Synt í Seltjörninni

Þegar ég kom heim úr vinnu í gær biðu þau Elín og Hringur tilbúin og við skelltum okkur út að Seltjörn. Stynningsgola var á af suðvestri, en veðrið annars yndislegt, sólskin og hlýtt. Nýttu sér margir blíðviðrið og hjóluðu, skokkuðu, hlupu eða gengu um stíginn sem liggur meðfram ströndinni.

Við Hringur og Elín óðum út í og verður að segjast sem er að sjórinn var kaldur. Eftir að hafa sopið nokkrum sinnum hveljur lét ég mig hafa það og lagðist til sunds. Fór ég ekki langt enda er mér nauðsynlegt að heyra hvar landið liggur.

Það var dálítil bára á Seltjörninni og því sóttist sundið fremur seint enda sundkappinn svo sem ekki jafnoki Grettis Ásmundssonar. En gaman var að beita sér gegn öldunni og láta síðan báruna bera sig að landi.

Það er ótrúlegt hve hressandi sjósundið er. Það er sem orkulindir líkama og sálar endurnýist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband