Ný tækni verður heyrnarlausu fólki að liði

Þá er þriðja kynslóð farsíma komin á markað á Stór-Seltjarnarnessvæðinu og afhenti Síminn Samskiptamiðstöð heyrnarlausra 13 slíka síma í gær. Einnig var kynntur samningur á milli fyrirtækisins og Félags heyrnarlausra sem hefur í för með sér að heyrnarlausir félagsmenn (a.m.k.) fá slíka síma sér að kostnaðarlausu. Þá munu heyrnarlaus grunnskólabörn njóta sömu kjara.

Það er stórkostlegt hvernig tölvan getur rofið einangrun fólks, sé rétt á málum haldið. Þriðja kynslóð farsímanna er dæmi um slíkt, einnig tölvupósturinn. Hafi einhverjir hópar notið góðs af þessari tækni er það blint fólk og heyrnarlaust. Nú geta heyrnarlausir einstaklingar spjallað saman í síma með táknmáli. Þessi þriðja kynslóð opnar einnig leiðir þeim sem eru blindir. Staðsetningartækninni á eftir að fleygja stórkostlega fram og slíkir símar geta orðið þessum hópi að gagni. Þegar þriðja kynslóðin var kynnt á tækniráðstefnu fyrir nokkrum árum var m.a. minnst á að blindur notandi gæti verið me slíkan síma á sér. Ef hann villtist gæti hann hringt í kunningja sinn og sjónvarpað beint frá staðnum sem hann væri staddur á. Þannig yrði hægt að koma honum til aðstoðar. En án alls gamans opnar þessi tækni nýjar víddir sem fæstum munu kunnar enn sem komið er.

Mig langar, sem gamall áhugamaður um málefni heyrnarlauss fólks, til þess að óska því til hamingju með þessa tækni og vona að fleira gott fylgi á eftir. Um leið langar mig til að skora á nýju ríkisstjórnina að endurskoða nú 33. gr. tryggingalaganna og hætta að neyða atvinnuveitendur til þess að kaupa dýr hjálpartæki handa því starfsfólki, sem er fatlað og þeir vilja ráða til starfa. Þar á ríkisvaldið að hlaupa undir bagga. Núverandi túlkun tryggingalaganna er fjötur um fót þeirra sem eru blindir eða heyrnarlausir og vilja hasla sér völl á almennum vinnumarkaði. Þá eru hinar magvíslegu tekjutengingar afar óþægilegar og þess er vandlega gætt að halda fötluðu fólki, sem fær ekki stundað fulla vinnu, vel innan fátæktarmarka.

Ríkið á að hætta að leggja steina í götur þeirra fötluðu einstaklinga sem vilja vinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband