Arnþór Helgason
Baráttan um kjörin
Ræða flutt í Seltjarnarneskirkju
Á degi verkalýðsins 1. Maí 2016
Góðir áheyrendur,
Ég þakka þann heiður að fá að ávarpa söfnuðinn hér í dag á alþjóðadegi verkalýðsins. Ég hef fyrir löngu gert mér grein fyrir því hversu athyglisvert starf er unnið hér innan vébanda Seltjarnarneskirkju. Einn af kostum þess er opin umræða án fordóma, enda skulum vér eigi dæma svo að vér verðum eigi sjálf dæmd.
Allir leiðtogar, hvort sem um er að ræða siðfræðinga og friðarsinna, einvalda eða byltingarmenn, hafa skilið eftir sig orðskviði og spakmæli. Má þar nefna Salómon konung, Búdda, Konfúsíus, Jesúm krist og Mao Zedong, sem sagði m.a. að lífið væri barátta. Hans skoðun á baráttunni var umbylting þjóðfélagsins og þótt margt hafi mistekist stendur þó annað upp úr. Gagnvart þeim, sem ég fjalla um í dag, hefur lífið verið og er enn barátta.
Ævi mín hefur að mestu leyti verið helguð baráttu fyrir auknum réttindum fatlaðra, fyrst á vegum Blindrafélagsins og síðar á vettvangi Öryrkjabandalags Íslands. Þessi ferill tók skjótan endi fyrir 10 árum og síðan hef ég haldið mig til hlés frá þeim vettvangi.
Á æskuheimili mínu var barátta verkalýðsins oft til umræðu. Margt af vinafólki foreldra minna tilheyrði verkalýðsstéttinni og ég varð aldrei var við að fólk væri dregið í dilka eftir stétt eða stöðu.
Í störfum fyrir Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands kynntist ég ýmsu fólki úr öllum flokkum sem vildi þessum málstað vel. Ég nefni nokkra einstaklinga:
Magnús Kjartansson jók kaupmátt örorkulífeyris er hann settist í stól heilbrigðisráðherra árið 1971. Vilhjálmur Hjálmarsson varð til þess að veita brautargengi þeirri hugmynd að fjármagna stöðu félagsráðgjafa fyrir Blindrafélagið og ríkti einhugur í fjárlaganefnd Alþingis þegar sú tillaga kom fram, en Vilhjálmur var fjölskylduvinur og þekkti okkur tvíburanna.
Þegar hljóðbókaþjónusta hófst hér á landi með samstarfi Blindrafélagsins og Borgarbókasafnsins barst fljótlega beiðni um að saga Sjálfstæðisflokksins yrði lesin og tóku það að sér höfundar greina í bókinni. Þar á meðal var Geir Hallgrímsson, þáverandi forsætisráðherra. Hann varð mjög hrifinn af þessu framtaki Blindrafélagsins og Borgarbókasafnsins og furðaði sig á tregðu stjórnvalda við að ljá málinu lið. Síðan var hann dyggur stuðningsmaður þess.
Ekki má gleyma manni eins og Oddi Ólafssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, sem var fyrsti formaður Öryrkjabandalags Íslands auk þess sem hann gegndi formennsku í Hússjóði þess og lyfti grettistaki í málefnum fatlaðra. Baráttukonurnar voru einnig margar: Rósa Guðmundsdóttir, formaður Blindrafélagsins um skeið, Ólöf Ríkarðsdóttir, sem vann lengst á vegum Sjálfsbjargar, Ásta B. Þorsteinsdóttir, formaður Þroskahjálpar og fleiri. Þá er Jóhann Pétur Sveinsson ógleymanlegur þeim sem honum kynntust.
Um síðustu jól kom út bókin Þegar siðmenningin fór fjandans til eftir sagnfræðinginn Gunnar Þór Bjarnason. Í bókinni er brugðið upp mynd af fyrri heimsstyrjöldinni út frá sjónarhóli Íslendinga, en það var í raun öðru sinni sem Íslendingar lentu í hringiðu evrópskra stríðsátaka, þótt þeir væru á jaðri þeirra. Við sluppum að vísu við hernám en urðum að sæta afarkostum breskra yfirvalda. Mjög kreppti þá að íbúum þessa lands.
Óhætt er að halda því fram að þær breytingar sem urðu í kjölfar verslunarfrelsis árið 1855 og stjórnarskrárinnar 1874 hafi markað upphafsskeið breytinga og framfara hér á landi. Kaupstaðir efldust, atvinnuvegum fjölgaði og kjör fóru batnandi.
Gögn sýna að hagvöxtur var áberandi mikill hér á landi frá því um 1890 fram að 1915, en þá hófst eitthvert lengsta kreppuskeið síðustu áratuga lengra og verra en heimskreppan 1930 og hið marg umtalaða hrun árið 2008. Þá kreppti mjög að atvinnuvegum landsins. Útflutningur minnkaði, erfiðara varð að afla varnings frá útlöndum, fiskveiðar drógust saman og verðfall varð á afurðum landsmanna. Þetta olli miklum búsifjum hjá fjölda fólks.
Um þetta leyti áttuðu ýmsir sig á að nauðsynlegt væri að grípa til einhverra ráða til þess að bæta kjör þeirra sem bjuggu í raun við sult og seyru og fóru þar konur fremstar í flokki. Um svipað leyti tóku verkalýðsfélög mjög að eflast og Alþýðusamband Íslands var stofnað fyrir réttri öld. Þannig varð stéttabaráttan skipulögð á Íslandi og hefur í raun staðið æ síðan. Fyrsti maí hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1923 og sett svip sinn á þjóðlífið.
Móðir mín, sem stóð fyrir fjölmennu heimili í Vestmannaeyjum, minntist þess að eitt sinn á fyrsta maí var hún ásamt tveimur vinnukonum önnum kafin við að gera hreint, þegar kröfugangan fór framhjá niður Skólaveginn. Forystumenn verkamanna voru vinir þeirra hjóna og sagðist hún hafa skammast sín. Gaf hún stúlkunum og sjálfri sér frí og gætti þess ævinlega síðan að dagur verkalýðsins væri haldinn hátíðlegur.
Árið 1936 voru í fyrsta sinn sett lög um alþýðutryggingar hér á landi og voru þau undanfari þeirra trygginga sem almenningur nýtur nú, en það var ekki fyrr en um 1970 að fólki var gert skylt að greiða í lífeyrissjóði.
Þegar ég kynntist málefnum fatlaðra og hóf þátttöku í félagsmálastörfum árið 1969 var þetta bláfátækur hópur. Blint fólk vann þá einkum við bursta- eða körfugerð, en víða á landsbyggðinni unnu blindir karlmenn við netaviðgerðir og konur stunduðu hannyrðir. Örorkulífeyririnn var ofurlítill. Á því varð ekki breyting fyrr en árið 1971, þegar Magnús Kjartansson varð heilbrigðisráðherra eins og fyrr var getið. Þá hækkuðu bætur umtalsvert.
Þegar kom fram á 8. Áratug síðustu aldar urðu ýmsar aðstæður til þess að til varð öflugur hópur fatlaðs fólks sem beitti sér af alefli fyrir bættum kjörum. Má það rekja til aukinnar menntunar og erlendra strauma sem bárust hingað til lands. Upp úr 1980 var farið að huga að endurmenntun og þjálfun fólks sem hafði slasast, annaðhvort í umferðinni eða vegna vinnu sinnar. Mestum sigri var náð í þeim málum er Öryrkjabandalaginu tókst með aðstoð Rauðakrossins og Stjórnunarfélags Íslands að koma á fót Starfsþjálfun fatlaðra sem nú kallast Hringsjá. Er þessi markverða stofnun frumkvöðull í öllu því endurmenntunarstarfi sem fer nú fram um allt land og hefur skilað sér m.a. í því að þátttaka fatlaðra í atvinnulífinu og við nám hefur stóreflst.
Níundi áratugurinn var í raun eitt allsherjar framfaraskeið. Má nefna að þá hófst undirbúningur að lögum þeim sem kölluð hafa verið lög um málefni fatlaðra. Framkvæmdasjóður fatlaðra var settur á fjárlög og þurfti iðulega að berjast harðri baráttu til þess að vernda hann fyrir niðurskurði stjórnvalda. Varð frægt í desember 1986 þegar Öryrkjabandalaginu ásamt Þroskahjálp tókst að hrinda verulegum niðurskurði í málaflokknum.
Þessi hægfara sigurganga hélt áfram fram á 10. áratuginn. Segja má að þá hafi orðið fallaskil þegar Viðeyjarstjórnin tók við völdum. Þá rofnaði samband Öryrkjabandalagsins við stjórnvöld að mestu leyti. Forsætisráðherra gaf aldrei kost á neinu samráði og mikill niðurskurður hófst. Farið var að krefja fólk um gjöld fyrir ýmsa þjónustu svo sem á heilsugæslu, sjúkrahúsum og vegna nauðsynlegra lyfja. Eitt af því allraversta var tekjutenging örorkulífeyris við tekjur maka og bitnaði það einna helst á fötluðum konum í hjónabandi. Þá háði Öryrkjabandalagið harðvítuga baráttu undir stjórn Garðars Sverrissonar sem endaði með því að bandalagið vann mál gegn ríkinu. Ríkisstjórnin hefndi sín að vísu með því að skilja nokkrar tekjutengingar eftir vegna tekna maka. Síðar brutu stjórnvöld ýmis loforð sem gefin höfðu verið og ásókn sumra stjórnmálaflokka eftir yfirráðum í samtökum fatlaðra hófst. Þá voru núverandi stjórnarflokkar við völd. Nú þegar ríkisstjórn þessara flokka situr enn á valdastóli eru samtök fatlaðra varla virt viðlits þótt innan vébanda þeirra séu rúm 30.00 manns.
Þessi saga er íslenskum stjórnmálaflokkum til lítils sóma og hefur skilið eftir djúp sár.
Nú er svo komið að Ísland getur vart talist á meðal þeirra ríkja sem sækjast eftir að kenna sig við norræna velferðarkerfið. Á árunum 2000-2008 fóru í raun lífskjör fatlaðra og aldraðra versnandi þrátt fyrir áfangasigra Öryrkjabandalagsins, því að bæturnar héldu ekki í við hækkandi verðlag. Á sama tíma tók græðgin völdin á meðal þeirra sem mest höfðu. Fjármunum var skotið undan skatti og skiluðu sér ekki til almannaneyslunnar. Hefur því verið haldið fram að í íslenska hagkerfið vanti nú allt að þúsund milljörðum króna.
Lærdómurinn, sem dreginn verður af sögunni, hlýtur að vera sá að margur verður af aurum api og sést ekki fyrir í ásókn sinni eftir auði.
Nú þegar horft er til kosninga hlýtur von manna að verða sú að Íslendingar læri að lifa saman í þeirri sátt að samkomulag náist um að tryggja fötluðu fólki og öldruðu viðunandi kjör. Það skilar sér reyndar að mestu leyti aftur í Ríkissjóð vegna meiri neyslu. Íslendingar þurfa jafnframt að huga að lífsgildum sínum í náinni framtíð vegna þeirra breytinga sem eru að verða á samfélaginu.
Nú er svo komið að Íslendingum er hætt að fjölga nægilega mikið til þess að haldið verði í horfinu og fjöldi fólks af ólíku þjóðerni flytur hingað. Úr því sprettur vonandi íslensk framtíðarfjölmenning íslenskri þjóð og nýjum Íslendingum til aukins velfarnaðar.
Lokaorð mín verða tilvitnun í tvo spekinga, sem orðuðu samfélagssáttmálann svo á 6. öld fyrir Krist og á dögum hans, en Konfúsíus sagði: Það sem þér viljið eigi að aðrir gjöri yður skuluð þér og þeim eigi gjöra, Því skulum vil halda glöð á vit hins ókomna í anda Krists, gjöra öðrum það sem við viljum þiggja af þeim og þjóna alþýðunni af öllu hjarta eins og Mao Zedong lagði til, enda erum við öll eða höfum verið hluti íslenskrar alþýðu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 1.5.2016 | 12:56 (breytt kl. 21:46) | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vel sagt.
Sæmundur Bjarnason, 2.5.2016 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.