Óskemmtilegar breytingar á íslenskri tungu.

Íslenskan breytist nú örar en oftast áður. Ef til vill þarf að fara aftur á 14. öld til þess að finna svipaðar hliðstæður.

Um daginn spurði ég barn: Hvað gerðirðu í dag? Barnið skildi mig ekki fyrr en ég spurði: Hvað varstu að gera í dag? Þá svaraði barnið.

Nú er orðið mjög algengt að heyra setningar eins og þessa: Þetta er ekki að ganga. Áður fyrr sögðu menn: Þetta gengur ekki. Nútíð og þátíð virðast komnar á hratt undanhald. Menn voru að taka þátt í íþróttamóti í gær, menn eru að fá tiltekna fjárhæð á mánuði o.s.frv.

Þá virðast ýmis góð og gömul orð á undanhaldi. Flestir koma nú með komment á hitt og þetta. Þó eru til orð á íslensku sem lýsa þessu mun betur: athugasemd, aðfinnsla, ábending ..... svo að nokkur orð séu nefnd.

Þá hefur sögnin að bregða fengið nýja merkingu. Nú gerir mér enginn lengur hverft við heldur bregða menn mér. Mér hefur þó ekki verið brugðið lengi eða ekki síðan við strákarnir iðkuðum glímu fyrir löngu. Mér verður þó hvert við og bregður jafnvel líka þegar einhver gerir mér hverft við.

Morgunblaðið hefur birt að undanförnu málfarspistla sem eru af hinu góða. Ljósvakamiðlarnir, einkum tónlistarstöðvarnar, þyrftu að taka sig á að hefja markvissan áróður fyrir vönduðu málfari. Ef Íslendingar hætta að geta tjáð sig á eigin tungu er hætt við að þeir verði illa í stakk búnir til þess að tjá sig sæmilega á öðrum tungum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Birgisson

Mæl þú manna heilast Arnþór.

Ef íslensku kunnátta mín væri meiri tæki ég glaður þátt í þessari umræðu á faglegum nótum.  Fyrst að svo er ekki held ég bara áfram að leita til þín sem málfarsráðunauts.

Íslenska er okkar mál.

kv. Árni

Árni Birgisson, 31.5.2007 kl. 08:51

2 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Hæfileiki þjóðarinnar til að beyja sagnir í Íslensku er á hröðu undanhaldi,
nema þegar um sögnina "að vera" er að ræða.  Þetta er úrkynjun tungunnar.

Þetta sýnist mér vera áhrif úr ensku.

Dæmi: I am not getting this. => Ég er ekki að skilja þetta.

Helgi Viðar Hilmarsson, 31.5.2007 kl. 08:53

3 Smámynd: Davíð Bragason

Mikið er gaman að sjá að það er fólk til sem hefur áhuga á íslenskri tungu. Þetta er eitthvað sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga en verð að segja að hefur hrakað mikið síðustu ár og einna helst síðan ég flutti af landi brott.

Það er líka annað orð sem fer mjög í taugarnar á mér en það er orðið írónía, á sínum tíma er ég lagði stund á bókmenntafræði í HÍ komst ég í vandræði áfanganum er ég benti kennara mínum Helgu Kress á að við hefðum mjög gott íslenskt orð í staðin fyrir írónía en það er orðið kaldhæðni

Davíð Bragason, 31.5.2007 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband