Aldraður leiðarahöfundur

Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikill hluti áskrifenda Morgunblaðsins forðast að lesa leiðara þess og eru ýmsar ástæður til þess.

Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar greinir þær ágætlega í pistli á umræðuvettvangi Morgunblaðsins föstudaginn 5. þessa mánaðar.

 

Fjölmiðlar eru afar mikilvægir í lýðræðislegri umræðu. Vönduð fjölmiðlaumfjöllun er hvort tveggja upplýsandi sem og hugvekjandi en að sama skapi getur óvönduð fjölmiðlaumfjöllun beinlínis verið meiðandi og afvegaleiðandi.
Höfundur einn, sem ítrekað ritar í Morgunblaðið, gerist iðulega sekur um rökþurrð og afvegaleiðslu í skrifum sínum. Slík er ásókn hans í stundarathygli, enda gleymdur mörgum, að hann gerir allt sem hann getur til að kasta fram sora huga síns bara til að vekja umræðu og fá þá athygli sem hann þráir mest af öllu. Sneyptur var hann sendur í útlegð frá opinberum störfum eftir afglöp sín í Seðlabanka Íslands. En sægreifar, sem byggja auð sinn á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, réðu hann til starfa svo hann fær að rita mola er kallast Staksteinar.
Í steinum gærdagsins opinberast þekkingarleysi höfundar á baráttu svarts fólks í Bandaríkjunum. Vitinu virðist naumt skammtað þar sem gert er lítið úr mótmælum þar í landi sem og á fjölmennum samstöðumótmælum á Austurvelli. Höfundur skilur yfirleitt ekki mótmæli, og alls ekki að þau mótmæli sem nú eiga sér stað vegna morðs lögreglumanns á George Floyd snúast um annað og meira en það einstaka morð. Höfundur hefði betur spurt einhverja af þeim afbragðsblaðamönnum er starfa á Morgunblaðinu svo hann yrði sér ekki til háðungar en því miður valdi hann í staðinn að ausa út fáfræði sinni í steinum blaðsins.
Mótmælin, og samstöðumótmælin sem breiðast nú út um heiminn, eru vegna ofbeldis, rasisma og misréttis gagnvart mörgum kynslóðum svartra íbúa landsins. Ræturnar liggja í margítrekuðu ofbeldi lögreglunnar gagnvart svörtu fólki í Bandaríkjunum. Þannig er svart fólk þrefalt líklegra til að láta lífið af völdum lögreglu en hvítt fólk þrátt fyrir að vera aðeins um 13 prósent íbúa. Þá verður að hafa í huga að umtalsvert fleira svart fólk er drepið af lögreglu þar í landi fyrir það eitt að vera á röngum tíma á vegi lögreglunnar en nærri fimmfalt fleiri eru drepin af lögreglu þar sem þau eru óvopnuð á ferð. Þess vegna er mótmælt.
Staksteinar Morgunblaðsins voru í eina tíð hvöss lína flokkseigendafélags Sjálfstæðisflokksins. Þeir voru ekki endilega sannleikselskandi eða réttsýnir enda fyrst og fremst pólitískur og oft ósvífinn vöndur flokksins og því skemmtiefni þeim sem hafa gaman af pólitískum dansi.
Það er liðin tíð.
Í dag birtast steinarnir okkur sem aumur þráður til að dreifa þröngsýnum, hatursfullum og andstyggilegum skoðunum örvæntingarfulls fyrrverandi valdamanns sem neitar að sætta sig við að hans tími er löngu liðinn. Vonandi nær hann að lifa bjartari tíma en þann sem hann nú lifir. Biturleikinn er aldrei góður ferðafélagi.
helgavala@althingi.is
Höfundur er þingman Samfylkingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband