Í minningu föður míns, Helga Benediktssonar

Í dag er 119. afmælisdagur föður míns, Helga Benediktssonar, athafnamanns, sem bjó mestan hlut ævi sinnar í Vestmannaeyjum, en þangað fluttist hann 1921. Þar stofnaði hann fyrirtæki sitt, sem var starfandi þar til hann lést 8. apríl 1971 og þar hitti hann móður mína, Guðrúnu Stefánsdóttur og gengu þau í hjónaband árið 1928.

Ævi hans var býsna stormasöm á köflum enda sagði hann einatt kost og löst á ýmsum hliðum mannlífsins.
Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum hjá Jónasi frá Hriflu og urðu þeir nánir vinir. Miðað við tíðarandann þurfti því ekki að koma á óvart að í odda skærist með honum og "íhaldinu" enda var hann einn af stuðningsmönnum Jónasar innan Framsóknarflokksins.

Þennan dag árið 1949, þegar hann varð fimmtugur, létu stjórnvöld undir forystu Sjálfstæðismanna gera tryggingasjóð Skaftfellings og Helga VE 333 upptækan auk þess sem heimili fjölskyldunnar að Heiðarvegi 20, var sett á uppboð. Honum tókst að leysa húsið út, en tryggingasjóðinn fékk hann ekki. Sá sjóður var stofnaður þegar Helgi var smíðaður, en smíðinni lauk 1939. Hann var 119 tonn, stærsta tréskip sem þá hafði verið smíðað hérlendis, en Bátaábyrgðafélag Vestmannaeyja trygði einungis skip og báta upp að 100 smálestum.

Eftir að sjóðurinn var gerður upptækur  samdi pabbi við Samvinnutryggingar um að tryggja þá Helga og Skaftfelling og skyldi tryggingin taka gildi mánudaginn 9. janúar 1950.
Helgi fórst við Faxasker þann 7. janúar og með honum 10 menn. Kom því skaðinn af fullum þunga á hann.
Foreldrar mínir buguðust þó ekki heldur gerðu það sem þau gátu til þess að létta eftirlifandi ættingjum lífsbaráttuna.

Barátta föður míns lá stundum á mér eins og mara eftir að hann dó og ég hafði fengið í hendur ýmsar heimildir eins og t.d. bæklinginn "Ég ákæri", sem hann gaf út skömmu eftir fæðingu okkar tvíburanna.
Árið 1999 var 100 ára afmælis hans minnst og bað ég þá Matthías Jóhannessen að birta grein um föður minn, sem Sævar Jóhannesson hafði skrifað. Brást Matthías vel við og var greinin birt í Morgunblaðinu.
Við Matthías höfðum nokkrum sinnum talast við í síma vegna ýmissa mála, en ég hitti hann fyrst augliti til auglits nokkru eftir að greinin birtist. Þakkaði ég honum fyrir hversu vel hann hefði brugðist við. Matthías svaraði: "Afstaða Morgunnblaðsins til föður þíns er og verður ævarandi smánarblettur á blaðinu. En Arnþór, við erum menn framtíðarinnar og lifum ekki í fortíðinni."
Þannig lauk Matthías aftur dyrunum að fortíðinni sem einungis er lokið upp endrum og eins til þess að minnast ákveðinna atburða.
Síðar átti ég eftir að starfa sem sumarmaður á blaðinu og er það besti vinnustaður sem ég hef unnið á.

Saga Helga Benediktssonar er þess virði að hún verði einhvern tíma skráð. Nægar heimildir eru fyrir hendi í skjalasafni hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband