Hvort er lýðræðið flokksræði eða flokksræðið lýðræði?

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig kínverskir fjölmiðlar fjalla um alþingiskosningarnar hér á landi. Vel get ég ímyndað mér að vakin verði athygli á þeim glundroða sem þær hafa skilað. Skyldu menn þar eystra ekki velta því fyrir sér hvort píramídakosningar, eins og stundaðar eru innan Kommúnistaflokksins, skiluðu nokkuð lakari árangri.
Eitt sinn ræddi ung kínversk kona við mig um kínversk og vestræn stjórnmál. Niðurstaðan var á þessa leið: "Það er ótrúlegt hvað Vesturlandabúar reyna að siða okkur Kínverja til. Þið eigið ekki að gera hlutina svona heldur hinseginn. En þótt ýmislegt sé að hjá okkur er líka allt í kaldakoli hjá ykkur - hver höndin á móti annarri og engin samstaða. Hvort kerfið ætli sé betra þegar til lengdar lætur?" Svar mitt varð fremur langt og fór umræðan víða.
Annar kínverskur þegn sagðist stundum horfa og hlusta á útsendingar frá Alþingi Íslendinga.
"Það er ótrúlegt hversu oft þingmenn öskra hver á annan," sagði hann. "Um hvað snýst þetta? Hjá okkur reynum við að ná samkomulagi. Við þvingum ekkert fram en reynum að komast að málamiðlunum ef skoðanir eru skiptar."
Hér skal ekki lagt mat á álit þessara einstaklinga, en þau vekja mann samt til umhugsunar þegar við stöndum frammi fyrir þeim kostum sem í boði eru þar sem málamiðlanir þarf til þess að árangurinn verði ásættanlegur fyrir alla aðila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband