Vansæmd og vansæld

Um þessar mundir les Hjalti Rögnvaldsson framhaldssögu í útvarpið sem kallast Vansæmd. Sagan greinir frá háskólakennara sem þjáist af girnd til kvenna. Honum verður það á að eiga of náin kynni við einn nemanda sinn og verður að hverfa frá starfi.

Sagan lýsir á átakanlegan hátt hvernig háskólakennarinn verður vansæmdinni að bráð með athæfi sínu og ekki síður vegna ýmissa aðstæðna sem hann ræður ekki við. Hvað sem hann tekur sér fyrir hendur verður honum til vansæmdar. Hann reynir þó að bea höfuðið hátt.

Það er ýmislegt sem veldur bæði vansæld og vansæmd fólks. Atvinnuleysi fylgir vansæld og ekki síður vansæmd. Það er vansæmd að vera rekinn fyrirvaralaust úr starfi án nokkurra saka. Það er vansæmd í því fólgin að fá ekki að beita kröftum sínum í þágu þess málstaðar sem menn hafa helgað sig. Það er í því fólgin vansæmd og vansæld að fá ekki notið þekkingar sinnar og orðið öðrum að einhverju liði.

Þótt við háskólakennarinn í sögunni eigum fátt sameiginlegt finn ég til viss skyldleika við hann. Mér finnst þessa dagana eins og hægt og hægt molni undan fótunum á mér. Þetta eru hættulegar hugrenningar. En ég skrifa þær til þess að stappa í sjálfan mig stálinu. Það er einnig hverjum þeim vansæmd sem níðist á náunga sínum.

Fyrr eða síðar hlýtur að birta til. Að minnsta kosti fer daginn aftur að lengja eftir rúma tvo mánuði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband