Örfá orð um blandaða bekki

Nokkur umræða hefur orðið um blandaða bekki eftir að birt var skoðanakönnun þar sem kom í ljós að flestir, danskir kennarar telji bæði fatlaða nemendur og ófatlaða skaðast á slíku fyrirkomulagi. Hefur borið nokuð á upphrópunum og alhæfingum í umræðunni hér á landi. En þegar grannt er skoðað getum við heilmikið lært af hinni dönsku umræðu.

Morgunvaktin stofnaði til athyglisverðrar umræðu í morgun um þessi mál. Að vísu forðuðust þátttakendur að taka eindregna afstöðu, en meginniðurstaðan varð þessi:

Kennarar eru yfirleitt fylgjandi blöndun fatlaðra nemenda við aðra nemendur. Til þess að hún geti gengið áfallalaust eða áfallalítið verður að fjölga fagfólki og sjá svo um að stuðningur við hina fötluðu nemendur verði veittur af til þess bæru fólki. Ófaglært starfsfólk hefur verið látið axla gríðarlega ábyrgð víða í grunnskólum landsins. Þótt margt af því, einkum konur, hafi lagt sig fram um að veita sem besta þjónustu hefur iðulega skort á nauðsynlega grunnþekkingu þess Skólastjórnendur hafa iðulega ekki gert sér grein fyrir að ekki er nægilegt að veita stuðning í tímum heldur verður iðulega að veita sérstaka kennslu til þess að fatlaðir nemendur haldi í við jafnaldra sína. Til þess þarf einatt sérmenntað starfsfólk.

Í Reykjavík eru dæmin til þess að varast. Blindradeildin var eyðilögð og nú er ástandið í skólamálum blindra að sumu leyti verra en fyrir 40 árum.

Hér á landi gefst fólki enn kostur á að senda börn sín í sérskóla. Slíkir skólar eiga rétt á sér við ýmsar aðstæður. Fötluð börn og ungmenni eiga einnig rétt á að ganga í almenna skóla og kynnast jafnöldrum sínum og það eykur víðsýni ófatlara barna að kynnast fötluðum jafnöldrum. En það verður að gæta þess að þau verði ekki undir í framrás nútímaþjóðfélags á Íslandi. Til þess eru vítin að varast þau.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband