40 ára Kínaafmæli

Tíminn flýgur áfram.

Á morgun verða 40 ár liðin síðan ég keypti fyrir slysni mína fyrstu kínversku hljómplötu með kórverkinu FRELSUNIN eftir Le Meng. Ekki vissi ég fyrr en löngu síðar hvað tónverkið hét, enda var allt á kínversku sem prentað var á umslag plötunnar. Þriðji þáttur tónverksins hófst á laginu AUSTRIÐ ER RAUTT sem hefur fylgt mér æ síðan og gerir sjálfsagt til hinstu stundar.

Mér þykir rétt að miða við þennan atburð þótt ég hefði fengið nokkurn áhuga á kínverskri tónlist og menningu áður. Ég minnist t.d. útvarpsþátta Dr. Jakobs Benediktssonar og makalausra erinda Stefáns Jónssonar sen hann flutti í Ríkisútvarpið þegar hann kom frá Kína haustið 1966. En eftir 15. september 1967 varð ekki aftur snúið. Ég hef verið hugfanginn af kínverskri sögu og menningu síðan þá og stundum kallað Kína eilífðarkærstuna mína.

Það er víst svo að ýmsir verða hrifnir af ýmsum löndum. Því fylgir oft aukin ást á eigin landi og þjóð. Vegna starfa minna að menningartengslum Kína og Íslands hef ég skynjað betur en áður að smáþjóðir þurfa að halda reisn sinni gagnvart sér fjölmennari þjóðum og gagnkvæmar viðræður um álitaefni skila mun meiri árangri en upphrópanir og gífuryrði.

Ekki ætla ég að halda upp á fertugsafmælið með neinni flugeldasýningu. En við hjónin förum á Kínahofið á morgun að gæða okkur á kínverskum mat. Ætli ég taki ekki geisladisk með byltingartónlist með og biðji veitingamanninn að setja í geislaspilarann. Verst að úrvalið er ekki nægilega mikið. En sjáum hvað setur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með daginn! Verði ykkur Elínu að góðu.

Chao og Emil 

Emil (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 02:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband