Fréttaauki - saga lagsins og þróun

Af hégómaskap einum saman ætla ég að minnast lagsins Fréttaauka sem varð til fyrir 50 árum.

Eins og þeir vita, sem kannast við lagið, er það alger stæling á bítlalagi sem kom út árið 1965. Það sumar var ég í Reykjavík fram á haust að skrifa námsefni handa okkur bræðrum. Það var lesið inn á segulband og ég skrifaði það á blindraletur.
Um nokkurt skeið bjó ég hjá systur minni og mági en flutti síðar til Sigtryggs bróður.
Ég varð iðulega samferða mági mínum á morgnana og gengum við frá Fossvogsbletti niður í Hamrahlíð 17 eða 19 eins og húsið var skráð þá, en þetta var vinnustaður minn.
Einn morguninn datt mér í hug laglínan sem myndar nú A-kafla í laginu.
Eftir áramótin 1967 spurði Helgi Hermannsson í Logum mig hvort ég væri til í að setja saman popplag handa þeim að gefa út á hljómplötu og skilaði ég þeim tveimur lögum. Annað var misheppnað og hefur ekki heyrst, en við tókum til að vinna í Fréttaaukalaginu sem varð til 2. febrúar þegar ég bætti við B-kaflanum.
Ég held að við Gísli höfum ekki spilað þetta opinberlega í Eyjum því að laginu átti að halda leyndu þar til það kæmi út. En fiskisagan flaug um að nýtt lag væri tilbúið.

Ási í Bæ, þjóðskáld Vestmannaeyinga, var fenginn til að semja textann og lauk hann því um vorið. Ekkert bólaði á að Logar flyttu lagið. Eitt sinn er ég hitti Helga spurði ég hann hvað væri að frétta. Sagði hann að textinn væri ónýtur, en kallinn hefði samið texta um "einhvern helvítis draum".
Vonbrigðin urðu mikil - reyndar nálgaðist þetta hálfgert áfall. Við bræður hertum upp hugann og hittum Ása að máli. Sagði hann að lagið væri leikið allt of hratt, en þetta væri í raun sorgþrungin laglína og söng fyrir okkur kvæðið um hana litlu Ló sem átti heima í Dong-Sing-Dó, sem var eins konar hljóðlíking héraðs í Víetnam sem Bandaríkin herjuðu á um þessar mundir. Vildi ég óska að ég ætti hljóðrit með þessum flutningi Ása.

Við Gísli vorum á leið í tónleikaferðalag skömmu síðar, hófumst handa 8. júní austur í Öræfum, lukum ferðinni á Patreksfirði3. ágúst og náðum heim á þjóðhátíð á laugardeginum.
Við fluttum þetta lag því fyrsta sinn austur í Öræfum og kölluðum það stúlkuna frá Víetnam þar sem við sungum ekki heldur lékum á rafmagnsorgel og flautu.
Félagar mínir í menntaskóla höfðu pata af textanum. Einn þeirra vildi koma laginu á framfæri á Hótel Sögu en þar skyldi haldið menntaskólaball. Ragnar Bjarnason sagðist ekki geta sungið textann. "Hvað heldurðu að þetta íhaldslið segi, maður, ef það heyrir þetta? Þá verður allt vitlaust!" En lagið var flutt þar í skemmtilegri djass-útsetningu þar sem laglínan var leikið á þverflautu.

Síðan leið tíminn og árið 1975 stofnuðum við galgopar í íslenskum fræðum hljómsveitina Wulfilins orkestra sem æfði nokkur lög fyrir dansleik. Þar var lagið flutt og síðar um svipað leyti á samkomu herstöðvaandstæðinga. Það sló í gegn!

Lagið kom síðan út á hljómplötunni Í bróðerni árið 1981 og varð á meðal vinsælustu laga þessa árs.

Árið 1984 hélt Ási í Bæ upp á sjötugsafmæli sitt með tónleikum í Norræna húsinu. Vorum við bræður þar ásamt ýmsum tónlistarmönnum og bað Ási sérstaklega um að lagið Fréttaauki yrði flutt. Ég sagði honum að ég vildi breyta útsetningunni í hægan píanóleik og fá söngvar til að flytja það. Varð hann feginn og sagðist ekki vera jög hrifinn af þessari poppútsetningu. Guðrún Hólmgeirsdóttir söng lagið og síðar fluttum við Guðrún það á ýmsum samkomum í Reykjavík og víðar.

Mér þótti lagið heldur ómerkilegt á þessum árum og gleymdi því svo gersamlega að einn morgun sumarið 1991 þegar ég fór með strætisvagni til vinnu minnar heyrði ég að bílstjórinn var að hlusta á útvarpið og þar var sungið lag sem ég kannaðist ekki við.
En mig setti dreir-rauðan þegar ég áttaði mig allt í einu á laginu.

Síðan hefur það komið út á nokkrum hljómplötum í ýmsum útsetningum. Merkastar þykja mér útgáfa Tríós Bliks þar sem Atli Heimir Sveinsson fór höndum um lagið og Hot Eskimós, en þar fer Karl Olgeirsson mjúkum höndum um flygilinn.

Það kom mér algerlega í opna skjöldu þegar ég frétti einhvern tíma á 10. áratugnum að lagið væri vinsælt í Vestmannaeyjum og ég var viðstaddur frumflutning kórútsetningar Báru Grímsdóttur sem hún samdi handa Samkór Vestmanaeyja árið 1999.

Að lokum skal greint frá því að nafn einnar skólasystur minnar í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja er fólgið í síðustu hendingu lagsins. Hef ég stundum sent henni eintak af því þegar ný útgáfa kemur út og finnst okkur þetta lag okkar hafa elst fremur vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband