Átti eldgosið á Heimaey 1973 sér lengri aðdraganda? Frásögn Jóns Ó. E. Jonssonar

Áðan var á Rás eitt þátturinn Fólk og fræði í umsjón háskólanema. Þar sagði maður nokkur frá því er hann tók þátt í að bjarga verðmætum úr húsum á fyrstu dögum gossins.

Frásagnir um þennan atburð eru ótæmandi. Sagt er að gosið hafi gert boð á undan sér með um sólarhrings fyrirvara, en ekki tókst að staðsetja jarðskjálfta sem varð eftir því sem starfsmaður Raunvísindastofnunar tjáði mér, þar sem jarðskjálftamælir (sennilega við Búrfellsvirkjun) var bilaður. Stafaði bilunin af því eftir því sem hann komst næst, að einhver hafði gætt sér á spíranum sem átti að vökva mælinn með. Þessi ágæti maður, Jón Sveinsson, fékk það verkefni að gera við mælinn.

Vinur minn og félagi, Jón Ólafur Eymundsson Jónsson, ævinlega kallaður Jón Ó. E., sagði mér athyglisverða sögu 21. desember 1972. Ég hafði þá komið samdægurs til Eyja og urðu það mín síðustu jól þar.

Jón hafði þá fengið kransæðastíflu og gat ekki lengur sinnt járnsmíðum. Notaði hann tímann til að rölta um Heimaey og skoða ýmis náttúruundur. Ég hafði léð honum Jarðfræði Þorleifs Einarssonar og fleiri menntaskólabækur og las hann þær upp til agna.

Jón sagði að eitthvað stórfurðulegt væri að gerast á austanverðri eyjunni. Skammt austan við syðri hafnargarðinn væri að opnast sprunga sem lægi í norðvestur-suðaustur. Virtist honum sem annaðhvort væri að opnast þar berggangur eða að þetta væri undanfari mikilla atburða - til dæmis eldsumbrota. "Ég hef ekki sagt nokkrum manni frá þessu, enda segja allir að Jón Ó. E. sé orðinn vitlaus og nenni ekki lengur að vinna," sagði hann. Ég lagði fast að honum að greina frá þessu en hann sagði mér að gera það.

Ég hef nokkrum sinnum sagt þessa sögu áður, en hún virðist ekki hafa vakið neina athygli.

Ég læt hér fylgja með hlekk á stuttan minningaþátt frá sumrinu 1969, en þar heyrist m.a. í Jóni Ó. e. og fleira fólki sem gengið er á vit feðra vorra og mæðra.


http://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1033435/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband