hugðist nota öxlina til framúraksturs. Er ekki mál að linni!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnþór,
rambaði innn á bloggið þitt í gegnum mbl af augljósum ástæðum. Fyrirsögnin á pistli þínum vakti athygli mína.

Þú kallar eftir viðbrögðum samgönguyfirvalda varðandi hraðatakmarkandi búnað í fólksbíla. Ég vil fá að benda á að samgönguráðherra hefur einmitt verið að kalla eftir umræðu um slíkar takmarkanir undanfarnar vikur. Hann hefur fengið á sig glósur um að vilja innleiða einhvers konar "big brother" í umferðina. Það er ánægjulegt að menn eins og þú vilji taka þátt í umræðunni, en með fullri virðingu fyrir blogginu þínu þá mæli ég með því að þú látir til þín heyra á "fjölfarnari" umræðuvettvangi en bloggið þitt er. Ég er nokkuð viss um að samgönguráðherra mæti það mikils.

kveðja,
Bergþór Ólason
Aðstoðarmaður samgönguráðherra.

Bergþór Ólason (IP-tala skráð) 4.7.2006 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband